«

»

Molar um málfar og miðla 714

Fínt er að vera búin að fá Kiljuna og Silfur Egils á dagskrá að nýju. Ásamt Landanum er þetta tvennt með því bitastæðasta í Ríkissjónvarpinu. Langt símaviðtal Egils við Sigrúnu Davíðsdóttur með einni ljósmynd af henni og stúdíómynd af Agli var hinsvegar óravegu frá því að vera sjónvarpsefni. Auk þess sem Sigrún, svo ágæt sem hún oft er, er enginn sérfræðingur um málefni Asíu , hvað þá Kína sérstaklega. Enda kom það fram í viðtalinu. Egill hefði til dæmis getað rætt við dr. Jón Orm Halldórsson sem veit sínu vitu um Kína og kann að setja samskipti Kína og umheimsins í samhengi. Í öndvegis viðtali við Noam Chomsky seinna í Silfrinu horfði hann á heildarmyndin af Kína og samskiptum Kína við umheiminn. Fínt og mjög fróðlegt viðtal.
En, ósköp var að heyra varþingmann Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu (11.09.2011) segja: Mönnum hafi færst of mikið í fang … Það er undarleg staða þegar talsmenn Sjálfstæðisflokksins margir hverjir keppast um verja vitleysuna sem viðgengst á Bessastöðum.

Egill sendi eftirfarandi (12.09.2011): ,, „Hin heilaga þrenna“ sagði Andri Freyr Viðarsson á Rás 2 nú áðan. Ég lærði nú að þetta kallaðist þrenning, væri hún heilög.” Og Egill bætti svo við: Andra Frey var tíðrætt um mæðgurnar „Elleni“ og „Elíni“ í þættinum í morgun á Rás 2. Skv. Orðabók Háskólans beygist Ellen svona: „Ellen, Ellen, Ellen, Ellenar“ og Elín: „Elín, Elínu, Elínu, Elínar“. Egill, – þetta þarf ekki að vera svo nákvæmt á Rás tvö. Málstefna Ríkisútvarpsins gildir vísast ekki þar. – Egill hlustaði líka á Bylgjuna þennan sama dag og segir: ,,Í Bylgjufréttum áðan, var talað um Dalsveg, en hann er ekki til. Gatan heitir Dalvegur. Svona er það þegar menn ætla að vanda sig um of. Stundum heyrist fólk tala um Laugarveg, í stað þess að tala um Laugaveg.”

Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins virðist halda að þjóðin standi á öndinni yfir þjálfaraskiptum hjá íþróttafélögum. Staðreynd er þó að sennilega er þorra þjóðarinnar nákvæmlega sama hver þjálfar hvaða lið.

Hjarta mitt brotnaði við þetta, hefur dv.is eftir viðmælanda (12.09.2011). Hér er róið á mið enskunnar þar sem hefði verið gott og gilt að segja: This broke my heart. Á íslensku fer betur á að segja: Hjarta mitt brast ….

Enn ein bjánavillan á mbl.is (12.09.2011): Einar Sveinsson og tengd félög hefur aukið hlut hlut sinn í Nýherja og fer nú með 15,2% hlutafjár í félaginu. Einar Sveinsson og tengd félög hafa aukið … og fara nú með …. ætti þetta að vera. Er Einar Sveinsson annars félag? Ætti þetta ekki að vera: Einar Sveinsson og félög honum tengd hafa aukið … og eru nú með …

Í fréttum klukkan fimm að morgni (13.09.2011) í Ríkisútvarpinu var sagt: Þetta er rekið til … Þetta orðalag hefur heyrst áður. Þeir sem svona skrifa og lesa gera ekki greinarmun á sögnunum að reka og að rekja. Þær eru hreint ekki sömu merkingar. Þarna hefði átt að segja: Þetta er rakið til eða þetta má rekja til …

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ekki endilega.

  2. Axel skrifar:

    Ósammála. Sara blessunin notar fjörugt tungutak eins og ungt fólk gerir oft listavel. Frekar grillað að gagnrýna almenna þegna landsins fyrir að nota slangur í fjölmiðlum – einfaldlega af því það fellur ekki að smekk þeirra sem telja sig vita betur. Umræða um tungumálið getur verið skemmtileg og gagnleg. En þarf hún alltaf að vera neikvæð? Þarf hún alltaf að snúast um rétt og rangt?

  3. Eiður skrifar:

    Fátt er fallegt við þetta og líkingin langsótt.

  4. Axel skrifar:

    Ég styð Söru heilshugar í stóra ,,frekar steikt“ málinu. Um er að ræða rótgróið og fallegt slangur.

  5. Eiður skrifar:

    Ekki lengur, Egill. Ekki lengur.

  6. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Á mbl.is í morgunn er fjallað um komu leikarans Ben Stiller til Íslands. Þar er rætt við stúlku Söru að nafni og talar hún um að það hafi verið „frekar steikt“ að sjá leikarann á Seltjatnarnesi í gær. Ég hélt að það væru takmörk fyrir öllu en svo virðist ekki vera.
    KVeðja, Egill Þorfinnsson

  7. Eiður skrifar:

    Rétt, Ingólfur.

  8. Ingólfur Arnarson skrifar:

    Fylgist með skrifum þínum og líkar allvel; en að skrifa–Fínt er að vera búin að fá Kiljuna og Silfur Egils á dagskrá að nýju– gengur ekki. Frekar: fínt er að hafa fengið….
    Þetta orðfæri– búin að/er eða búið að/er–tröllríður öllu.
    Takk samt.

  9. Kristján skrifar:

    Bjarni Benediktsson segir ríkisstjórnina sýna „mikið ofbeldi“ gagnvart stjórnarandstöðunni. Og líka „gríðarlega mikla stífni“. Það virðist ekki mikið spunnið í þennan annars ágæta mann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>