«

»

Molar um málfar og miðla 871

Á vef Heimssýnar (sem ætti með réttu að heita Heimsýn, því þar sjá menn ekkert nema heim , ekkert að heiman.) segir 26.03.2012): Auglýsing Evrópusambandsins um byggðastyrki sæmdi sér álíka vel í Landanum og krækiber í helvíti. Hér er orðtakið eins og krækiber í helvíti ekki rétt notað að mati Molaskrifara. Þegar talað er um að e-ð sé eins og krækiber í helvíti er átt við að eitthvað sé svo lítið að það skipti ekki minnsta máli því krækiber sé svo lítið og helvítið svo stórt. Hér hefði til dæmis verið betra að segja ef reynt er að giska á hvað vakti fyrir þeim sem þetta skrifaði, að frásögnin í Landanum hafi verið algjörlega óviðeigandi, hafi ekki átt erindi í fréttir. Annars sá Molaskrifari ekki betur en um væri að ræða hlutlæga og trúverðuga frásögn af byggða- eða dreifbýlisstyrkjum ESB. Umræðan er hinsvegar á því stigi að andstæðingar ESB ærast ef eitthvað kemur fram sem er jákvætt og varðar ESB.

Morgunblaðið er eign kvótakónga og drottninga. Það er málgagn þeirra. Skrifað með hagsmuni þeirra að leiðarljósi fremur en að veita lesendum blaðsins hlutlægar og áreiðanlega upplýsingar um þau mál sem helst eru á döfinni í samfélaginu. Morgunblaðið í dag (28.03.2012) er lagt undir baráttuna gegn kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Blaðið er að þjóna eigendum sínum. Það er ekki að þjóna lesendum sínum. Talar um þjóðnýtingu útgerðar, sem er dæmalaust rugl, – nema að það sé þjóðnýting að þjóðin njóti eigna sinna – fiskistofnanna við landið – í auknum mæli. Að mati Morgunblaðsins á fiskurinn áfram að vera séreign fárra, – þá geta þeir hinir sömu líka haldið áfram að niðurgreiða hallarekstur Morgunblaðsins. Molaskrifari er ekki fæddur í gær, – man nokkuð langt aftur. Man aldrei til þess að útgerðarmenn á Íslandi hafi verið aflögufærir um eitt eða neitt. Eilíft tap, harmagrátur og ekkasogin hafa bergmálað um þjóðfélagið. Í sama blaði og spáð var endalokum útgerðar á Íslandi sagði frá lítt þekktum útvegsbónda í Grindavík sem ætlar að ábyrgjast byggingu reiðhallar fyrir bæinn sinn. Hann er þá líklega aflögufær. Ekki alveg á flæðiskeri staddur.

Í sex fréttum Ríkisútvarpsins (26.03.2012) var sagt frá afmæli Listdansskóla Íslands. Skólinn fagnar áttatíu ára afmæli sínu um þessar mundir, sagði fréttaþulur. Í lok fréttarinnar talaði sami þulur um sextíu ára afmæli Listdansskólans. Athugun á öðrum miðlum leiddi í ljós að það er rétt. Listdansskóli Íslands fagnar nú sextíu ára afmæli sínu. Hlustendur vissu hinsvegar ekki hvort var rétt við hlustun á fréttir Ríkisútvarpsins. Það eru ekki góð vinnubrögð að geta ekki viðurkennt mistök af þessu tagi og leiðrétt það sem var ranghermt eins og hlustendur eiga heimtingu á. Þetta er því miður ekki ný bóla í Efstaleiti. Þar virðist meginreglan að reyna að koma sér hjá því að leiðrétta ranghermi. Það er vond vinnuregla.

Molalesandi sendi (26.03.2012) eftirfarandi úr mbl.is um mann sem keyrði yfir holu: ,,Missti af jarðarför vegna holu í veginum –
Prófessor í Suður-Afríku ætlar að kæra stjórnvöld vegna þess að hann missti af jarðarför móður sinnar þegar hann ók yfir holu í veginum og sprengdi dekk á bíl sínum.
Wannie Carstens er prófessor við háskóla í Suður-Afríku og var á leið í jarðarför móður sinnar. Hann ók yfir holu í veginum með þeim afleiðingum að það sprakk á bíl hans. Draga þurfti bílinn á verkstæði og tafði þetta för Carstens svo hann missti af jarðarför móður sinnar.”
Í þessari frétt er það tvítekið að ökumaðurinn hafi ekið yfir holu! Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>