«

»

Molar um málfar og miðla 858

Úr dv. is (06.03.2012) Flutt á slysadeild eftir að hafa klesst á ljósastaur. Þarna notaði fyrirsagnahöfundur barnamálið að klessa á. Barnamál á ekki heima í fréttum. Ekkert var athugavert við málfar í sjálfri fréttinni.

Gunnar þakkar molaskrif og segir: Líttu á þessa grein á Vísi: http://visir.is/midlar-reynslunni-til-annarra-ithrottamanna-/article/2012120308892. Gunnar heldur áfram:
Blaðamaður virðist ekki hafa nein tök á málinu.
Maður sigrar ekki norðurlandamót eða smáþjóðaleik.
Kona upplifir heldur varla keppni við sjálfan sig, heldur sjálfa sig.
Og svona mætti áfram telja. Þá er ljóst að blaðamaður skrifar viðtalið beint upp eftir upptökunni á viðtalinu, í stað þess að lagfæra málvillur.
Þá velti ég því fyrir mér hvað bikarmeistaramet er. Og ef það er til, setur varla nokkur maður 40 bikarmeistaramet.! Molaskrifari þakkar Gunnari sendinguna og tekur undir að hér er mörgu ábótavant að ekki sé sterkar að orði kveðið.

Dyggur Molalesandi sendi þetta:
,, Ég vildi benda þér á villu sem oft kemur fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins. Orðið er dómskvaddir, í merkingunni dómskvaddir matsmenn. Hið rétta er að orðið heitir í lögfræði og í lagasafni Íslands, dómkvaddir og menn eru dómkvaddir matsmenn, ekkert S er í dómkvaddir. Rétt skal vera rétt. Þessi villa heyrðist lesinn upp af fréttamanni í hádegisfréttum í dag í frétt um vandræðagang í stjórnsýslu Seltjarnarnesbæjar.” Þakka bréfið og góð orð um Molana.

Pallborðsumræðan í Silfri Egils (10.03.2012) var ) óvenjulega góð. Það var fengur að því að heyra hvaða blaðamennirnir Ingimar Karl Helgason, Magnnús Halldórsson höfðu til málanna að leggja um Landsdómsmálið sem að mati Molaskrifara er hálfgerður farsi. Skipulögð skipting atkvæða þingmanna Samfylkingar við atkvæðagreiðslu virðist hafa valdið því að svo fór sem fór. Hárrétt sem Kristrún Heimisdóttir sagði: Alþingi misbeitti ákæruvaldinu og öll meðferð þingsins á málinu var hneykslanleg. Kristrún upplýsti að sumir félagar hennar í Samfylkingunni hefðu ,,kjöldregið hana” vegna þess að hún flutti ræðu á fundi stuðningsmanna Geirs H. Haarde. Og svo segja sumir að þetta séu ekki pólitísk réttarhöld! Fyrir þá sem ekki þekkja orðið að kjöldraga þá er það að taka í karphúsið eða veita harðar ávítur. Gömlum Alþýðuflokksmann sem einnig ofbýður allt þetta Landsdómsmál verður nú eiginlega orða vant. Vilhjálmur Bjarnason benti réttilega á að þjóðin var stöðugt fóðruð á röngum á röngum upplýsingum og það var séð fyrir löngu hvert bankakerfið stefndi. Firring og afneitun gegnsýrðu samfélagið þar sem allir brugðust sem brugðist gátu, viðvörunarljós blikkuðu, bjöllur hringdu en ráðamenn og þjóðin dönsuðu kring um gullkálfinn við undirleik bankamannanna og hvorki sáu heyrðu né skildu
Ekki var síður áhugavert að heyra það sem sagt var forsetakosningarnar. Sigríður Dögg Auðunsdóttir undirstrikaði það sem margir hafa sagt og séð að Ólafur Ragnar Grímsson ætlar sér, ef hann nær kjöri aðeins að vera forseti hluta þjóðarinnar, ekki allrar þjóðarinnar, Hann ætlar að vera forseti þeirra sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandi. Það hefur enginn forseti leyfi til að misnota embætti forseta Íslands í þágu persónulegra skoðana sinna. Ólafur Ragnar virðist einskis svífast. Þetta er svo ósvifið að engu tali tekur. Molaskrifari fjallar kannski nánar um það síðar hér á blogginu undir annarri fyrirsögn en Molum um miðla og málfar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>