Málfarsmínúta Bjarka M. Karlssonar málfræðings í lok Spegilsins í Ríkisútvarpinu á föstudögun er góðra gjalda verð og áhugavert efni fyrir þá sem láta sig móðurmálið nokkurs varða. Málfarsmínútu Bjarka mætti þó velja annan stað í dagskránni. Mætti til dæmis vera í hádegisútvarpi, þegar þess er að vænta að fleiri séu að hlusta og mínúturnar mættu að skaðlausu vera tvær, jafnvel þrjár. Svona þáttur ætti að vera daglega í Ríkisútvarpinu þar sem allar mínútur eiga að vera málfarsmínútur.
Í sexfréttum Ríkisútvarps (24.09.2011) var í fréttayfirliti og inngangi að frétt réttilega talað um að útflutningsverðmæti sjávafurða hefði aukist. Í fréttinni talaði fréttamaður hinsvegar um að útflutningsverðmæti hefði hækkað. Betra er að tala um að verðmæti aukist en að verðmæti hækki.
Bjarni Sigtryggsason sendi eftirfarandi: ,,Samninganefnd félagsráðgjafa skrifuðu undir… sagði í frétt Stöðvar-2 í kvöld, sunnudag. Það er dapurlegt að það skuli varla nokkur fréttatími vera laus við málvillur. Ef fréttamenn skrifa ekki rétt er það á ábyrgð fréttastjóra að veita leiðsögn. Nefndin skrifaði – en félagsráðgjafar skrifuðu.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Þegar farmiðasalinn Iceland Express sinnir skyldum sínum við farþega sem lenda í hremmingum vegna seinkana telja fjölmiðlar að um stórfrétt sé að ræða sem er margendurtekin í löngu máli. Meira að segja var talað um hótel þar sem farþegar fái ,,góða hvíld”. Þó að Iceland Express tali í fréttatilkynningu um ,,góða hvíld” eiga fjölmiðlar ekki að éta það orðrétt eftir. Undarleg vinnubrögð. Iceland Express spilar á fjölmiðla.
Í fréttayfirliti sexfrétta Ríkisútvarpsins (25.09.201) var talað um kirkjuna í Sandgerði. Engin kirkja er í Sandgerði, en þar er safnaðarheimili, eins og réttilega var sagt í sjálfri fréttinni. Í sama fréttatíma var talað um íþróttamann sem sigraði þá glímu naumlega. Sigraði glímuna. Það var og. Í þessum fréttatíma var talað um að endurvekja traust á stofnanir. Molaskrifari hallast að því að betra væri að tala um traust á stofnunum. Það var ágætlega orðað í hádegisfréttum þennan sama dag þegar talað var um hrókeringar í æðstu valdastöðum í Rússlandi.
Fékk aðsvif og klessti á. Leikskólamál í fyrirsögn á visir.is (24.09.2011).
Stöð tvö fær plús fyrir að segja í skjátexta Úr myndasafni (25.09.2011) en láta ekki eins og verið sé að sýna okkur nýteknar myndir eins og Ríkissjónvarpið gerir þegar sýndar eru myndir úr safni.
Í ágætum pistli um hundaskít á Rás tvö (26.09.2011) talaði Gísli Einarsson um kúatað. Molaskrifari hafði aðeins heyrt talað um hrossatað, hrossaskít og kúamykju og kúaskít og fletti því orðinu upp. Auðvitað er kúatað þurrkaður kúaskítur og ekki stóralvarlegt að stíga í það af slysni. Vonandi hafa sóðar sem eiga hunda hlustað á þennan pistil.
Í DV í dag (26.09.2011) er skemmtileg umfjöllun um ,,bestu raftækin” fyrir tækjagraða lesendur. Þar er sagt frá Canon myndavél og um hana segir: Með vélinni sé auðvelt að fanga myndir í góðum gæðum. Nú má auðvitað deila um orðalagið að fanga myndir, en látum það vera. Það er verra með góðu gæðin. Í orðinu gæði felst nefnilega að það sem átt er við sé vandað og gott.
Skildu eftir svar