Molavin vitnar í fyrirsögn á mbl..is (20.07.2012): Kallaði skotmann sturlaðan tíkarson. Hann segir síðan:
..Þetta er dæmi um það sem eitt sinn var kallað „hot-spring-river-this-book enska“ = hrá orðabókarþýðing. „Son of a bitch“ er blótsyrði á ensku en ekki á íslenzku. Hér eru til mörg orð sem lýsa andúð á manneskju, en *tíkarsonur* er ekki eitt þeirra, enda eru hvolpar yfirleitt hin geðþekkustu dýr. Þeir, sem ráðnir eru til starfa við fjölmiðla, verða að ráða við sitt eigið móðurmál, að minnsta kosti. Helzt þyrftu þeir líka að ráða vel við þau erlendu mál, sem þeir fást við. Í nútíma dönsku merkir til dæmis upphrópunin „Nej, hold da kæft!“ ekki „Haltu kjafti“ (eins og lesa mátti í íslenzkum netmiðli fyrir skemmstu), heldur frekar eitthvað á borð við „ótrúlegt“ – eins og í setningunni „hold da kæft hvor var det fedt.“ Sem vel að merkja hefur heldur ekkert með fitu að gera. Mætti einfaldlega þýða með upphrópuninni: „Frábært!“
Fyrir tveimur til þremur áratugum var lagt upp úr því að málfar fjölmiðla væri til fyrirmyndar. Þá komu nýliðar til starfa á unga aldri, líkt og nú, en þar hlutu þeir yfirleitt skólun í faginu hjá sér eldri og reyndari blaða- og fréttamönnum. Ríkisútvarpið bætti um betur og réð málfarsráðunaut, sem bæði gaf út almennar leiðbeiningar um málnotkun og liðsinnti þeim, sem honum þótti hjálpar þurfi. Þá var þetta útvarp allra landsmanna og rækti það hlutverk. Svipað mátti segja um Morgunblaðið, sem þá var áhrifamesta blað landsins. Því stýrðu hinn ritsnjalli Styrmir Gunnarsson og ljóðskáldið Matthías Johannessen; báðir metnaðarfullir fyrir hönd móðurmálsins. Þar störfuðu líka vandvirkir prófarkalesarar og texta blaðsins hefði mátt nota sem fyrirmynd við móðurmálskennslu. En nú er öldin önnur.” Molaskrifari þakkar þessa ágætu sendingu.
Molalesandi sendi eftirfarandi: ,,Þessa merku grein má sjá í dag á vefnum fotbolti.net ég held að sá sem ber ábyrgð þessum pistli ætti að láta sér nægja að horfa á fótbolta en láta öðrum eftir skrifin.
Chris Smalling, 22 ára varnarmaður Manchester United, verður frá næstu 10 vikurnar í kjölfarið af aðgerð á fóti sem hann fór í fyrir stuttu.
Smalling þurfti aðgerð vegna beinbrots í fætinum og mun ekki spila fyrr en í lok september.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=130136#ixzz21JbZ0cyE “ Já, það er rétt. Sá sem lét þetta frá sér ætti að skrifa sem allra minnst.
Endalaust er ruglað saman orðatiltækjunum ekkert til sparað og engu til kostað. Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps sagði (21.07.2012) um lokaathöfn Ólympíuleikanna í Beijing fyrir fjórum árum að þar hefði engu verið til sparað. Ekkert til sparað, hefði hann átt að segja.
Íslensk stúlka sem hefur verið valin til að taka þátt þátt í 70 manna dansi á lokaathöfn Olympíuleikanna í London var spurð í fréttum Ríkissjónvarps (21.07.2012) : En hvað þarf að bera til að vera valin til að ….. Líklega hefur spyrilll átt við: En hvað þarf að hafa til að bera til að vera valin…
Sex togarar í vari á Stafnesi, segir í fyrirsögn á mbl.s (21.07.2012). Í fréttinni segir réttilega að togararnir séu í vari við Stafnes. Við Stafnes er allt annað en á Stafnesi.
Ríkissjónvarpið treysti sér ekki til að sýna okkur minningartónleikana í Osló í beinni útsendingu (22.07.2012). Á móti kom ágæt leiðsögn Boga Ágústsson og góður neðanmálstexti sem væntanlega hefur verið skammur tími til að snúa á íslensku, en það tókst vel. Hinsvegar var það til vansa að sjónvarpið skyldi nánast ekkert sýna frá minningarguðsþjónustunni í dómkirkju Oslóar um morguninn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Tómas Tómasson skrifar:
24/07/2012 at 10:25 (UTC 0)
“ Á móti kom ágæt leiðsögn Boga Ágústsson og góður neðanmálstexti sem væntanlega hefur verið skammur tími til að snúa á íslensku, en það tókst vel.“
Svona setningar eru yfirleitt innan gæsalappa í þínum pistlum.
Eiður skrifar:
23/07/2012 at 16:15 (UTC 0)
Rétt. Ósló.
Eygló skrifar:
23/07/2012 at 15:20 (UTC 0)
Er broddurinn ekki lengur notaður yfir „O“ í Ósló?
Eða skiptir ekki máli hvort ritað sé „Osló“ eða „Ósló“?
Gutti skrifar:
23/07/2012 at 14:37 (UTC 0)
Ég hnaut um þessa fullyrðingu höfunds:
„verða að ráða við sitt eigið móðurmál, að minnsta kosti. Helzt þyrftu þeir líka að ráða vel við þau erlendu mál, sem þeir fást við“
Skv. fræðum míns móðurmáls er orðið „Helst“ ritað með s en ekki z.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
23/07/2012 at 11:43 (UTC 0)
Árið 1998 varð uppi fótur og fit eftir að Sverrir Hermannson kallaði tvo nafnkunna menn „tíkarsyni“ í lesendagrein í Mogganum. Nú má ýmislegt um Sverri Hermannsson segja en að hann sé ótalandi eða óskrifandi á íslensku er ekki þar á meðal.