«

»

Molar um málfar og miðla 880

Margt var gott í dagskrá Ríkissjónvarps um páskana. Það var til dæmis reglulega gaman að endurnýja kynnin við kvikmyndina 79 af stöðinni (1962). Hún ber aldurinn miklu betur en ég átti von á. Skemmtilegast er þó að Þau Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld skuli enn vera á fjölunum hálfri öld síðar og enn að leika elskendur. Þess munu líklega ekki mörg dæmi í leiklistarsögunni.

Molalesandi lýsir ánægju með þessa pistla (05.04.2012) og segir:
,,Eitt sem ég hef tekið eftir í umræðunni er hve oft sé talað um að bíllinn sé þriggja dyra. Smá Google leit sýnir eftirfarandi niðurstöðu:
„þriggja dyra“ = 13,900 niðurstöður
„þrennra dyra“ = 586 niðurstöður
En hvernig er með orð eins og egg. Talar maður þar um tvö eða tvenn egg?”
Tvö egg að sjálfsögðu. En þetta með tveggja, þriggja og fjögurra dyra bíla er orðið býsna fast í málinu og líklega erfitt að breyta því.

Ljómandi skemmtilegur var þáttur leikkonunnar Charlotte Böving í Ríkissjónvarpinu á skírdagskvöld (05.04.2012). í kjölfarið kom hið innihaldslitla og sjálfhverfa Andraland. Makalaust að takmörkuðu dagskrárfé skuli kastað á glæ til að kaupa þetta efni dýrum dómum Vænanlega hvílir bankaleynd yfir því hjá þessu opinbera hlutafélagi í almennings á Íslandi hvað hver þáttur kostar greiðslur frá mörgum gjaldendum nefskatts.

Fámennur hópur Vantrúarfólks sem spilaði bingó á Austurvelli á föstudaginn langa fékk óeðlilega mikla athygli í sexfréttum Ríkisútvarps þann sama dag. Enn meiri athygli fékk þessi sami hópur í sjónvarpsfréttum klukkan sjö. Þannig náði þetta fólk tilgangi sínum. Fréttamenn láta fámenna hópa sérvitringa plata sig aftur og aftur, ár eftir ár. Þetta var tveggja setninga frétt og kannski varla það. Engin frétt vegna þess að þetta er árleg uppákoma, ekki viðburður. Ekki viðtalstilefni. Slök frammistaða hjá fréttastofu ríkisins. Ekki var leiðrétt að fréttaþulur sagði að mótmæli hinna vantrúuðu væru ,, á Austurstræti”. Mótmælin voru á Austurvelli. Smáatriðin skipta líka máli í fréttum. Stöð tvö lét ekki plata sig.

Nýr (?) fréttaþulur Stöðvar tvö, Andri Ólafsson, komst vel frá sínu í fréttatímanum á föstudaginn langa.

Það er auðvitað eins og hver önnur firra , þegar í fréttum Ríkissjónvarps á föstudaginn langa var sagt: … þá liggur leiðakerfi Strætó niðri. Engar strætisvagnaferðir voru í Reykjavík þennan dag. Svona var sagt frá þessu á vef Ríkisútvarpsins: „Leiðakerfi Strætó liggur niðri í dag og á sunnudaginn, vegna þess að stjórnendur telja peningunum betur varið annars staðar í starfsemi fyrirtækisins, segir framkvæmdastjóri Strætó”. Leiðakerfið liggur niðri! Þetta er ekki vandað orðalag.

Það hefur áður verið sagt hér í Molum að stilla megi klukkuna eftir upphafi frétta Ríkisútvarpsins. Það er til fyrirmyndar. Ríkissjónvarpið er hinsvegar ein óstundvísasta sjónvarpsstöð norðan Alpafjalla. Þetta er sagt hér aftur og enn. Sýning kvikmyndarinnar 79 af stöðinni hófst nær tíu mínútum eftir auglýstan tíma að kveldi föstudagsins langa. Sýning kvikmyndarinnar Reykjavík Rotterdam á laugardagskvöld hófst heldur ekki á réttum og ekki heldur sýning hins frábæra þáttar frá enduropnun Bolshoileikhússins í Moskvu. Allt hófst þetta seinna en auglýst var. Annaðhvort eru þeir sem stjórna útsendingum Ríkissjónvarpsins með vitlausa klukku eða þeir kunna ekki á klukku. Það er ekkert náttúrulögmál að þetta skuli vera svona. Þetta eru bara léleg vinnubrögð og subbuskapur.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Matthías Ásgeirsson skrifar:

