«

»

Molar um málfar og miðla 878

Á nýrri ættfræðisíðu Morgunblaðsins er jafnan tvídálkur sem heitir Merkir Íslendingar.

Miðvikudaginn 4. apríl var þar sagt frá Sigurði Guðbrandssyni, mjólkurbússtjóra í Borgarnesi, merkum manni og mætum. Um Sigurð segir: En þó Sigurður væri framsóknarmaður hugsaði hann um gæði framleiðslunnar og hag neytenda. Framsóknarmönnum er sem sé ekki alls varnað! Molaskrifari finnur sig eiginlega knúinn til að greina frá því að sumir bestu vina hans eru (eða voru) Framsóknarmenn.

 

Barnamálið lifir góðu lífi á visir.is (04.04.2012) en þar segir í fyrirsögn: Dópaður klessti á ljósastaur og stakk af.

 

Molalesandi spyr: Hvert flytja menn þegar þeir flytja áfram frá landinu? Áfram hvert?

Hann vitnar í  mbl.is  | 3.4.2012 þar sem segir:  Margir flytja áfram frá landinu.

Ekki er nema von að spurt sé.

 

Úr dv.is (03.04.2012): Það síður á mér, við erum búin að baka allar terturnar og gera allt klárt þegar þetta símatal kom  Hér á auðvitað að standa: Það  sýður á mér… Þetta er ekki innsláttarvilla, því villan er tvítekin í fréttinni. –  Síðan sýð ég fisk …

 

Það er langt gengið í tilfinningaklámi þegar  Stöð tvö  sýnir í fréttum grátandi ungling sem óttast að hundi sem  hann  og fjölskylda hans  eiga  ( einum af fimm)  verði lógað en hundurinn hefur  drepið tvö minni dýr.  Ekki góð vinnubrögð. Hvað vakir fyrir fréttastjóra sem setur svona grátmyndir á skjáinn?

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (04.04.2012) var sagt: … fjölga þurfti flugum vítt og breitt um landið. Átt var við að bæta þurfti við  eða  fjölga flugferðum  til ýmissa staða á landinu svo unnt  væri að anna eftirspurn.  Molaskrifari er ekki fullsáttur við þetta orðalag, en það er kannski smámunasemi.

 

Lesandi benti á eftirfarandi  úr Morgunblaðinu (03.04.2012): Allt að eitt af hverju tilfelli brjóstakrabbameins sem greinist með röngtenskoðun í Noregi hefði aldrei þróast í að verða banvænt eða valdið neinum einkennum. Síðan segir sá sem sendi: „Allt að eitt (allt að einu?) af hverju tilfelli brjóstakrabbameins … Segir þetta ekki allt að öllum tilvikum?? fyrir utan það, að forsetningin að stýrir þágufalli, en nefnifallssýkin er orðin útbreidd!!!“

 

Úr mbl.is (05.04.2012): Um það bil 12 tonn af geislavirku vatni lak úr Fukushima Daiichi kjarnorkuverinu í Japan og óttast er að hluti þess gæti hafa endað í Kyrrahafinu. Hér hefði Molaskrifari sagt:  Um það bil tólf tonn af geislavirku vatni láku úr  …. Kannski er það sérviska.

 

  Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er áreiðanlega rétt hjá þér, Guðmundur, að með tíð og tíma munu beygingarnar hverfa. Þegar ég ákvað að beygja ekki visir.is þá var það fyrst og fremst vegna þess að ég leit á þetta sem eitt orð, en auðvitað er þetta umdeilanlegt, – það kviknar alltaf viðvörunarljós þegar ég segist hafa lesið eitthvað á visir.is !

  2. Guðmundur Ólafsson skrifar:

    Barnamálið lifir góðu lífi á visir.is (04.04.2012) en þar segir í fyrirsögn: Dópaður klessti á ljósastaur og stakk af.

    Ég held því gjarnan fram í fjölskylduboðum að beygingar í íslensku muni hverfa á næstu 50-100 árum og verða sambærilegar og nú er í dönsku-sænsku-norsku. Eitt af því sem mun flýta þessari þróun er að nánast allir sleppa því að beygja vefsíðuheiti. Ég reyni að þráast við og hefði t.d. skrifað „lifir góðu lífi á vísi.is“ Ef allt væri með felldu vissu sæmilega talandi Íslendingar á heitið á síðunni væri visir.is. En ég sé að jafnvel þig, Eiður, rekur með straumnum að þessu leyti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>