Þorskárgangurinn frá því fyrra er sá feitasti og fjölmennasti .. var sagt í upphafi frétta Stöðvar tvö á fimmtudagskvöld (12.04.2012) . Það er nokkur nýlunda að gera þorskinn , þótt góður sé, mennskan með þessum hætti. Í fréttinni var hinsvegar réttilega talað um árgangurinn væri stór, en ekki að hann væri fjölmennur !
Fengu 300 kílóa sprengjudufl í veiðarfærin, segir í fyrirsögn á dv.is (11.04.2012). Málvenja er að tala um tundurdufl , sem er fínt orð yfir það sem á ensku er kallað a floating mine. Á árunum eftir stríð voru tíðar tilkynningar í Ríkisútvarpinu sem byrjuðu svona: Tundurdufl sást á reki í dag … Tilkynningin var síðan lesin á ensku: A floating mine was seen today … Þetta var fyrst enska setningin sem Molaskrifari lærði eins og páfagaukur. Ekki sundurgreindust þó orðin fyrr en enskunám hófst í gagnfræðaskóla undir ómetanlegri leiðsögn Árna Guðnasonar cand.mag..
Oftar en ekki hljóma nú dægurlög og popp í báðum morgunþáttum Ríkisútvarpsins. Það sem kallað er sígild tónlist (dægurlög geta reyndar líka verið sígild) ætti að eiga öruggt athvarf á Rás eitt.
Athyglisverð frétt hjá Stöð tvö (11.04.2012) um það sem kallað var „stærsta ósýnilega fyrirtæki landsins”, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar á Reyðarfirði,sem í næsta mánuði verður komið með 350 manns í vinnu eystra og í Hafnarfirði. Það léttir alltaf svolítið yfir manni þegar fréttatímarnir eru ekki tómt væl og bölmóður. Jákvæð frétt og örugglega voru þeir margir sem ekki höfðu heyrt þetta fyrirtæki nefnt á nafn áður.
Í fréttum Ríkissjónvarps (13.04.2012) var réttilega talað um nýtt lyf gegn hægðatregðu hjá börnum. Í sexfréttum útvarps var hinsvegar talað um hægðatregðu á börnum sem er langtum lakara orðalag, að ekki sé meira sagt.
Enska orðið ever þrengir sér inn í íslenskuna. Rætt var við tónlistarblaðamann, sem svo var kallaður. Hann sagði um velgengni íslenskrar hljómsveitar að það væri flottasta byrjun ever. Flottasta byrjun sem sögur fara af, hefði hann til dæmis getað sagt, flottasta byrjun í manna minnum. Bara ekki flottasta byrjun ever. Þetta heyrist því miður býsna oft.
Molaskrifari reynir að missa ekki af Útsvari í Ríkissjónvarpinu, sem eins og allir þættir er krefjast svolítillar þátttöku áhorfenda er gott efni. Stjórnendur standa sig líka með mikilli prýði. En Molaskrifari leyfir sér að benda Sigmari á að þegar dómari er að íhuga eða ráðfæra sig við ráðgjafa um það hvort tiltekið svar sé rétt þá er það ekki rekistefna. Það er kannski frekar ráðstefna. Rekistefna er nefnilega, eftir því sem orðabókin segir, afskipti, íhlutun eða rex. Það að rekast í e-u. Gera rekistefnu út af einhverju er að fjargviðrast um eitthvað eða út af einhverju. Molaskrifari ætlar reyndar ekki að gera neina rekistefnu út af þessu , heldur er þetta vinsamleg ábending.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar