Hannes Hólmsteinn Gissurarson notaði minningargrein sem hann skrifaði um Matthías Á. Mathiesen fyrrverandi ráðherra til að tala illa um Emil Jónsson fv. ráðherra og forystumann Hafnfirðinga í áratugi. Í leiðara Morgunblaðsins þar sem Matthíasar var minnst að verðleikum og vikið að því er Matthías, nýgræðingur í pólitík felldi Emil í kosningum 1959. Í leiðaranum var talað um heiðursmanninn Emil Jónsson . Þar kvað við annan tón. Hannes Hólmsteinn hefur reyndar áður notað minningargreinar til að níðast á pólitískum andstæðingum. Það er heldur ljótur siður. Báðir voru þeir sómamenn Emil og Matthías. Þeim Matthíasi sem ég þekkti hefðu ekki fallið þessi skrif Hannesar vel í geð. Ég heyrði Matthías aldrei tala illa um fólk.
Af mbl.is (19.11.2011): Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi og frambjóðandi í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins, sagði á landsfundi flokksins í dag, að ríkisstjórnin sæi háa skatta og ríkisafskipti í hyllingum. Líklega hefur frambjóðandinn átt við hillingar , en að sjá eitthvað í hillingum er að horfa til einhvers með vongleði og eftirvæntingu, segir orðabókin. En líklega vonast frambjóðandinn eftir að hún verði hyllt á morgun sem nýr formaður flokksins. Hún sér formannsstólinn í hillingum.
Margt er vel gert í Kastljósi Ríkissjónvarps. En eins og DV bendir réttilega á (18.11.2011) var það: ,,Galin ákvörðun” að fá Sigurð G. Guðjónsson lögfræðing sem álitsgjafa um hæfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Hann er eins og DV segir:,,Hlutdrægur og ómarktækur þegar kemur að flestum málum sem tengjast hruninu.” Líklega hafa svo ýmsir áhorfendur lagt saman tvo og tvo og fengið út fjóra um það hvaðan það efni sem vitnað var til í þættinum var fengið. Sumir lögfræðingar hafa sérstakt lag á að misnota, jafnvel blekkja fjölmiðla málstað skjólstæðinga sinna til framdráttar. Kvöldið eftir var margítrekað í Ríkissjónvarpinu að Kastljós stæði við umfjöllun sína. Því hefur síðan verið fylgt eftir í hverjum fréttatíma Ríkisútvarpsins á fætur öðrum. Ríkissjónvarpið er rækilega búið að klúðra þessu máli, m.a. með því að segja að stjórn Fjármálaeftirlitsins láti kanna hæfi forstjórans vegna nýrra upplýsinga sem fram hefðu komið í Kastljósi. Það varð Ríkissjónvarpið að leiðrétta sama kvöld, enda var það rangt. Kanna átti hvort nýjar upplýsingar hefðu komið fram í Kastljósi. Það er annar handleggur. Sjónvarpsmenn eiga að vera á varðbergi. Ekki láta lögfræðinga draga sig út á hálan ís.
Molavin segir (18.11.2011): ,,Af visir.is: Frank Michelsen úrsmiður á Laugavegi gerir ráð fyrir að geta byrjað að selja Rolex-úrin sem rænt var af pólska glæpatríóinu um næstu helgi.“ Hann spyr: Var lögreglan þarna að verki? Ekki nema von að spurt sé. Þetta er bjálfaleg og óþörf þolmyndarnotkun. Þolmynd og viðtengingarháttur þvælast oft fyrir þeim sem fást við að skrifa fréttir.
Ríkissjónvarpið hefur um skeið kerfisbundið flutt neikvæðar fréttir um heilbrigðiskerfið á Íslandi. Það vill stundum gleymast að við búum við eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi og ef grannt væri skoðað mundi örugglega koma í ljós að hér eru til dæmis miklu rýmri reglur að því er varðar stórar og dýrar aðgerðir á öldruðu fólki en eru í grannlöndum okkar. Þetta vita þeir sem til þekkja.
Í Kastljósi (18.11.2011) sagði umsjónarmaður: .. af þessu hefur hún dregið eina mikilvæga lexíu. Á íslensku er ekki talað um að draga lexíu af einhverju. Talað er um að draga lærdóm af einhverju, verða reynslunni ríkari.
Í fréttum Ríkissjónvarps (18.11.2011) var talað um eldfjallið sem allir vilja bera augum. Í Málfarsbankanum. leiðbeiningum um íslenskt málfar á vefnum segir: ,Talað er um að berja e-ð augum en ekki „bera e-ð augum“.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Jón H. Brynjólfsson skrifar:
19/11/2011 at 23:05 (UTC 0)
Mér finnst minnstu máli skipta hvaðan upplýsingarnar um forstjóra Fjármálaeftirlitsins komu – mér finnst mikilvægara hvers eðlis þær eru og það sem kom fram í Kastljósinu fannst mér svo sannarlega gefa tilefni til að kanna málið betur. Það sem mér finnst einna athyglisverðast í þessu máli er að stjórn Fjármálaeftirlitsins fól Andra Árnasyni þessa nýju athugun – manninum sem rannsakaði og skrifaði upp á hæfi forstjórans í upphafi. Enginn virðist hafa neitt út á það að setja. Er líklegt að hann fari að finna mikið að eigin verkum? Hann kæmist varla hjá því ef niðurstaðan yrði sú að honum hefði yfirsést allt það sem haldið var fram í þættinum. Það blasir við að Andri Árnason á alls ekki að koma nálægt þessari nýju athugun. Ég hef ekkert út á hann að setja sem slíkan, hef ekki hugmynd um hver hann er, en mér finnst þetta hlægileg ráðstöfun.