Lesandi bendir frétt á mbl.is (12.07.2012) sem ber fyrirsögnina: Fargjöldin ódýrari en í vor, http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/07/12/fargjoldin_odyrari_en_i_vor/. Hann segir síðan: ,,Hvernig skyldi t.d. 20.000 kr. fargjald vera verðlagt við sölu?? Í meginmáli fréttar kemur einnig fram, að verð séu nú ódýrari en fyrr. Af samhengi má þó ráða um sé að ræða lækkun fargjalda, það er að ferðir séu nú ódýrari en fyrr.“ Molaskrifari þakkar sendinguna.
Annar lesandi vísaði á frétt á mbl.is (12.07) þar sem sagt var frá ferðamönnum sem höfðu fótbrotnað. Ýmist var sagt að ferðamönnunum hefðu verið mislagðir fætur eða mislagðar fætur. Þá var talað um Fljótshlíð á Austurlandi. Það var seinna leiðrétt og talað um Fljótsdal.. Lesandi segir:,,Hvers kyns eru fætur Mbl. manna?? Og skyldi ferðamaðurinn eystra nokkuð hafa verið í Fljótsdal??“ Von er að spurt sé.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (13.07.2012) var okkur sagt að eftir rúma klukkustund mundu tveir körfuboltamenn skrifa undir einhverja samninga. Íþróttadeild Ríkisútvarpsins telur líklega að þjóðin hafi beðið eftir þessari frétt með öndina í hálsinum. Fréttamatið í Efstaleitinu er stundum alveg úti í móa. Þetta er ekki frétt nema fyrir þröngan hóp áhugamanna um körfubolta.
Auglýsingamenn eru iðnir við kolann og hlífa ekki tungunni. Úr auglýsingu í Fréttablaðinu (13.07.2012): …. og það er 30% afsláttur af Outlet verðum … Fuss og svei.
Úr mbl.is (13.07.2012) þar sem fjallað er um óvenjulega sumarhita á Grænlandi.: Er svo komið að viðvarandi sól og hiti á suðvesturhluta landsins hefur ollið miklum vandræðum sem sumir hafa jafnað við náttúruhamfarir. Sumir fréttaskrifarar valda því ekki að nota sögnina að valda.
Meira úr mbl.is sama dag: Ég var að koma af Möðrudalsöræfum þar er mikið moldarfok. Í minni sveit var þetta kallað moldrok.
Sumarliðarnir á fréttastofu Ríkisútvarpsins þurfa aðhald og leiðsögn. Í tíufréttum (13.07.2012) var talað um Landssamband íslenskra útgerðarmanna, LÍÚ er Landssamband íslenskra útvegsmanna. Það ætti eiginlega ekki að vera hægt að fá vinnu á fréttastofu Ríkisútvarpsins án þess að vita þetta. Villan var endurtekin í fréttum á miðnætti. Hlustar ekki útvarpsstjórinn? Hlustar ekki fréttastjórinn? Hlustar enginn? Þótt sumum finnist kannski að í smáu sé, þá rýra svona mistök trúverðugleika fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins (14.07.2012) var talað um göng sem eiturlyfjasmyglarar í Mexíkó hefðu grafið. Talað var um tvö göng. Rétt hefði verið að tala um tvenn göng. Því orðið göng er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/07/2012 at 10:39 (UTC 0)
Þakka þér, Guðlaug.
Guðlaug Hestnes skrifar:
15/07/2012 at 07:38 (UTC 0)
Takk fyrir eljuna gagnvart málinu. Mér líkar það, og les þig alltaf.
Eiður skrifar:
14/07/2012 at 15:14 (UTC 0)
Þetta var matreitt eins og tímamótastórfrétt , sem það ekki var. Eftir klukkutíma munu ……
Axel skrifar:
14/07/2012 at 14:20 (UTC 0)
Fréttin um körfulboltamennina var flutt í seinni hluta fréttatíman eins og venja er með íþróttir. Körfubolti er vinsæl íþróttagrein á Íslandi. Tveir landsliðsmenn eru á leiðinni heim úr atvinnumennsku í útlöndum til að spila með KR. Fyrir hóp íþróttaáhugafólks var þessi tilkynning tíðindi. Hvert er vandamálið? Voru ekki íþróttafréttamennirnir ekki bara að vinna vinnunna sína?
Eiður skrifar:
14/07/2012 at 11:18 (UTC 0)
Venjuleg Efstaleitisnesjamennska.
Kristján skrifar:
14/07/2012 at 11:14 (UTC 0)
Engu líkara en að Lebron og Wade hefðu gengið í KR. Hlægilegt !