Heilsíðusubbuauglýsing bílasalans Ingvars Helgasonar og B&L er birt á ný með óbreyttum enskuslettum í Fréttablaðinu á þriðjudegi (18.10.2011). Í sama blaði er mikil lofgrein um Exide-rafgeyma, en á sömu síðu er auglýsir innflytjandi og seljandi ágæti þessara sömu rafgeyma sem hreint ekki skal dregið í efa.. Borguð auglýsing – keypt greinaskrif liggur beint við að álykta. Ekki mjög faglegt. Ágætt orðalag er í parket auglýsingu frá Agli Árnasyni í blaðinu. Það er talað um ,,borðleggjandi gæði” Aðeins meira um auglýsingar. Íslensk fyrirtæki ættu að vanda sig meira við val á auglýsingahönnuðum og velja fólk sem ekki þarf að sletta á okkur ensku eða ambögum.
Á forsíðu dv.is (18.10.2011) er þessi fyrirsögn: Ótrúleg grimmd: Keyrt tvisvar yfir barn og enginn gerði neitt. Undir þessu stendur : 2403 líkar þetta. Það er meingallað kerfi sem skilar svona upplýsingum á skjáinn. Varla getur verið að á þriðja þúsund manns hafi ,,líkað þetta”.
Lesandi sendi eftirfarandi: ,,Í stuttri frétt á vísir.is (17.10.2011), Erfingi L’Oreal svipt sjálfræði, eru margar ambögur.
„Í úrskurði dómarans kom fram að andleg heilsa Bettencourt, sem er 88 ára gömul, væri í afar slæmu ástandi …“ – m.ö.o. heilsan var í slæmu ástandi.
Tvívegis er talað um fjölskyldumeðlimi: „Þetta var niðurstaðan í máli sem fjölskyldumeðlimir hennar höfðuðu gegn henni“ og „Dómarinn fyrirskipaði að Bettencourt yrði komið í umsjá fjölskyldumeðlima sinna“. Þessi ofnotkun orðsins meðlimir er hvimleið, sbr. einnig áhafnarmeðlimir, félagsmeðlimir, o.fl., þegar önnur nærtækari orð eru til í málinu. Miðað við efni fréttarinnar væri nær væri að tala um ættingja, börn eða erfingja.
Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: „Bettencourt verður komið í umsjón dóttur sinnar, Francoise Bettencourt-Meyers. Mikið ósamlyndi hefur verið milli mæðginanna undanfarin ár.“ Mæðgin eru móðir og sonur, mæðgur eru móðir og dóttir. Hér átti blaðamaður augljóslega að skrifa „mæðgnanna“, sbr. mæðgur, mæðgur, mæðgum, mæðgna.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Vonandi les sá sem fréttina skrifaði þessar ágætu ábendingar.
Prýðilega skrifuð frétt var í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (19.10.2011) , fyrst klukkan fimm og svo aftur í seinni fréttatímum um merkan fornleifafund í Skotlandi. Fyrst var talað um skipskuml, seinna um bátskuml sem líklega er réttara ef fleyið var fimm metra langt.
Í Punktum Jónasar Kristjánssonar er talað um lífrænt ræktaða mjólk. Öll mjólk er lífræn og svo er mjólk ekki ræktuð, – að minnsta kost ekki þar sem Molaskrifari þekkir svolítið til mjólkurframleiðslu. En upptalning Jónasar á afurðum beint frá býli er lofsverð og sýnir mæta vel hvað íslenskir bændur geta gert hafi þeir frumkvæði og þor, – djörfung og dug. Svo eru forystumenn bændasamtakanna og landbúnaðarráðherrann að deyja úr hræðslu við erlendar landbúnaðarafurðir! Þeir sjá ekki mjög langt frá sér, reyndar ætti kannski frekar að segja: Maður líttu þér nær !
Í leiðara Morgunblaðsins (18.10.2011) verður höfundi tíðrætt um ágæti efnahagstillagna Framsóknarflokksins. Greinilegt er að höfundur iðar í skinninu að komast aftur að kjötkötlunum í helmingaskiptum við Framsókn svo hægt sé að hefja einkavinavæðinguna að nýju. Ríkið á alltént einn banka sem hægt er að koma í eigu þóknanlegra. Menn hafa reynslu í slíku. Þjóðin býr að biturri reynslu eftir of langt samstarf þessara tveggja flokka sem enn og aftur treysta á gullfiskaminni íslenskra kjósenda. Líklega mun það ekki bregðast þeim frekar en endranær.
9 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Sigurjón Halldórsson skrifar:
24/10/2011 at 14:27 (UTC 0)
Það er rétt að umræðan um svokallaðar „lífrænt ræktaðar“ vörur líkist stundum trúboði. Mín reynsla er samt sú að slíkar vörur séu oft bragðbetri en hinar venjulegu og það þykir mér góð ástæða til að kaupa þær. Þá borga ég gjarna 50% hærra verð, en líklega eru ekki allir tilbúnir til þess.
Haukur: orðið „bio“ er jafnklaufalegt og „lífræn ræktun“, enda vísar það til sömu hugmyndarinnar um að eitthvað sé meira lífrænt við þessi matvæli en önnur.
