Molaskrifari hefur átt þess kost að heimsækja Norður-Kóreu tvisvar sinnum. Það var afar fróðlegt en engar voru það skemmtiferðir. Þessvegna m.a. hefur hann reynt að fylgjast með þróun mála þar í landi að undanförnu og lesið sér til um landið. Skrifari hefur að undanförnu velt því fyrir sér hvað væri hægt að metta marga munna í þessu landi ævarandi hungursneyðar alþýðunnar fyrir það fé sem notað var í misheppnað eldflaugarskot fyrir fáeinum dögum. Svarið sá hann óvænt í vikuritinu TIME (23.04.2012).Talið er að eldflaugarskotið hafi kostað 850 milljónir dollara. Fyrir það fé mætti fæða 19 milljón manns í heilt ár. Íbúar landsins eru 23,5 milljónir.
Góðvinur Molaskrifara benti honum nýlega á hve algengt það væri orðið að fréttamenn spyrðu leiðandi spurninga. Dæmi um þetta var í hádegisfréttum Ríkissútvarps (14.04.2012) þegar fréttamaður spurði Steingrím J. Sigfússon: Hefur þú geð í þér til að halda áfram þessum aðildarviðræðum …?
Gildishlaðin og leiðandi spurning.
Molavin sendir fyrirsögn úr mbl.is (13.04.2012) og segir: Mig grunar að eitthvað sé bogið við þessa fyrirsögn: Grunuðu að ekki væri allt með felldu. (Screen shot 2012-04-13 at 11.19.01 AM) Molaskrifari staðfestir gruninn. Það var ekki allt með felldu varðandi þessa fyrirsögn.
Nýlega fékk Molaskrifari yfir sig svívirðingar og uppnefni í athugasemdum á vefsíðunni Orðið á götunni. Ástæðan var sú að honum finnst þættirnir Andraland vera heldur lélegt sjónvarpsefni og umsjónarmaðurinn illa máli farinn. Molaskrifari er enn sömu skoðunar. Þessir þættir eru óttaleg nesjamennska. Hann skortir hinsvegar nennu til að skrifa meira um svo ómerkilegt efni.
Molaskrifari sá nýlega auglýsingu í dagblaði um svokallaðar minnistöflur. Þar var sagt. Bætir skammtímaminnið. Er það sannað? Hefur það verið rannsakað vísindalega? Hvað segir embætti landlæknis? Gjalda ber varhug við fullyrðingum af þessu tagi nema vísindaleg rök fylgi. Þau voru hvergi sjáanleg í þessari auglýsingu.
Í Morgunblaðinu (14.04.2012) var haft eftir útvarpsstjóra: „Aldrei hefur álit fólks á Alþingi og alþingismönnum risið lægra heldur en í dag”, sagði Páll … Molaskrifari hefur efasemdir um að hægt að tala um að eitthvað rísi lágt. Þetta hefði mátt orða á ýmsan annan veg. Það er hins vegar stundum sagt um menn að það sé lágt á þeim risið. Þannig mætti segja að það væri yfirleitt ekki hátt risið á þingmönnum um þessar mundir. Hér hefði einnig verið eðlilegt að segja , til dæmis: Aldrei hefur fólk haft eins lítið álit á Alþingi og alþingismönnum eins og í dag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/04/2012 at 09:21 (UTC 0)
Já, þetta sagði Time. Og sjá einnig: http://www.theatlanticwire.com/global/2012/04/deadly-cost-north-koreas-rocket-launch/51066/ þar sem frekari fróðleik er að finna
Úlfur skrifar:
17/04/2012 at 09:09 (UTC 0)
Komdu sæll
Fróðlegar upplýsingar um kostnað við eldflaugaskot N-Kóreumanna. Eru þessar tölur virkilega réttar; duga 850 milljónir dollara til að fæða 19 milljónir manna í heilt ár? Það eru um 45 dollarar á mann!