«

»

Molar um málfar og miðla 755

Fréttastofa Ríkisútvarpsins óskaði upplýsinga um það sem virðist þarflítil ferð innanríkisráðherra og embættismanns á vegamálaráðstefnu í Mexíkó um þær mundir sem ráðherrann átti að vera við setningu Alþingis. Innanríkisráðherrann, gamall starfsmaður Ríkisútvarps, bregst barnalega við. Vill fá upplýsingar um ferðakostnað útvarpsstjóra og fréttastjóra. Þeirra upplýsinga gæti hann látið einn af embættismönnum sínum afla með símtali eða tölvupósti. Annars er ráðherrann lélegur við að afla upplýsinga. Það veit Molaskrifari af reynslu.

Þegar sagt var í fréttum Stöðvar tvö (25.10.2011) að björgunarmenn hefðu unnið sleitulaust inn í nóttina var það óíslenskulegt orðalag. Betra hefði verið að segja , – björgunarmenn unnu sleitulaust langt fram á nótt, eða alla nóttina, eftir því hvort við átti.

Þegar 350 manns hafa farist í mestu flóðum í manna minnum í Taílandi og hlutar höfuðborgarinnar eru undir vatni var það fáránlegt hjá Stöð tvö (25.10.2011) að uppistaðan í frétt um flóðin skyldi vera viðtal við móður íslensks krimma sem situr í fangelsi í Taílandi og ekki er vitað til að sé í neinni hættu.

Olíusalinn N1 og símafélagið Vódafón gera í sameiningu atlögu að íslenskri tungu með app-kjaftæðisauglýsingum sem dynja nú á sjónvarpsáhorfendum á hverju kvöldi. Engin tilraun er gerð til að skýr út fyrir fólki hvað þetta app sé. Þessi fyrirtæki eru í flokki með bílasalanum Ingvari Helgasyni og B&L sem auglýsir bíladíla.

Það er heldur leiðigjarnt að hlusta á viðtöl í sexfréttum Ríkisútvarps og heyra svo sömu viðtölin myndskreytt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins klukkustundu síðar.

Í frétt á mbl.is (25.10.2011) segir: Fundum fjármálaráðherra ESB-ríkjanna sem halda átti á morgun hefur verið frestað og svo virðist sem snuðra sé hlaupin á þráðinn í viðræðum um nýjar aðgerðir … Hér ætti að standa snurða ekki snuðra, en snurða er hnökri eða ,,lítill harður samsnúningur á snúnum þræði”, eins og orðabókin segir. Stundum mættu þeir sem skrifa fréttir snuðra svolítið í orðabókum.

Heilt yfir í merkingunni í heild eða á heildina litið er mikið tískuorð hjá fjölmiðlungum um þessar mundir. Hvernig upplifðirðu sýninguna svona heilt yfir? Svona spurði umsjónarmaður Djöflaeyjunnar í Ríkissjónvarpinu (25.10.2011) Molaskrifara fundust umræðurnar um frumsýninguna á Töfraflautunni óttalegt nöldur. En meðal annarra orða: Hversvegna tala menn alltaf um Hörpuna ekki Hörpu. Húsið heitir Harpa, ekki Harpan Ríkisútvarpið ætti að reyna að hafa þetta rétt. Í fréttum Stöðvar tvö (27.10.2011) var enn talað um Hörpuna , ekki Hörpu.

Í fréttum Ríkisjónvarps (25.10.2011) var sagt að óljóst væri hvernig sprengingu hefði borið að garði. Betra hefði verið að segja að orsök sprengingarinnar væri óljós. Gesti ber að garði. Ekki sprengingar.

Þak fauk af flugvelli í Algarve, sagði í fyrirsögn á mbl.is (24.10.2011). Verst var að fréttinni skyldi ekki fylgja mynd af þessum merkilega flugvelli. Líklega hefur verið auðveldara að lenda og hefja sig til flugs eftir að þakið hafði fokið út í buskann. Í fréttinni kom reyndar fram að átt var við þak á flugstöð. Eitt er flugvöllur. Annað flugstöð.

……

Stöðvar tvö menn minntust félaga síns Óla Tynes smekklega á fimmtudagskvöld, en Óli lést að morgni þess dags. Óli Tynes var einn af bestu mönnum Stöðvar tvö. Hann hóf blaðamennskuferil sinn á Alþýðublaðinu en fór þaðan til Vísis og starfaði svo við fleiri fjölmiðla á farsælum ferli sem blaðamaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>