Þorvaldur S skrifar:
20/10/2011 at 19:18 (UTC 0)
„Það eru ekki til á íslenku orð um allt sem er hugsað á jörðu, þótt Einar kallinn hafi fullyrt slíkt sautján hundruð og súrkál.“
Nú geri ég ráð fyrir að Haukur eigi við Einar Benediktsson, sem fæddist 1864 og dó 1940. Það er því ljóst að það var orðum aukið að hann hafi getað fullyrt þetta sautjánhundruð og súrkál. Enda fullyrti hann þetta ekki. Hann sagði: „Ég skildi að orð er á Íslandi til/ um allt sem er hugsað á jörðu.“
Haukur Kristinsson skrifar:
20/10/2011 at 18:47 (UTC 0)
Það er rétt sem hér er skrifað að þessi trú á svokallaða lífræna eða „bio“ framleiðslu minnir orðið á „faith“, þar sem lítið eða ekkert rúm er fyrir skynsemi og staðreyndir. Rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós að t.d. ávextir eða grænmeti, sem framleitt eru með meira en 100 ára gömlum aðferðum hafa minna næringargildi og eru í lakari gæðafloki, sem sagt óhollari, en framleiðsla sem nýtir nýjustu tækni efna- og matvælaiðnaðar. Þetta er farið að minna á öfgahópana sem reyna að koma í veg fyrir bólusetningu barna. Og það sem Friðjón skrifar er auðvitað hárrétt, að fólk verður að gera reitt sig á eftirlit stjórnvalda.
Eiður skrifar:
20/10/2011 at 18:10 (UTC 0)
Þessi lífræna dýrkun nálgast trúarbrögð. Í verslunum forðast ég frekar það sem kallað er lífrænt, – það er smurt á það og ég hef enga tryggingu fyrir því að fullyrðingin um lífræna ræktun eins og kallað er eigi við rök að styðjast eða hvort það er hollara vara svona yfirleitt.
Friðjón Guðjohnsen skrifar:
20/10/2011 at 16:49 (UTC 0)
Þetta gæti hæglega orðið eins og þessi 1% / 99% skipting í Bandaríkjunum. Ef öll framleiðsla í heiminum yrði „lífræn“ þá er augljóst að mun minni matur yrði til skiptana. Væntanlega mun verð matvæla hækka og þá munu þessi 99% hafa ennþá minna fyrir sig.
Að hampa einhverri matvöru á þeim forsendum að hún sé framleidd á sama hátt og áður en menn fundu leiðir til að verjast skordýrum og hámarka uppskeru er í mínum huga kjánalegt. Að borga svo hærra verð fyrir hana bítur höfuðið af skömminni.
En auðvitað ætti að varast öfgarnar í báðar áttir, þessi markaðsdrifni matvælaiðnaður leiðir oft til meiri áherslu á verð heldur en hollustu. Og þar kemur að því að fólk verður að reiða sig á eftirlitshlutverk stjórnvalda til þess að sjá til þess að matur sé ekki beinlínis hættulegur. En það á að gerast á vísindalegum forsendum en ekki tilfinningalegum eins og allt of oft sést í málflutningi framleiðanda „lífrænna“ matvæla.
Eiður skrifar:
20/10/2011 at 16:13 (UTC 0)
Er þetta ekki eins og í Bandaríkjunum 1% gegn 99%?
Friðjón Guðjohnsen skrifar:
20/10/2011 at 15:13 (UTC 0)
Ég er hjartanlega sammála Eiði varðandi „lífræna ræktun“. Þetta er dæmi þar sem val á ný-yrðum er gildishlaðið til að móta skoðanir. Með því að kalla matvörur sem ræktaðar eru á óhagkvæman hátt „lífrænar“ er verið að gefa þá mynd að önnur matvara hljóti að vera á einhvern hátt tilbúin úr einhverjum öðrum ferlum t.d. efnafræðilegum.
Það sem menn gleyma oft í þessari umræðu er að heimurinn mundi ekki geta fætt jafn marga ef snúið yrði að eldri aðferðum. Því verður þetta aldrei annað en kjánaleg árátta ríkari hundraðshluta jarðarbúa.
Gunnar Björn Björgvinsson. skrifar:
20/10/2011 at 12:27 (UTC 0)
Sæll Eiður,
-þú segir að forystumenn bændasamtakanna og landbúnaðarráðherra séu að deyja úr hræðsu viðr erlendar landbúnaðarafurðir. Ef grannt er skoðað þá er sú hræðsla ekki að ástæðulausu. Ég bý í Svíþjóð, sænskir svínabændur t.d njóta styrkja við sýna framleiðslu, -þó eru þeir ekki samkeppnishæfir við danskt svínakjöt. Sænsk garðyrkja keppir við garðyrkjuframleiðendur í holland, – sænskir garðyrkjumenn kveina undan samkeppni frá Ítalíu og Hollandi þó njóta sænskir garðyrkjumenn góðs af ódýru innfluttu vinnuafli og niðurgreiddu innlendu vinnuafli. Margir sænskir garðyrkjumenn hafa lagt upp laupanna undanfarin misseri.
-Það er ótrúverðugt þegar félagshyggumenn boða inngöngu í ESB á Íslandi án félagslegra aðgerða í kjölfarið. Þ.e að hinir ýmsu framleiðendur geti hætt framleiðslu og snúið sér að öðru, án þess að lífsgæði þeirra verði skert.
-Mér er ekki ljóst með hvaða hætti innganga í ESB á að bæta lífskjör Íslendinga.
Besta kveðja.
Gunnar Björn.
Haukur Kristinsson skrifar:
20/10/2011 at 12:06 (UTC 0)
Jónas Kristjánsson er ekki hress með athugasemd Eiðs við hugtakið “lífræn ræktun”. Kennir vanþekkingu um. En ég er Eiði sammála. Hugtakið vistvæn ræktun er Ok, en “lífræn ræktun” er afar klaufalegt og mætti hverfa úr okkar orðaforða. Betra væri að nota bara orðið “bio” og vera ekki með neinn þjóðrembing. Það eru ekki til á íslenku orð um allt sem er hugsað á jörðu, þótt Einar kallinn hafi fullyrt slíkt sautján hundruð og súrkál.