Molaskrifari ákvað að gera nokkurra daga hlé á nöldrinu sem sumir kalla svo fyrir og um jólin, en hefst nú handa að nýju og birtir fyrningar frá því fyrir jól.
Lesandi sendi eftirfarandi úr mbl.is á Þorláksmessu og spyr: Hver skrifar eiginlega svona vitleysu? Molaskrifari getur ekki svarað því, en einhver hlýtur að bera ábyrgð á því sem skrifað er á mbl. is. Hér kemur fréttin að hluta :
Aðeins tveir togarar voru á sjó innan íslenska hafsvæðisins í morgun kl. 07:00 og voru þeir á leið til hafnar. ….. Þó að öll skip verði í höfn um jólin verður vakt í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um jólin eins og aðra daga og verða til taks ef óskað verður eftir aðstoð frá einingum Landhelgisgæslunnar. – Það er Molaskrifara algjörlega nýtt að talað sé um einingar Landhelgisgæslunnar og hefur hann þó fylgst með störfum hennar nokkuð lengi.
Egill sendi línur um Bylgjuna og Kastljós á Þorláksmessu: Hann segir: „Almannavarnir vara við veðurspá Veðurstofu Íslands,“ var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag. Það gefur til kynna að veðurspáin hafi verið það léleg að ekki sé mark takandi á henni. Og svo spurði Margrét Erla Maack ungan pilt: Jóel, hlakkar þig til jólanna? í Kastljósi kvöldsins.” Molaskrifari bætir við um það síðasta: Þetta er undantekning í Kastljósinu, Kastljóssfólk er annars prýðilega málið farið.
Egill segir enn fremur: (17.12.2011): ,,Mikið spillir linur framburður fyrir annars ágætum flutningi systkinanna Ellenar og Kristjáns Kristjánsbarna á nýrri jólaplötu. Þau syngja t.d. um „Glitrandi HIMNANA skart“, „á með FLIBBAN sinn“, „finndu snöggvast FLIBBAHNAPPIN minn“, „lúrir vært í RUGGUNI“ og svona mætti lengi telja.” Molaskrifar játar að hafa ekki heyrt þessa jólaplötu. Stundum væri af hinu góða að einhverjir með sæmilega næma heyrn hlustuðu á upptökur.
Egill bætir við: „Grýla er hætt að borða börn, hún er komin á DÆJET,“ sagði jólasveinn í Ríkisútvarpinu. Ussumsvei, eru jólasveinarnir farnir að sletta líka? Svo bregðast krosstré sem önnur tré. – Molaskrifari bætir við: Það má nú segja ! Og svona til áherslu var þetta dæjet bull endurtekið í sexfréttum Ríkisútvarpsins og hnykkt á því í fréttum sjónvarpsins klukkutíma seinna! (18.12.2011), – og rétt á eftir var okkur sagt að nú væri kominn fjórði í aðventu ! Það var og.
Í framhaldi af umfjöllun Stöðvar tvö um Landsvirkjun segir Valbjörn (17.12.201): ,,Kemur girðing fyrir því að hægt sé að misnota fyrirtækið í pólitískum tilgangi. Landsvirkjun var umfjöllunarefni Árna Páls í fréttum Stöðvar 2. Hlýtur að vera hægt að orða þetta betur. T.d,að girt sé fyrir eitthvað. Pólítískan tilgang eða hvað sem er. Ráðherrann þyrfti að vanda betur málfarið. Var hann ekki aðstoðarmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar? Þar hefði hann geta numið skemmtilegt og vandað málfar.” Þetta er eitt af því marga sem Molaskrifari ekki heyrði.
Ríkissjónvarpið heldur áfram að flytja auglýsingar þar sem kunnir dagskrárgerðarmenn koma fram. Í reglum frá l. maí 2008 sem gilda um starfsmenn ,,Ríkisútvarpsins sem vinna að fréttaskrifum, fréttaflutningi og tengdu dagskrárefni”segir: Öllum sem lúta þessum reglum er óheimilt að taka þátt í auglýsingum kynningar- eða almannatengslastarfi fyrir aðra en Ríkisútvarpið. Getur þetta verið skýrara? Samt brýtur Ríkisútvarpið reglurnar sem það sjálft hefur sett. Hvar eru stjórnendur Ríkisútvarpsins ? Hvar er stjórn Ríkisútvarpsins? Líklega er allt þetta fólk í strútaleik.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Nafnlausar athugasemdir verða ekki birtar. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli og nafnlausar athugasemdir. ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ragnar Pálsson skrifar:
28/12/2011 at 04:48 (UTC 0)
Þegar ég ólst upp (úti á landi og ekki við svokallað linmæli) var alltaf sungið „flibban sinn“ og „flibbahnappinn minn“. Mér finnst ágætt að því sé haldið áfram. Eins er jafnan fallegra að mínu mati þegar fólk syngur með sínum eiginlega framburði, frekar en einhverjum lærðum framburði sem vill verða tilgerðarlegur í meðförum. Helsti framburðargalli í íslenskri dægurtónlist er að mínu viti hvernig margir fara með L, sem af einhverjum ástæðum vill verða nokkuð bandarískt í meðförum. Það vill gleymast að íslenska L-ið er nokkuð frábrugðið því bandaríska og maður getur fengið léttan kjánahroll með þessu. Ekki minnist ég þess þó að Ellen og KK séu í hópi þeirra sem taka kanasveiflu á L-i.
Egill skrifar:
28/12/2011 at 01:50 (UTC 0)
Arnbjörn passar sig að velja ekki þau orð sem ég benti á. Það er mikill munur að heyra t.d. (skv. framburði í söngnum): Hiimn-ann-a skart eða Hiimn-aa-na skart. Áherslan á að vera á -ann- í seinni hluta orðsins, ekki á -aa- miðað við hrynjandi lagsins.
Arnbjörn skrifar:
27/12/2011 at 20:51 (UTC 0)
Egill, í vönduðum framburði er að sönnu gerður skýr greinarmunur á framburði orðmyndanna ‘ána’ og ‘ánna’ eða ‘hinn’ og ‘hin’. Hins vegar er ekki unnt að gera sömu kröfur ef áherslulaust sérhljóð fer á undan nefhljóðinu. Munur á ‘stofnana’ og ‘stofnanna’ er því enginn í tali manna og sama gildir um ‘farinn’ og ‘farin’.