    > „Tuttugu manna hópur sem ár eftir ár spilar bingó á Austurvelli “

    Við vorum kannski tuttugu á staðnum fyrsta árið sem við héldum bingó með afar stuttum fyrirvara og án kynningar en síðan hafa að minnsta kosti þrisvar sinnum fleiri mætt í bingíð ár hvert, jafnvel fjórfalt fleiri.

    Það hlýtur að teljast fréttnæmt að hópur fólks, 60-100 manns, geti komið saman fyrir framan þinghús þjóðarinnar ár hvert og þverbrotið landslög. A.m.k. jafn merkileg frétt og þær sem Bjarki taldi upp.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þórdís. Mér þótti nú steininn taka úr í kvöld þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins talaði um að unglingar gætu ,,halað inn“ allt að tuttugu þúsund krónur þegar um var að ræða að vinna sér inn peninga. Ömurlegt að hlusta á það.

  3. Ásta Þórdís skrifar:

    Það eru nokkur atriði sem angra mig meira en önnur þegar um málfar er að ræða.
    Má þar t.d. nefna þegar fréttamenn hefja tal um það á vordögum að nú séu blessuð lömbin að fæðast. Á Stöð tvö birtist glaðhlakkalegur Logi Bergmann nýverið með slíka tilkynningu og til að bíta höfuðið af skömminni þá virtust þau lepja þetta hvort upp eftir öðru, Logi og stúlkan sem gengdi hlutverki ,,fréttamanns á staðnum“ Mér var kennt sem barni að einungis konur fæði afkvæmi sín en annað gildi um skepnurnar enda hefði maður haldið að það væri alkunna hvað orðið sauðburður merkir. Það er ekki sama orðfæð í íslensku og í ensku þar sem orðið ,,birth“ á við um bæði menn og dýr.
    Ég verð að játa að Logi blessaður er nú fallinn í meiri ónáð en áður var í mínum augum því enn hefi ég ekki fyrirgefið manninum atvik í þættinum; Logi í Beinni, þegar hann og Anna Svava Knútsdóttir höfðu ítrekað eftir hvort öðru tal um að ,,pissa í sig“
    Nei, svei mér þá – að fullorðið fólk skuli tala kinnroðalaust um ,,ristavélar“, ,,lambafæðingar“ ásamt því að ,,pissa í sig“ fær mig til að hafa verulegar áhyggjur af framtíð þessarar þjóðar og getu hennar til að varðveita okkar merka menningararf sem tungan svo sannarlega er.
    Hafðu þökk fyrir þarfar ábendingar, oft var þörf en nú er nauðsyn.
    Bestu kveðjur

  4. Glúmur Gylfason skrifar:

    Ríkisútvarpið, sjónvarp stendur sig vel núna. Sænskri konu leyft að tala sænsku!
    Hins vegar var morðinginn Breivik í fréttunum kallaður [brævík] – sennilega dönsk eða þýsk áhrif, – og nýlega hét skip sem í 100 ár hefur á Íslandi verið kallað Titanik orðið að [tæ’tanik] í munni Boga.

  5. Eiður skrifar:

    Tuttugu manna hópur sem ár eftir ár spilar bingó á Austurvelli á föstudaginn langa er minna en engin frétt.

  6. Bjarki skrifar:

    Í fréttum Ríkissjónvarpsins á föstudaginn langa var einnig fjallað um helgihald kristinna manna, lestur passíusálma, hópgöngu við Mývatn og krossfestingar heittrúaðra kaþóllika á Fillipseyjum. Allt eru þetta árlegar uppákomur sem ætti væntanlega ekki að fjalla um í fréttum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>