«

»

Molar um málfar IX

   Stundum komast orð  og orðtök á kreik úr munni  fjölmiðlunga  og verða einskonar tískuorð. Étur  þá hver  eftir öðrum með  góðri lyst.Í Kastljósi  RÚV sjónvarps í  kvöld var talað  um að  “landa samningi” –  að gera samning. Íþróttafréttamenn þrástagast á  því  að lið “landi sigri” þegar þau vinna sigur. Það er þó skömminni skárra að heyra þá  tala um að  “landa sigri”  en    “sigra keppnina” eins og alltof oft  heyrist. Persónulega  finnst mér þetta löndunartal hálf hallærislegt. Sögnin  að landa  hefur   fyrst og framst þá merkingu í íslensku    setja (afla) á land. Dæmi: Aflanum var landað í Þorlákshöfn.  Eftirfarandi   stóð í  netvísi í dag :“Persónuvernd komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að foreldrar nema undir tvítug hafi verið heimilt að fá vitneskju um mætingu barna sinna…” Þetta er enn eitt  dæmið um að fréttaskrifara skortir grunnþekkingu á  móðurmálinu. Þarna átti auðvitað að  standa: “Persónuvernd  komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að  foreldrum nema undir tvítugu hafi verið heimilt að  fá vitneskju um mætingu barna sinna…” Sumir segja  að ekki  eigi að gera  miklar kröfur um málfar til þeirra sem  skrifa á blogginu. Þessu  er ég ósammála.  Eftitrfarandi texti var   á Moggabloggi í dag. Höfundur   titlar sig   stjórnmála- og fjölmiðlafræðing frá Háskóla Íslands og  kveðst leggja  stund á MBA nám, framhaldsnám í  viðskiptafræði.  Það á eftir að aukast gífurlega að fjölskyldur sæki sér aðstoðar til hjálparsamtaka. Nú er svo komið að margir innfæddir þurfa frá að hverfa því nýbúar sækja sér mataraðstoðar líka. Það er enginn greinamunur gerður á fólki, hvorki uppruna þess, litarháttar eða kyns. Vart var við óánægju hjá innfæddum s.l. miðvikudag hjá Fjölskylduhjálp Íslands er nýbúar voru hátt í helmingur þeirra er sóttu sér aðstoðar þá. Innfæddir þurfa að skilja að nýbúar hafa jafnan rétt og þeir.” Vonandi er ég ekki einn um    finnast þessi  texti fyrir neðan allar hellur. Það liggur  við að   villa sé í hverri einustu línu.  Ekki  veit  ég nákvæmlega hvaða  kröfur eru gerðar til þeirra sem útskrifast úr  stjórnmála- og  fjölmiðlafræði úr Háskóla Íslands. Samkvæmt þessu  eru þær þó ekki miklar hvað móðurmálskunnáttu varðar.  Og svo í  lokin  enn ein  aulaþýðingin   úr netmogga í kvöld:  “Búist var við að snjófall í Norðurríkjunum yrði víða meira en 30 sm.”“Snjófall” ! Senn  verður rigning líklega  “regnfall” ! PS Einhvern tíma var mér  kennt  að segja    Sauðkrækingur  en ekki  Sauðkræklingur eins og íþróttafréttamaður RÚV  sagði í  tíufréttum sjónvarps. Hvað segja  þeir sem búa á  Sauðárkróki ?    

 

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valtýr Kári skrifar:

    Krækingur er komið af orðinu krækja sem þýðir einfaldlega krókur.

    Kræklingur (Muytilus edulis) er sælindýr sem er nýtt bæði til matar og beytu.

    Það má kalla okkur sem búum á Sauðárkróki mörgum nöfnum, og sumum ekki fögrum, en sælindýr erum við ekki! Þó erég alveg tilbúinn að fyrirgefa það þar sem að flest fólk veit ekki betur en það fer þeim mun meira í taugarnar á mér þegar fólk spyr hvernig sé að búa á Sauðarkróki.

  2. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Þakka þér fyrir málfarsmolana, Eiður, það veitir ekki af að reyna að sporna á móti allri árans vitleysunni. Stundum hef ég reynt þetta en er nú í bloggfríi um sinn.

    Get þó ekki still mig um að sperra ögn eyrum við Sauðkrækingunum. Svona 50 fyrstu árin af ævi minni vandist á að heyra og sjá þá nefnda Sauðkræklinga. Sem í sjálfu sér er rökvilla en vegna vanans þykir mér það skemmtilegra með ellinu. 

    Fróðlegt væri að vita hvað þarlendum sjálfum finnst.

    Góð kveðja

  3. Yngvi Högnason skrifar:

    Takk fyrir molana.
       Faðir minn var fréttamaður og íslenskumaður á sínum tíma og ýmislegt hafði hann til málanna að leggja þá. Ég efa ekki að gaman þætti honum að skrifa í þessa áttina ef hann væri hér enn. En svo er ekki og þar skarð fyrir skildi, því ekki er ég hálfdrættingur við hann en gaman þykir mér samt. Ég man að hann sagði mér eitt sinn um skrifað mál,að ef ég gæti stytt það þá skyldi ég gera það. Finnst mér að margir mættu gera það að sínu. Einhverjar ambögur úr blöðum og sjónvarpi hef ég hjá mér og fæ kannski  að setja þær hér inn þegar við á. En í lokin: þá (persónulega)finnst mér þetta löndunartal hálf hallærislegt.

