Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (05.11.2011) var sagt: Alma hefur rekið hægt norður með landi. Alma er flutningaskip sem missti stýrið rétt fyrir utan Hornafjörð. Stýrisblaðið virðist hafa brotnað af.. Hvað var Alma að reka mætti spyrja. Hér hefði átt að segja: Ölmu hefur rekið hægt norður með landi. Heiti skipsins á þarna að vera í þolfalli, ekki í nefnifalli. Alma siglir, en Ölmu rekur. Mlaskrifari er þeirrar skoðunar að skipsheiti eins og Alma eigi að lúta íslenskum beygingarreglum. Um það kann að vera ágreiningur
Í fréttum Stöðvar tvö (05.11.2011) var talað um skorinortar yfirlýsingar. Hefði átt að vera skorinorðar yfirlýsingar.
Í frétt á mbl.is (05.11.2011). er ítrekað talað um að handleggja byssur. Molaskrifari kannast ekki við sögnina að handleggja sem hér virðist notað í merkingunni að leggja hald á. Byssur rjúpnaveiðimanna voru handlagðar segir mbl.is. Tveir rjúpnaveiðimenn voru sviptir skotvopnum sínum. Raunar þekkir Molaskrifari ekki heldur sögnina að haldleggja.
Mikil endemis frétt var á visir.is (05.11.2011) um árekstur þar sem 27 bílar komu við sögu á hraðbraut í Bretlandi. Ýmist er þar talað um stórfelldan árekstur eða gríðarlegan árekstur. Lokasetningin í fréttinni er svona: Á þessari slóð má finna skýrari myndir af vettvangi árekstursins. Þar vekur sérstaka athygli að tveir flutningabílar í miðri klessunni eru rækilega merktir Íslandi. Þarna eru tveir flutningabílar sagðir rækilega merktir Íslandi ! Bílarnir eru merktir stórmarkaðakeðjunni Iceland. Þarna er talað um vettvang árekstursins og um bíla í miðri klessunni: Í miðri klessunni er slíkt barnamál að sá sem skrifar er líklega enn í leikskóla.
Eftirfarandi snilldarsetning er af pressan.is (05.11.2011) Það þykir harla fréttnæmt þegar unglingar skrópa í tíma, en aftur á móti bjarga flestir unglingar ekki ungum börnum með tossaskapnum. Sá sem skrifaði hefur greinilega ekki hugmynd um hvað orðið harla þýðir.
Guðbrandur sendi eftirfarandi, sem tekið er af visir.is: Að lokum er tekið til þess að Jón sé aðdáandi South Park og þessvegna hafi honum langað til þess að sjá The Book of Mormon, sem félagarnir Matt Stone og Trey Parker hafa sett upp á Broadway. Honum fannst miðarnir hinsvegar vera of dýrir.
Fréttin er um að borgarstjórinn í Reykjavík hafi mætt hjá mótmælendum í Bandaríkjunum með apagrímu á höfði, sagði Guðbrandur.
Hér kemur sending frá Hreiðari, en hann segir: ,, Eftirfarandi tók ég úr texta dómsúrlausnar Hæstaréttar Íslands: Þetta fær því þó ekki breytt að sú viðbára ákærða er fjarstæð að kunningi sinn, sem hann hefur ekki nafngreint, hafi sent þessi skilaboð úr tölvu ákærða án þess að sér hafi verið kunnugt um efni þeirra.
Samkvæmt mínum skilningi heldur Hreiðar áfram, þá getur kunningi sinn ekki verið rétt orðalag. Ætti að vera ,,kunningi hans“. Þá er rangt í þessu samhengi að segja án þess að sér hafi…. að mínu mati. Betur hefði farið á því að segja ,,…án þess að ákærða hafi…“.
Ég geri miklar kröfur til Hæstaréttar Íslands bæði hvað varðar gæði dómsúrlausna og um þá á hvernig máli þær eru settar fram. Óskýrt og rangt orðalag í dómum og öðrum réttarheimildum veldur óvissu og vantrú á vinnubrögðum dómsins”. Molaskrifari þakkar Hreiðari sendinguna.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
06/11/2011 at 20:01 (UTC 0)
Vel má vera að þetta sé hártogun og jafnvel útúrsnúningur. Það breytir þó ekki því að úr því einhver notar orðið og annar skilur hvað hann á við með því er það til. Við getum verið sammála um að það sé ekki fallegt og að það brjóti í bága við málkennd okkar, sem stundum fer saman, og jafnvel gætum við fært rök fyrir því að það sé hvorki „viðurkennt“ né „viðeigandi“. En, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er það til. Öll orð sem einhver Íslendingur hefur notað, einhver annar skilur og laga sig að íslensku málkerfi eru hluti af orðaforða íslensks máls.
Það segir því lítið um þegnrétt einhvers tiltekins orðs í voru máli þótt annarhvor okkar, eða báðir, þekki það ekki.
Eiður skrifar:
06/11/2011 at 18:48 (UTC 0)
Hártogun, Þorvaldur, hrein hártogun, útúrsnúningur gæti það líka heitið.
caramba skrifar:
06/11/2011 at 16:37 (UTC 0)
Í lok fréttar Ríkisútvarpsins um nýtt starf Ingibjargar Sólrúnar í Aghanistan segir: „Ingibjörg Sólrún segist fullkomlega sátt við að hafa hætt í stjórnmálum, ekki líði sá dagur að hún sjái eftir því.“
Merkilegt orðalag, hugsanlega freudískt mismæli. Hún á auðvitað við að ekki komi sá dagur að hún sjái eftir því. Hún hefur oft talað fjálglega um þann unað og gleði sem pólitíkin veitti sér. Í því ljósi sýnist manni að hún tali þvert um hug sér í ofangreindri tilvitnun og í rauninni líði ekki sá dagur að hún sjái EKKI eftir að hafa hætt í pólitík.
Þorvaldur S skrifar:
06/11/2011 at 15:54 (UTC 0)
„Raunar þekkir Molaskrifari ekki heldur sögnina að haldleggja.“
Hvernig getur Molaskrifari sagt þetta þegar hann kemur einmitt með þessa sögn? Og má geta þess að hún er ekki notuð í fréttinni sem hann vitnar til þannig að hann hlýtur að þekkja hana úr annarri átt. Vitaskuld þekkir hann sögnina; öðrum kosti gæti hann ekki sett hana í þetta samhengi. Það kemur málinu ekkert við hvort hann telur þessa sögn vera vandað mál eður ei.