Samantekt um níu líf ríkisstjórnarinnar var skemmtilega fram sett í fréttum Stöðvar tvö (28.11.2011). Samkvæmt bókhaldi Stöðvar tvö á ríkisstjórnin aðeins tvö líf eftir og kjörtímabilið rétt rúmlega hálfnað ! Líklega verður að smala fleiri köttum !
Í fréttum Stöðvar tvö (28.11.2011) var sagt: … vegna þess að þeim vanti stuðning innan menntakerfisins. Í fréttum Ríkissjónvarpsins sama kvöld var sagt: … geta keypt jarðir hér eins og þeim lystir. Þágufallssýkin breiðist út þessa skammdegisdaga, eins og haustflensa.
Í fréttum Ríkissjónvarps (28.11.2011) var sagt að skíðamenn gætu nú farið að pússa skíðin sín. Pússa skíðin sín? Átt var við að skíðamenn gætu nú farið að taka fram skíðin sín, spenna á sig skíðin, því senn væri kominn nægur snjór.
Í morgunútvarpi Rásar tvö var talað um mál sem gæti sprengt upp ríkisstjórnina. Eðlilegra hefði verið að tala um mál sem gæti sprengt ríkisstjórnina.
Fyrirsögn á pressan.is (29.11.2011): Eyddu vitlausum tvíbura… Fréttin var um það að röngu fóstri hefði verið eytt, heilbrigðu fóstri. Stundum er gott að staldra aðeins við, hugsa svolítið áður en fyrirsögn er samin.
Úr mbl.is (29.11.2011): Þar sem bæði lögregla og dómstólar í landinu eru lamaðir þá hafa málefni fanganna … Það var og. Betra hefði verið: Þar sem starfsemi lögreglu og dómstóla í landinu er lömuð …
Í fréttum Stöðvar tvö (29.11.2011) sagði fréttamaður: … að þar hafi hallað réttu máli. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja: … að þar hafi verið hallað réttu máli. Það er annars undarlegt hve sömu fáu lögfræðingarnir eiga greiðan aðgang að fréttatímum sjónvarpsstöðvanna til að flytja þar mál skjólstæðinga sinna. Fréttamenn eru ekki nægileg vel á varðbergi gagnvart klókum lagatæknum eins og Jónas Kristjánsson kallar þá. Í sama fréttatíma sagði annar fréttamaður: Annað kvöld verður haldin herrasýning á Þjóðleikhúskjallaranum. Það er ákaflega erfitt að ímynda sér eitthvað á kjallara, en þeim mun auðveldara að sjá eitthvað fyrir sér sem er í kjallara. Undarleg villa satt best að segja.
Í fréttum Stöðvar tvö (29.11.2011) var Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn nefndur röngu nafni. Ekkert afasakað, ekkert leiðrétt. Ekki góð vinnubrögð.
Í fréttum Ríkissjónvarps (29.11.2011) var í neðanmálstexta orðið regent þýtt Noregskonungur. Molaskrifari er á því að í þessu tilviki hefði átt að tala um ríkisstjóra ekki Noregskonung.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
01/12/2011 at 22:27 (UTC 0)
Sammála. Fáránleg fyrirsögn.
Jón Sveinsson skrifar:
01/12/2011 at 15:41 (UTC 0)
Sæll Eiður. Í dag er einkennilega til orða tekið í fyrirsögn í Morgunblaðinu. Þar er samkvæmt fréttinni að jafnaði einu barni nauðgað á 36 tíma fresti á Fílabeinsströndinni. (Þetta er tölfræðin þaðan til að sýna hve algent þetta er)
En fyrirsögnin er svona “ Barni nauðgað á 36 tíma fresti „.
Það er hömulegt að vita af slíku og að þetta skuli alltaf vera sama barnið !!!!