Undanfarna daga hefur maður orðið vitni að sérkennilegri dylgjublaðamennsku Fréttastofu Ríkisútvarpsins. Fyrst koma fullyrðingar um óviðurkvæmileg eða jafnvel ólögleg afskipti þeirra Tryggva Jónssonar og Helga Jóhannessonar af sölu fyrirtækja. Þetta er sagt í fréttum og því fylgt eftir í Kastljósi. Tryggvi og Helgi skýra sín mál, en áfram er haldið. Svo koma seinna skýringar þeirra Tryggva og Helga á þeirra afskiptum af málinu,sem ekkert virðist við að athuga.
Þetta minnir óneitanlega á atburði frá árinu 1971 þegar Nixon vildi láta dreifa ósönnum fullyrðingum um andstæðinga sína. Þegar undirmenn hans hreyfðu mótmælum, sagði hann þá setningu sem hans verður sennilega lengst minnst fyrir: „Let them deny it“. „Látum þá neita því.“ Leiðrétting hreinsar aldrei fólk sem í fréttum hefur verið borið röngum sökum. Það er margsannað.
Þessar fréttir RÚV hafa allavega ekki verið „unnar af alúð og fagmennsku“ eins og Ríkisútvarpið segir í auglýsingu um eigið ágæti.
Allt finnst gömlum fréttamanni þetta bera mjög keim af því að þeir sem telja sig hafa farið halloka í viðskiptum við bankann séu aðalheimildarmenn fréttastofunnar og séu þannig að nota fréttastofuna og auðtrúa fréttamenn til framdráttar sínum málstað.
Og svo að lokum: Í fréttum sjónvarps í kvöld var tvísagt:“..að stolið hefði verið á annað hundrað gróðurhúsalampa“. Á auðvitað að vera „..lömpum“
Um frammistöðu skíðamanns sagði íþróttafréttamaður: „Honum urðu á engin mistök“. Hann átti auðvitað að segja:“Honum urðu ekki á nein mistök“
Ég segi bara svona.
Skildu eftir svar