Í fréttum Stöðvar tvö (31.01.2012) um sprengjuna sem sprengd var á Hverfisgötu skammt frá stjórnarráðshúsinu var í inngangi talað um öfluga sprengingu. Í fréttinni var hinsvegar haft eftir lögreglunni að sprengjan hefði ekki verið öflug. Þarna hefur sambandið milli fréttamanns og þess sem skrifaði inngang að fréttinni ekki verið í lagi. Þá var í fréttinni aftur og aftur talað um stjórnarráðið, þegar átt var við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Stjórnarráð Íslands sem talað var um í fréttinni eru öll ráðuneytin en ekki hvíta húsið Lækjartorg. Sumir fréttamenn eiga erfitt með að átta sig á þessu, en þetta er í rauninni sáraeinfalt. og hefur verið nefnt svona fimm sinnum hér í Molum áður. Á fréttastofu Ríkisútvarpsins virðast hinsvegar nær allir vera búnir að átta sig á muninum á stjórnarráðinu og stjórnarráðshúsinu.
Í auglýsingu í Morgunblaðinu (01.02.2012) eru auglýstir nýir matreiðsluþættir í miðli sem heitir mbl sjónvarp. Þættirnir heita Pure Ebba. Hversvegna ekki að skíra íslenska þætti íslenskum nöfum, Moggamenn? Af hverju þarf að nota ensku? Með þessu eruð þið að vinna gegn móðurmálinu. Veljið ykkur annað hlutverk.
Í löngu máli auglýsir Útvarp Saga linnulaust (01.02.2012) undirskriftasöfnun Ólafs Ragnars Grímssonar sem vill vera áfram á Bessastöðum en þorir ekki enn að segja kjósendum frá löngun sinni. Hver skyldi borga þessar auglýsingar? Enginn ábyrgðarmaður er nefndur í auglýsingunum. Þessvegna verður að álykta sem svo að þær séu frá stöðinni sjálfri. Enda hefur Útvarp Saga lengi verið einskonar einkamálgagn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem nú skoðar mörgæsir með fræga og fína fólkinu á Suðurskautslandinu undiryfirskini vísinda.
visir.is (01.02.2012) Þvermál disksins er rúmir 60 metrar og hann liggur á tæplega 100 metra dýpi. Frá hlutnum liggur 480 metra far á sjávargólfinu. Það er bull að tala um sjávargólf! Á ensku er hinsvegar talað um seafloor. Þessi aulaþýðing á ekkert erindi í íslenskt mál. Á íslensku tölum við um hafsbotn. Fréttaskrifarar á visir.is ættu að halda sig frá nýyrðasmíði þegar árangurinn er ekki betri en þetta. Hér er svo annað gullkorn úr sama netmiðli: Sprengingin var svo öflug að gat kom á lögreglustöðuna!
Eftir að sprengja sprakk á Hverfisgötu í grennd við stjórnarráðshúsið ( sem var nefnt réttu nafni í fréttum Ríkissjónvarpsins 01.02.2012) hefur ítrekað verið talað um viðbragðsleysi lögreglunnar. Átt er við seinagang lögreglunnar. Í fréttum um sama atburð var okkur sagt svona tíu sinnum, hið minnsta, að Ögmundur ráðherra liti málið alvarlegum augum. Í lokin var það ekki nóg, þá var Ögmundur farinn að líta málið grafalvarlegum augum !
Fjölmiðlar hafa flutt fréttir af fimbulkulda og fannfergi í Evrópu þar sem meira en hundrað manns hafa króknað eða látist af völdum kuldanna. Ríkissjónvarpið sagði ágætlega frá þessu í kvöldfréttum (01.02.2012) Í sexfréttum Ríkisútvarps var sagt frá kuldunum en lögð áhersla á að aflýsa hefði þurfti fimm knattspyrnuleikjum á Ítalíu. Hvílík frétt ! Meira um knattspyrnu: Oft heyrir maður í frásögnum af knattspyrnuleikjum setningar eins og heyra mátti í íþróttafréttum Stöðvar tvö (01.02.2012): …leikmenn Tottenham litu ekki til baka eftir þetta. Hér er enn ein hrá enskuþýðingin á ferðinni. Þetta orðalag á ekki að nota á góðri íslensku. Til dæmis hefði mátt segja að eftir þetta hefði Tottenham verið í stöðugri sókn ( er það ekki það sem átt er við?). Eða eftir þetta létu leikmenn Tottenham engan bilbug á sér finna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
03/02/2012 at 13:47 (UTC 0)
Nei. Algjör aulavilla.
Húsari. skrifar:
03/02/2012 at 13:08 (UTC 0)
Sæll Eiður.
„Hversvegna ekki að skíra íslenska þætti …“
Þér er vonandi ekki alvara?(!)
Bestu þökk fyrir þætti þína.
Eiður skrifar:
03/02/2012 at 09:53 (UTC 0)
Hárrétt athugasemd, Þorgils. Algjör klaufavilla hjá mér. Þakka þér ábendinguna.
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
03/02/2012 at 09:30 (UTC 0)
Komdu sæll Eiður! Í annars prýðilegum pistli þínum rakst ég á svolitla staðreyndavillu hjá þér,þar sem þú vekur athygli á eftirfarandi: „Í auglýsingu í Morgunblaðinu (01.02.2012) eru auglýstir nýir matreiðsluþættir í miðli sem heitir mbl sjónvarp. Þættirnir heita Pure Ebba. Hversvegna ekki að skíra íslenska þætti íslenskum nöfum, Moggamenn? Af hverju þarf að nota ensku? Með þessu eruð þið að vinna gegn móðurmálinu. Veljið ykkur annað hlutverk.“ Þessu er ég öllu sammála nema einu: Skírn er ekki nafngjöf, heldur er merking skírnarinnar hreinsun; samanber skíragull. Merking barnaskírnarinnar er á þá leið að hreinsa hvítvoðunginn af erfðasyndinni með táknrænum hætti. Skírnin er þannig eitt, nafngjöf annað. Þegar barn er fært til skírnar hafa foreldrarnir þegar ákveðið nafn barnsins, þó svo að nafn þess sé oft ekki nefnt opinberlega fyrr en við skírnina. Af þessum sökum finnst mér það beinlínis rangt að tala um að þættir séu skírðir, eða þá skip eða aðrir dauðir hlutir og dýr, sem fá nöfn, heldur eru þeir þvert á móti nefndir — þessi er munurinn á skírn og nafngjöf. Ég legg því til að fólk hætti að tala um skírn í merkingunni nafngjöf einvörðungu, með ofangreindum rökum. En hinu er ég algjörlega sammála. Svo var ég að velta því fyrir mér hvort lýsingarorðið „skrýtinn“ sé ekki ritað með ý, samanber skreytni eða skraut, sem ég held að séu rótskyld orð. Með bestu þökkum fyrir skemmtilega og fræðandi pistla þína, Þorgils Hlynur Þorbergsson.