«

»

Molar um málfar og miðla 749

Dæmi um óþarfa þolmynd úr mbl.is (19.10.2011): Maður var bitinn af hundi á höfuðborgarsvæðinu í gærmorgun. Hann var við útburð þegar þetta gerðist … Einfaldara hefði verið að segja: Hundur beit bréfbera á höfuðborgarsvæðinu í gær …

Eftirfarandi er frá Agli (20.10.2011): ,,Ótrúlega margir treysta sér ekki í sagnbeygingar og grípa því til hjálparsagnarinnar að vera. Sem viðskiptavinur í Stofni ertu ekki að hafa áhyggjur af þessu, hljómar í útvarpsauglýsingu frá Sjóvá, þessa dagana. Maður hefði haldið að auglýsingastofan Hvíta húsið hefði góða málfræðinga innan sinna vébanda, en svo virðist ekki vera. Því miður.”

Vala Pálmadóttir sendi Molum eftirfarandi (19.10.2011): Sæll Eiður,
hugsaði til þín þegar ég sá þetta: http://visir.is/fyrsta-geimhofn-jardar/article/2011111018862
Þar á meðal er Buzz Aldrin en hann er næstfyrsta manneskjan til að ganga á Tunglinu .
… að vera næstfyrstur??” Ekki nema von að spurt sé. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Svona hefst frétt á visir.is (19.10.2011): Ekið var á reiðhjólamann á Dalvegi í Kópavogi rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Í fyrirsögninni var líka talað reiðhjólamann, – rétt hefði verið að tala um hjólreiðamann.

Það jaðrar við málspjöll hvernig tilgerðarleg konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins segir tíu sinnum á kvöldi: Hér …. á Rúv. Þetta er sagt eins sá sem talar fái andarteppu eða hiksta í þessari þriggja orða setningu. Ekki boðlegt.

Lesandi spyr: Rætt hefur verið um yfirþyrmandi viðbrögð við Sögueyjunni. Mér hefur alltaf fundist þetta orð hafa neikvæða merkingu, þó sú sé augljóslega ekki ætlanin í þessu tilviki. Hvað virðist þér? – Molaskrifari er hjartanlega sammála. Í hans huga fylgir orðinu yfirþyrmandi neikvæður blær.

Reynir sendi þetta (20.10.2011): ,,Krókódíll reynir að éta fíl. Hver hefur betur?, er fyrirsögn á dv.is í dag. Þarna hefði átt að skrifa: Hvor hefur betur? þar sem um tvo er að ræða. Þetta ættu þeir að kunna, greyin sem bisa við að þýða erlendar fréttir.”

Áskell sendi eftirfarandi vegna fréttar á mbl.is (20.10.2011): ,,Þetta var það sem mér fannst eðlilegast. Drottningin rétti út hönd sína og ég tók í hana og beygði mig, segir hún. (Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu)
Í fyrirsögn á fréttinni er Julia sögð hafa hneigt sig. Ég átta mig ekki á hvers vegna það er ekki líka sagt í meginmáli. Annars væri gaman að sjá hvernig Julia beygir sig (og sveigir).” Takk fyrir, sendinguna Áskell.

Fínt innslag Brynju og Jónasar Ingimundarsonar í Föstudagskastljósi Ríkissjónvarpsins (21.10.2011). Meira af slíku !

Geðvonskubréf forseta Íslands til forsætisráðherra hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Bréfið er með ólíkindum. Þeir sem til þekkja telja sig sjá á undirritun forsetans að hönd hans hafi skolfið af reiði þegar hann skrifaði undir bréfið. Undarlegt er að hlusta á formann Framsóknarflokksins og raunar fleiri þingmenn þess undarlega félags verja þessi geðillskuskrif Ólafs Ragnars Grímssonar.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    „Hér…á RÚV“ „Hér…á RúV“ „Hér…..á RÚV“. Sammála þér, Eiður. Þetta er pirrandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>