Egill sendi þetta (20.11.2011): ,,Árni Þór Sigurðsson þaggaði niður í sessunautum sínum, í Silfri Egils, með því að segja:„… kasta grjóti úr steinhúsi. Að kasta steinum úr glerhúsi er rétt orðatiltæki. Fólk ætti ekki að grípa til orðatiltækja nema kunna þau og þekkja merkingu þeirra. Fyrir nokkrum árum síðan var kona í sjónvarpsviðtali, sem sagði: Ég vil þakka öllum sem lögðu árar í bát varðandi söfnunina! “ Molaskrifari heyrði þetta líka, en heyrði ekki betur en Árni væri að vitna í hinn orðhaga þingmann Framsóknarflokksins Vigdísi Hauksdóttur, sem er sannkölluð ambögulind og afbakaði þetta orðtak svona á dögunum í ræðustóli Alþingis.
Guðbrandur sendi (21.211.2011): ,,Höfuðstöðvar Boeing eru staðsettar í Seattle í Bandaríkjunum. Svo segir í frétt á visir.is um sölusamning, sem Boeing-verksmiðjurnar kváðu hafa gert. Mér finnst þessu „staðsettar“ ofaukið. Er ég að misskilja eitthvað?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var greint frá áformum Landsvirkjunar um að gera tilraun með að nota vind til raforkuframleiðslu. Þar var margsagt að Landsvirkjun ætlaði að setja upp vindmyllur við Búrfell í þessu skyni. Til skamms tíma hef ég staðið í þeirri meiningu að vindmylla væri tæki, sem notaði vindorkuna til að mala eitthvað, t.d. korn. Ef nota skuli vindorkuna til rafmagnsframleiðslu eigi að tala um vindrafstöð. Er ég á villigötum þarna?”
Molaskrifari segir: Rétt er að orðinu staðsettar er ofaukið í fréttinni um Boeing. Orðið vindmyllla er hinsvegar orðið býsna fast í málinu um það sem kalla mætti vindrafstöð, Molaskrifari minnist þess til dæmis að suður í Garði áður en rafmagnið kom var ævinlega talað um vindmyllur sem framleiddu rafmagn.
Guðbrandur bent einnig á eftirfarandi sem lesa má á bloggsíðu þingmanns: ,,Í raun má segja að Bjarni Benediktsson hafi verið settur á bið á meðan leitin af nýjum formanni stendur yfir
Hvað sem segja má um efni fréttarinnar, þá leiðist mér hvernig fólk er farið að rugla saman að og af. Maður leitar ekki af einhverju, maður leitar AÐ því.” Kærar þakkir. Það er býsna algengt að heyra þessa ambögu.
Í fréttum Stöðvar tvö (20.11.2011) var talað um óeirðarlögreglu. Hefði átt að vera óeirðalögregla.
Gott hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins að tala um pereatið í sjónvarpsfréttum (20.11.2011) þegar verið var að segja frá kröfum stúdenta um afsögn rektors í bandarískum háskóla.
Undarlegt hvað Ríkissjónvarpinu tekst oft að brengla nafni sjónvarpsþáttarins Downton Abbey og kalla hann Downtown Abbey. Það gerðist síðast á sunnudagskvöld (20.11.2011)
Svolítið furðulegt að horfa á viðurkenningar og verðlaun veitt fyrir afskræmingu mannslíkans eins og sýnt var í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (20.11.2011)
Heimildamyndin Thors saga sem Ríkissjónvarpiðsýndi sl. sunnudagskvöld (20.11.2011) var athyglisverð. Sumt var ónákvæmt , eins og til dæmis skýringin á endalokum mjólkurframleiðslu á Korpúlfsstöðum. Gamla Framsóknarmafían sem lifir enn í mjólkinni drap kúabúskap á Korpúlfsstöðum. Sýndar voru gamlar myndir sem Molaskrifari hafði ekki áður séð, – það er alltaf áhugavert. Nútíð og fortíð var fléttað saman með umdeilanlegum hætti. Kynningin á myndinni í prentaðri dagskrá í blöðum var hinsvegar eins og sá sem hana skrifaði hefði alls ekki séð myndina. Sýning myndarinnar hefur þegar vakið deilur.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Arnbjörn skrifar:
22/11/2011 at 17:09 (UTC 0)
Guðbrandur, hefi eg misskilið eitthvað?