Tiltölulega fámennur hópur hasarfíkla kemur óorði á mótmæli, sem annars væru friðsamleg. Þetta er samskonar lið og á árum áður taldi öllu mikilvægara að kveðja gamla árið með því að slást við lögregluna í Reykjavík.Það er nú sem betur fer liðin tíð.
Á mannamáli eru það auðvitað ekkert annað en skrílslæti þegar brennuvargar taka sér bólfestu á Austurvelli og brenna meðal annars eigur Reykjavíkurborgar. Til hvers þurfti að brenna Oslóartréð ? Sýna Norðmön num fyrirlitningu. Mest hissa á að slökkviliðið skuli ekki hafa verið kvatt á vettvang. Síðan er matvælum af ýmsu tagi kastað á Alþingishúsið og Stjórnarráðið. Þeir eru ekki blankir sem það gera, og gefa hungruðum heimi um leið langt nef.
Ýmsar myndir af skjánum munu lengi geymjast í minni. Ekki síst mynd af 10-11 ára gömlum dreng sem hefur verið skrýddur hjálmi .Hann situr úti í horni og virðist umkomulaus og utangátta og varla vita hvar hann er eða hversvegna. Lögreglan forðar honum undan grjótkasti. Nú er komið fram að móðir hans var í 20 metra fjarlægð. Hversvegna sótti hún ekki barnið sitt? Nú er sagt að hún ætli að kæra lögregluna. Ég held endilega að barnaverndaryfirvöld hljóti að eiga eitthvað vantalað við móður,sem sendir son sinn ungan í fremstu víglínu mótmæla og stendur bara álengdar og fylgist með.
Svo var viðtalið við konuna sem kenndi dóttur sinni 17 ára að mótmæla og fylgdist svo með úr fjarlægð , að eigin sögn, þegar dóttirin mótmælti. Dóttirin 17 ára gamla var handtekin. Vel heppnuð mótmæli. Helvísk löggan. Má maður ekki djöflast á þinghúsinu í friði? Hvurslags er þetta eiginlega? Þessari konu tókst svo að koma sér í sjónvarpið aftur í kvöld , – út af svo sem engu.
Fjölmiðlar hafa legið undir ámæli fyrir meðvirkni með útrásarvíkingum. Þeir dönsuðu gagnrýnilaust með þeim í kringum gullkálfinn. Rétt eins og sést á þessari ágætu tvímynd eftir norska málarann Håkan Gullvåg.
Nú er eins og fjölmiðlar séu að freista þess að bæta fyrir þessi brot sín með því að vera meðvirkir með mótmælendum. Sögum um vondu löggurnar er kyngt athugasemdlalaust. Löggan er vond. Mótmælendur eru besta fólk. Það eru þeir vissulega langsamlega flestir . Ósköp venjulegt fólk, sem er reitt og svekkt. Hefur misst vinnu, tapað sparnaði sínum og á kannski á hættu að missa húsnæðið. Mín samúð er með því fólki, en ekki með þeim fáu sem eru aðalfréttaefnið, brenna eigur samfélagsins og senda börn og unglinga í fremstu röð eða víglínu gegn lögreglumönnum sem eru að gegna skyldum sínum. Og foreldrarnir fylgjast með afkvæmum sínum úr fjarlægð. Fyrirmyndaruppeldi, – ekki satt?
Þetta eru heldur daprir dagar fyrir svona venjulegt fólk.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Teitur Atlason skrifar:
26/01/2009 at 11:57 (UTC 0)
Það er augljóst að þú ert ekki í sambandi við landa þína. Enda ekki skrýtið miðað við lúxuslífið sem þú lifir. Ég á ekki til aukatekið orð yfir sambandsleysi þinu við þjóðina. Þjóðina sem þú ert samt fulltrúi fyrir! Ert þú atvinnulaus? Hefur þú kynnst því að eiga ekki fyrir útgjöldum heimilisins?
-Trauðla.
Kristján Logason skrifar:
25/01/2009 at 00:57 (UTC 0)
66% landsmanna stiðja mótmælin. Það þarf ekki fleiri orð
Gunnar Freyr Rúnarsson skrifar:
22/01/2009 at 21:01 (UTC 0)
Þetta voru viðbjóðsleg skrílslæti og mikill fjöldi manna munu fá óbeit á þessum mótmælum. Fámennur hópur spennufíkla hefur komið óorði á góðan málsstað. Mynd mín af þessum mótmælum, er þegar ég sá fyrrum prófessor við Listaháskóla Íslands dansa einhvern sambadans af gleði þegar falsfréttirnar um fall stjórnarinnar heyrðust á Austurvelli í gær.
Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:
22/01/2009 at 05:47 (UTC 0)
Við hverju er að búast öðru en að núverandi ástand kalli á vissar öfgar í allar áttir.
Samt er þetta skítkast út í þá sem hafa dug í sér til að mótmæla að verða heldur hvimleitt.
Eru mótmælin ekki að skila árangri ?
Hafa vit á að segja TAKK þið sem munið öll njóta góðs af.
hilmar jónsson skrifar:
21/01/2009 at 23:04 (UTC 0)
Svona ummæli afhjúpa sjálfan þig og þitt vitsmunalíf.