Evrópusöngvakeppnin er löngu úrelt fyrirbæri. Tónlistin er einsleit og hefur lengi verið. Umgjörðin alltaf sú sama. Það segir mikið um þessa dagskrárgerð, þegar það er orðið fjölmiðlum áhugaverðara hverju þeir sem kynna lögin klæðast, fremur en hvað er verið að að kynna. Þær ágætu ,en alltof notuðu sjónvarpskonur, Eva María og Ragnhildur Steinunn voru eins og trúðar í síðasta þætti þar sem mér varð litið á skjáinn. Fatafígúrugangurinn hjá sumu sjónvarpsfólki er löngu orðinn fáránlegur. það er ekki jafnaðarmerki milli þess að vera í nýjum fötum á hverjum degi og að vera vel klæddur. Umbúðirnar eru orðnar innihaldinu mikilvægari. Það er kjarni þessa máls.
Það er hinsvegar makalaust hvað Sjónvarpinu tekst að gera miklar langlokur úr þessu moði.Þetta er ekki ódýrt efni og þessvegna leyfi ég mér að segja að þessi langavitleysa sé dýrt spaug. Hvert skyldi áhorfið vera í tölum talið ?
Sit og skrifa þetta í Hreiðri undir suðurhlíð Hestfjalls þaðan sem aðeins er hægt að horfa á RÚV. Þegar langavitleysan byrjar í kvöld, tek ég mér bók í hönd og rifja upp kynnin af Páli í Pálssögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Bókina keypti í gær á 990 krónur. tvær skáldsögur í einni kilju . Það eru kjarakaup í kreppunni.
Ólafur Jóhann hefur lengi verið mér hugstæður höfundur. Allt síðan ég stautaði mig í gegn um barnabók hans Við Álftavatn sem ég fékk í sumargjöf 1946. Þar minnir mig að sé vísa sem hann ungur orti um systur sína, held ég muni hana rétt:
Illa liggur á henni,
að henni sækir húmið.
Fer hún mamma frá henni
og fleygir henni í rúmið.
Ólafur Jóhann orti sum bestu ljóðanna sem okkur voru gefin á síðari helmingi tuttugustu aldar.
Nú er ég kominn hæfilega langt frá lönguvitleysunni í sjónvarpinu til að hætta þessu rausi.
Skildu eftir svar