«

»

Molar um málfar og miðla 711

Í tíufréttum Ríkisútvarps (08.09.2011) var talað um að stöðva skuldavandann. Ekki er hægt að tala um að stöðva vanda. Hér hefði til dæmis mátt tala um að ráða bót á skuldavandanum.

Á mbl.is (08.09.2011) er talað um að slökkviliðsmenn hafi náð valdi á skógareldum í Texas. Venja er tala um að ná tökum á eldi frekar en valdi, þegar slökkviliðsmenn hafa náð yfirhöndinni í baráttu við eld.

Úr dv.is (08.09.2011): Þar var bifreið ekið yfir á rauðu ljósi sem var orsakavaldur að árekstrinum. Hér hefði til dæmis mátt segja: Áreksturinn varð vegna þess að bifreið var ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Orðið orsakavaldur er bara bullorð.

Sigfús þakkar málfarsmolana og sendi eftirfarandi (08.09.2011): Formaður efnahags- og skattanefndar sagði í fréttunum í kvöld að,,…ábyrgðarleysi væri að framlengja ekki GJALDEYRISHÖFTUNUM“…. og síðar,,.. að framlengja ÞEIM“. Ég hefði haldið að þolfallið ætti frekar við en þágufallið, þ.e. ,,… framlengja ekki GJALDEYRISHÖFTIN“ og ,,… framlengja ÞAU“. Þakka þér annars fyrir alla málfarsmolana. Molaskrifari er sammála Sigfúsi.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (09.09.2011) var sagt …. segist ætla að fara hvergi. Molaskrifari hallast að því að betra hefði verið að segja: … segist hvergi munu fara.

Heimir benti á eftirfarandi frétt á visir.is (09.09.2011): Minnstu munaði að mikil sprenging varð í gagnvari Verne á Ásbrú í Reykjanesbæ í morgun þegar eldur kom upp í gaskúti. Heimir segir: ,,Þetta upphaf á fréttinni er eins og gáta, – getur verið að minnstu hafi munað að sprenging (kannski mikil) YRÐI í gagnaveri Verne þegar eldur komst í gaskút ? og… eru gaskútar í dag með þannig gerðir að eldur getur komið upp í þeim”. Rétt er það. Þetta er undarlega skrifað. .

Í lokin koma hér þarfar ábendingar frá Bjarna Sigtryggssyni:
„Í upphafi skyldi endirinn skoða“ segir í fyrirsögn leiðara 6. tbl. Ægis í ár. Þar sem þetta er svo endurtekið í texta er ljóst að þetta er ekki prentvilla, heldur útbreidd málvilla. Endirinn er ekki gerandi í þessu máli; hann er ekki að fara að skoða neitt, heldur er átt við að menn skyldu jafnan hugleiða endi máls við upphaf þess. Í grein um kríuvarp í sama tbl. segir í upphafsmálsgrein: „Ef ungaframleiðsla verður áfram litil sem engin, líkt og við höfum verið að mæla síðastliðin ár..“ Ég verð að játa að hugtakið „ungaframleiðsla“ hljómar undarlega þegar átt er við þann fjölda kríuunga, sem komast á legg. Og loks; „höfum verið að mæla“ er dæmi um nafnháttarfárið, sem tröllríður nútíma málfari. Af hverju þessar óþarfa málalengingar? Af hverju ekki einfaldlega: „…líkt og við höfum mælt“? – Þakka sendinguna , Bjarni.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Í lokin koma hér þarfar ábendingar frá Bjarna Sigtryggssyni:
    „Í upphafi skyldi endirinn skoða“ segir í fyrirsögn leiðara 6. tbl. Ægis í ár.“
    Kannski er þetta málfræðilega „rangt“. Hins vegar hefur þetta orðalag tíðkast frá forneskju og hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt í íslensku máli. Af sama meiði er „steypirinn“ en ég hygg að fáum Íslendingum sem komnir eru til vits og ára dytti í hug að segja: „Hún Sigga er komin á steypinn“, en létu eftir sér að nefna „steypirinn“ í því sambandi, væri konan á annað borð þannig á sig komin. Það sagði a.m.k. Halldór Halldórsson lærifaðir minn í fyrndinni og var sá bæði vel að sér í málfræði og hafði alveg prýðilega máltilfinningu.
    Og svo sagði maðurinn: „…átt er við þann fjölda kríuunga, sem komast á legg.“
    Jamm. Glerhús? Grjót?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>