Fyrr má nú rota en dauðrota. Fimm klukkustundir af handbolta voru á dagskrá sjónvarps ríkisins í gær (22.01.2012). Fimm klukkustundir! Barnatíminn, Stundin okkar, fauk út í buskann. Hvaða máli skipta börnin þegar handboltinn á í hlut. Það er um að gera að innræta þeim nógu snemma að ekkert skipti meira máli í veröldinni og lífinu en að vinna sigur í boltaleikjum. Það er eins og yfirmenn Ríkissjónvarpsins missi algjörlega stjórn á sér þegar íþróttamót eru annarsvegar. Þá skiptir annað dagskrárefni engu máli. Íslenska Ríkissjónvarpið var eina norræna ríkisstöðin sem sneri sunnudagsdagskránni á hvolf vegna handboltans í gær.
Molavin sendi þetta (22.01.2012): ,,Sóknarleikur íslenska liðsins var allt í lagi… sagði íþróttafréttamaður RUV í hádegisfréttum. Nægt hefði að segja að hann hafi verið í lagi – eða jafnvel allur í lagi (þótt um það megi deila í ljósi úrslita) en leikurinn var ekki allt…neitt. Hins vegar er málfar íþróttafrétta hjá RUV ekki allt í lagi.” – Þá bætir Molaskrifari við að íþróttafréttum Ríkissjónvarps (22.01.2012) var talað um að jafnhatta níutíu og tveimur kílóum. Molaskrifari hefði talið eðlilegra að tala um að jafnhatta níutíu og tvö kíló. Orðabókin er sammála. Þar er talað um að jafnhatta e-ð.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (22.01.2012) talaði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður um að grípa fram fyrir hendurnar á yfirstandandi dómsmáli. Þetta orðalag er út í hött. Það er ekki hægt að tala um að grípa fram fyrir hendurnar á máli. Þingmaðurinn hefði til dæmis getað talað um að blanda sér í yfirstandandi dómsmál.
Í sama fréttatíma var tekið svo til orða að það væri að bresta á flótti í starfslið Víkurskóla. Molaskrifari hefði haldið að réttara væri að tala um að flótti væri að bresta á í starfsliði skólans.
Ekki hefur Mjólkursamsalan góða markaðsmenn sem láta sér detta í hug árið 2012 að setja á markað sérstakan ís fyrir stráka og annarskonar ís fyrir stelpur. Sérstakan ís fyrir karla og sérstakan ís fyrir konur. Lifa þeir á annarri öld karlarnir sem stjórna MS ? Það var þó mannsbragur á því að viðurkenna mistökin strax og hætta framleiðslu vörunnar þegar ljóst var að mistök höfðu verið gerð. Háttur íslenskra stjórnenda er venjulega sá að þrjóskast við þegar mistök verða, berja hausnum við steininn og auka skaðann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
12 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
27/01/2012 at 14:33 (UTC 0)
Ósammála. Óboðlegt. Vont málfar. Vond ftyrirmynd ungu fólki sem hlustar. Útvarp og sjónvarp eru ekki deyjandi miðlar.
Axel skrifar:
27/01/2012 at 10:58 (UTC 0)
Jú það er boðlegt. Ungir hlustendur hafa gott af því hlusa á virka morgna. Annars er útvarp deyjandi miðill þegar kemur að unglingum. Sama á í raun við um sjónvarp.
Eiður skrifar:
26/01/2012 at 14:14 (UTC 0)
Málfar þeirra er ekki boðlegt. Þau eru ungum hlustendum (einkanlega) vond fyrirmynd.
Axel skrifar:
26/01/2012 at 12:00 (UTC 0)
Ég blæs á það að málfar Andra og Gunnu sé nokkrum manni hættulegt. Heilt yfir tala þau sæmilega íslensku á mannamáli. Það er getur alltaf komið fyrir að mismæli og rangar beygingar falli hér og þar þegar um hversdagslegt rabb er að ræða. Auðvitað á að gera kröfu um að fólk í fjölmiðlum tali gott mál. Má vel vera að Andri og Gunna geti gert betur í þeim efnum. En fyrst og fremst á þátturinn að vera skemmtilegur og ná efnislega til fólks. Bendi þeim sem ekki þola alþýðlegt yfirbragð ,,virkra morgna“ að Rás 1 hefur á sinni dagskrá fjölmarga áhugaverða þætti um hin ýmsu mál – þætti þar sem kynslóðabilið þarf ekki að fara í taugarnar á þeim sem komnir eru á efri ár.