  4. Eiður skrifar:

    Það er auðvitað hárrétt ,Ómar , að mikil  aukning á  fjölda er fjölgun. Það  hefði ekki glatt okkar gamla yfirmann,séra Emil, að lesa um mikla aukningu á  fjölda!

    Þakka þér  góð orð  Sigurður. Hef  ekki heyrt  „karabíska“ nokkuð  lengi,  en þegar ég var  byrja í blaðamennsku var það  regla  , muni ég rétt , að  skrifa þannig. Eins og þú nefnir er  hitt auðvitað rétt.

    Einu skiptin, sem  ég staðnæmist  við Útvarp  Sögu á ljósvakavafri er þegar ég rekst á þína þætti. Þeir  eru mér í senn skemmtan og  fróðleikur (t.d. þetta með   fúla márinn  ,  – fulmar –  sem  ég ekki vissi ) oft  dáist ég að þolinmæði þinni  við  stóryrta rugludalla ! Svo  eru krummasögurnar auðvitað ómissandi. Í  suðurhlíðum Hestfjalls er hrafn sem  gengur að  kjötleifum á vissum stað á morgnana um helgar. ég er  löngu hættur að setja  fyrri hann kartöflur eða  grænmeti  því hann fúlsar við slíku eins og þínir krummar.

  5. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Afsakið ritvillu í síðustu málsgreininni sem átti að vera svona:

    Samkvæmt þessari hvimleiðu tísku hefði ég ekki talað um ofnotkun orðsins „aukning“ í upphafi þessarar athugasemdar heldur sagt: „Mikil aukning hefur orðið í notkun orðsins „aukning“ og má segja að um of mikla aukningu á notkun orðsins sé að ræða.“

  6. Ómar Ragnarsson skrifar:

    Eitt hvimleiðasta fyrirbærið í málfari fjölmiðlamanna er ofnotkun orðsins „aukning“ sem. Síðast í hádegisfréttum í dag glumdi eitt afbrigðið af þessu í eyrum. „Mikil aukning hefur orðið á fjölda nemenda“ er sagt í stað þess að segja“: Nemendum hefur fjölgað.“ Sjö orð notuð í stað þriggja.

    Samkvæmt þessari hvimleiðu tísku hefði ég ekki talað um ofnotkun orðsins aukning í upphafi þessarar athugasemdar heldur segja: „Mikil aukning hefur orðið í notkun orðsins aukning og má segja að um of mikla aukningu á notkun orðsins sé að ræða.“.

  7. Sigurður G. Tómasson skrifar:

    Sæll Eiður!

    Enn er tönnlast á „karabíska hafinu“ í fréttum Rúv. Þetta er líklega samsláttur úr Karíbum, en svo kölluðu Spánverjar frumbyggjana og mun vera afbökun úr „canibales“ en þeir hræddust mannætur, og „arabísk“. Þetta er hvimleið ambaga, sennilega komin til okkar úr dönsku. Þakka þér fyrir ágæta pistla um málfar.

  8. Sverrir Einarsson skrifar:

    Bragð er að þá barnið finnur. Takk fyrir þessa pistla. Hverjum finnst það í lagi (gerir litlar kröfur) að tala og skrifa vitlaust?
    Eru það ekki einstaklingar sem hefur sem hefur gengið illa að læra stafsetningu sjálfum og geta því erfiðlega gagnrýnt það sem aðrir gera og segja (tala og skrifa).
    Ef ég ætlaði mér að verða lesari í útvarpi og væri kominn í það starf, hvort sem ég væri óskýrmæltur, þvoglumæltur eða ill skiljanlegur að öðru leyti, myndi ég þá fara að gera athugasemdir við aðra, nei held ekki og legðist í lið með þeim sem teldu slíkt smámunasemi.

    Þegar krakkar komust í útvarp fyrir þá eiginleika eina að hafa ákveðinn tónlistarsmekk og þekkingu á ákveðinni tegund tónlistar ef svo er hægt að orða hlutina, þá fór að vera mikið um málfarsvillur, orðskrípi og annað illskiljanlegt mál og viðkomandi þáttastjórnandi gerði bara ekkert með það vegna þess að það voru ekki hæfileikarnir  í  málfari eða Íslensku sem kröfurnar um að fá starfið lágu í heldur tónlistar þekkingin.

    Alltaf finnst mér gaman þegar fólk er að reyna að „slá umsig“ með orðatiltækjum og málsháttum sem það kann svo ekki almennileg skil á. En er jafnframt sorglegt fyrir viðkomandi.

    Læt þetta duga að sinni.

  9. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Einhverra hluta vegna  máðust öll greinaskil út úr þessari  færslu minni. Kann  enga skýringu á því. Var  búinn að   skoða hana  í réttu umhverfi áður en hún var  vistuð. Hvimleitt.  –  Eiður

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>