«

»

„Langar ekki öllum……“

   Ágætur skólamaður ,sem ég hitti á  förnum vegi við Bónus í  Hafnarfirði í hádeginu í dag  vakti athygli mína á því  að popparinn Páll Óskar  hefði  tvívegis  opinberað  það  sjónvarpi  ríkisins á  laugardagskvöld að hannn  er illa haldinn af þágufallsýki.  Þessi  sami poppari  bullar  yfir okkur á  næstum hverju kvöldi  í sjónvarpinu  um  eitthvað sem   sparisjóðurinn BYR  kallar  fjárhagslega  heilsu, sem  er  rugl. Hvorki  BYR  né  Páll  eru hinsvegar við  góða  „málfarslega  heilsu“  svo  notað sé þeirra  eigin orðfæri.

Ég  heyrði Pál Óskar   einu sinni  spyrja:  „Langar ekki öllum til Moskvu?“ í  sjónvarpinu á laugardagskvöld. Hitt skiptið hefur  farið framhjá mér,  enda  fylgdist ég lítt  með  Evróvisjón vitleysunni, sem ég  svo kalla. Svo  sitja  kennarar  í skólum landsins og reyna að  kenna  börnum að  segja  „mig langar “   en ekki  „mér langar“. Svo kemur  poppgoðið á vegum  RÚV og brýtur þetta starf niður.

Það verður að   ætlast  til þess af  Ríkisútvarpinu að það velji  fólk til  starfa  sem  hefur   betri  tök á móðurmálinu  en þarna  mátti heyra.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    Málfarsmál snúast fyrst og fremst um þetta: Í upphafi talaði fólk á Íslandi ekki fullkomið mál og á því urðu breytingar þar til það varð að ósnertanlegum dýrgrip. Frá þeim tíma hefur málinu farið aftur. Hvenær þessi „vendipunktur“ var er hins vegar skilgreiningaratriði, en málfarsvöndunarmenn eru þó yfirleitt sammála að það hafi verið í barnæsku þeirra þannig að málið sem þeir töluðu í æsku sé rétt. Þeir sem eru svo ógæfusamir að vera fæddir síðar eru hins vegar bögubósar tali þeir öðruvísi. Þannig tók sögnin að langa með sér gervifrumlag í þolfalli í mínu ungdæmi en núna í þágufalli. Það hlýtur því að vera rangt. En hvað með breytingarnar sem urðu á umliðnum öldum? Færa þær málið til betri vegar? Í öndverðu voru miklu fleiri sérhljóð í íslensku en nú er. Eru þau þá hæfilega mörg núna og má ekki fækka eða er það eðlilegt að til dæmis e og i renni saman? Til forna tók sögnin að ljá með sér andlag í eignarfalli (að lána einhvers; lánaðu mér bílsins). Er það bull eða eðlileg breyting að hafa þolfall? Er svokölluð „þágufallssýki“ ,sem er gildishlaðið orð og á naumast rétt á sér vegna þess að það gefur til kynna að sumar málbreytingar eigi rétt á sér en ekki aðrar, ekki bara eðlileg þróun?

  2. Nöldurseggur skrifar:

    Tja, hvað skal segja. Ég hef rætt nýlega við ansi marga kennara um það, sem kallað var réttritun þegar við vorum ungir, Eiður. Ef ég skil þeirra íslensku rétt, þá er hætt að kenna slíkt í Kennaraháskólanum (nú Háskóla Íslands, kennaradeild, held ég). Það fólk, sem innritast í kennaranám á sem sagt að kunna að skrifa og tala íslensku „rétt“.  Þar við bætist, að sjónarhorn skólamanna til íslensku og „réttritunar“ hefur breyst ansi mikið, og afstaðan orðin töluvert mikið „frjálslegri“ en áður var. Það er hætt að telja þessa þágufallsnotkun, sem þú nefndir, alfarið ranga, svo dæmi sé tekið. Ég hef tekið eftir því að kennaramenntað fólk er oft á tíðum síst betur að sér í þessari „gömlu“ réttritun, sem þú og ég ólumst upp við, en ég og annað óskólagengið fólk. Þar á ég bæði við vanþekkingu á fallbeygingu orða, hvenær rituð eru tvö „n“ og hvenær maður segir „af“ og hvnær „að“ sem virðist orðið ansi mikið á reiki.  

  3. Ruth Fjeldsted skrifar:

    Poppgoðið lagði alveg sérstaklega áherslu á orðið „öllum“, þegar það sagði „það langar alveg örugglega ÖLLUM til Moskvu“

  4. Flosi Kristjánsson skrifar:

    Kona úr Barðastrandasýslu skrifaði þættinum og  …

    Það er sjálfsagt að halda áfram að hamra á þessum efnum, Eiður, og ekki gefa eftir einn þumlung. Fólk vill tala rétt og finnst það eflaust vandræðalegt að vera staðið að hvers kyns hortittum og ambögum.

    Undirritaður vekur ætíð kátínu síns heimafólks þegar hann fer að „leiðrétta“ fólk sem tjáir sig í útvarpi eða sjónvarpi. Menn vita sem er að slíkar aðfinnslur skila sér ekki. Hins vegar er gráupplagt að nota slíkan vettvang sem bloggið er til að ítreka hluti eins og þú nefnir. Þá má líka reyna að vinna gegn bullorðum og -orðasamböndum, eins og valkostur og fara erlendis. Þetta mætti gera með því að benda á hve hjákátlegt er að tala um Alþingisvalkosningar eða „að koma hérlendis“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>