Eiður skrifar:
25/01/2012 at 16:11 (UTC 0)
Það á að gera þær kröfur til þeirra sem annast þáttaumsjón í Ríkisútvarpi/Ríkissjónvarpi að þeir séu þokkalega máli farnir og kunni undirstöðu atriði íslenskunnar. Þar þurfa þau Andri og Gunna Dís svo sannarlega að læra betur. Vont málfar í útvarpi er hættulegt, – aðrir apa það eftir. Þessevgna verður að gera kröfur um vandað málfar þáttastjórnenda.
Axel skrifar:
25/01/2012 at 12:26 (UTC 0)
Útvarpsþáttur Andra og Gunnu Dísar á sér marga aðdáendur hvort sem Eiði líkar betur eða verr. Ég veit um fjölmarga sem stilla sérstaklega á Rás 2 vegna þessa þáttar. Þættirnar virðast hitta einhvern streng hjá landanum. Kannski af því þeir eru alþýðlegir og hæfilega kærulausir. Andri og Gunna voru sannkölluð happaráðning hjá RÚV. Endalaust niðurrif hjá Eiði og hans vinum sem þó virðast hlusta og horfa á Andra í laumi.
Annars smá sammála með handboltann. Þetta er í það mesta. Mér finnst þó ekki skipta nokkru máli hvað önnur norðurlönd gera. Íslenska hanboltalandsliðið er íslenskt menningarfyrirbæri.
Eiður skrifar:
24/01/2012 at 17:50 (UTC 0)
Sæll Arnar . Handknattleikur er ágætur í hæfilegum skömmtun. Engin ríkisstöð á norðurlöndunum önnur en íslenska Ríkissjónvarpið leggur lungann úr deginum undier handknattleik. Þar er hugsað til þess að ekki hafa allir endalausan áhuga á boltaleikjum. Þetta er of mikið. Sjálfsagt að sýna leiki með íslenska liðinu, – það ætti að duga. Þú ert eini maðurinn sem ég hef heyrt m´æa þessum Andraþáttum bót. Maðurinn er illa máli farinn og óáhugaverður í alla staði. Undarlegt að fela honum þáttastjórn. Þetta voru sjálfhverfar ,,ég-ferðir “ hjá honum.Snerust mest um hans eigin persónu, fannst m´wer. Afskaplega innihaldslaust og lélegt sjónvarpsefni.
Arnar Hólmarsson skrifar:
24/01/2012 at 12:44 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Hefur þú velt því fyrir þér að gríðarlega margir hafi gaman af því að horfa á handknattleik. Sennilega miklu fleiri en þig grunar og áhugi barna á þessari íþrótt er mjög mikil, a.m.k. verður handboltinn mjög vinsæll í íþróttatímum grunnskólanna þegar á svona móti stendur.
Eins verð ég að benda þér á að þátturinn sem Andri Freyr stjórnar kemur í framhaldi af gríðar mikilli ánægju fólks með þættina Andri á flandri. Það eru mjög margir sem hafa gaman af framkomu Andra og hvaða augum hann lítur á hlutina.
Kv AH
Eiður skrifar:
24/01/2012 at 09:28 (UTC 0)
Kærar þakkir ,Guðmundur. Þetta sem þú vitnar til er auðvitað alls ekki í lagi. Gefur auga leið.
Guðmundur Örn skrifar:
24/01/2012 at 09:12 (UTC 0)
Flottur pistill Eiður.
Les alla þína pistla um málfar og hef gaman af,en hvað myndir þú segja þegar talað er um að sjúklingurinn væri fluttur áleiðis á sjúkrahúsið?og einnig sá slasaði var klipptur úr bílnum?er þetta málfar í lagi?
Með vinsemd og virðingu
Eiður skrifar:
23/01/2012 at 15:23 (UTC 0)
Takk fhyrir þetta,félagi. Vissi ekki betur en Emmess ís =MS. Leiðréttist hér með.
Þorsteinn G. Gunnarsson skrifar:
23/01/2012 at 14:16 (UTC 0)
Sammála þér varðandi ísinn, en verð að benda á að það eru nokkur ár síðan Mjólkursamsalan seldi Emmess-ís.