«

»

Molar um málfar og miðla 965

Ætlar að halda sér á Íslandi í sumar, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (24.07.2012), en þar segir manni sem ekki hyggst ferðast til útlanda í sumar. Máltilfinning Molaskrifara er sú að fyrirsögnin ætti að vera: Ætlar að halda sig á Íslandi í sumar. Ég ætla að halda mig heima í dag, ég ætla ekki að halda mér heima í dag!

Stundum er svolítið erfitt að botna í Ríkissjónvarpinu okkar. Konuröddin (hér-hikk-á Rúv) sem kynnir dagskrána sagði við okkur (23.07.2012) um þættina Gull byggir að þar væri fjallað um um endurbyggingu húsa og sýnd réttu handtökin. Þetta er undarlegt í ljósi þess að Vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð sem sýnd eru í þættinum. Þar er alls ekki verið að sýna réttu handtökin, heldur þvert á móti.

Molalesandi sendi eftirfarandi: ,,Ég skoða stundum textavarpið og pirra mig oft á lélegu málfari þar og svo því að oft sést ekki fréttinn öll, hverfur bakvið auglýsingaborða neðst á síðunni.
Á síðu 113 24/07/12 er talað um að meðalársnotkun hafi minnkað um 10 % og er talað um bensín og dísel í … kílóum, ég hélt að lítrar væri mælieiningin þar.
Á wikipedia er er að finna upplýsingar um eðlisþyngd bensíns eðlisþyngd bensíns og aðra efnafræðilega eiginleika.” Molaskrifari hjó eftir þessu líka. hefur aldrei áður heyrt talað um notkun díselolíu og bensíns í kílóum.

Í fréttum Ríkisútvarps var sagt frá fólki í Bretland sem hefði sætt ákæru vegna símahlerana. Um einn einstakling var sagt að hann hefði verið ákærður fyrir ýmis atriði aukalega. Eðlilegra hefði verið að segja að hann hefði verið ákærður fyrir ýmis önnur atriði til viðbótar, eða aukinheldur hefði hann verið ákærður fyrir fleiri atriði.

Eitthvað skolaðist til í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af ævintýramanni sem kallar sig hælisleitenda og tókst að lauma sér um borð í erlent skip í Reykjavíkurhöfn. Talað var um skemmtiferðaskipuið Knorr,- skipið er rannsóknaskip. Talið var að maðurinn hefði komist um borð í skipið er það lá við olíubryggjuna í Örfirisey, hann mun hafa laumast um borð er skipið lá við Miðbakkann, þar sem gæsla er lítil sem engin. Gott ef að ekki var svo sagt að skipið væri á leið til Nýja Sjálands, en það er á leið til Nýfundndalands , sem er allt önnur Ella.

Af mbl.is (24.07.2012): Valitor vísaði í dag til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júlí sl. í máli Datacell gegn Valitor en í dómi Héraðsdóms var Valitor gert að veita Datacell greiðsluþjónustu. Fram til þessa hefur verið talað um að áfrýja dómi undirréttar til Hæstaréttar, ekki vísa dómi til Hæstaréttar.
Stálu vinnufatnaði og reyndu svo að flýja land, segir fyrirsögn á mbl.is yfir mynd af einkennisbúnum flugmönnum (?) í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hreint furðuleg myndbirting eins og oft er í netmiðlum. Myndin tengist efni fréttarinnar nákvæmlega ekki neitt (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/07/24/stalu_vinnufatnadi_ur_verslun/)

Fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu kl. 15 00 (25.07.2012) var um að Ólafur Ragnar Grímsson ætlaði ekki að koma í veg fyrir aðildarviðræður Íslands að ESB! Þakka skyldi honum! Forsetaembættinu kemur það mál nákvæmlega ekkert við. Næsta frétt var um Kim Jong-un í Norður-Kóreu. Stundum örlar á húmor á fréttastofunni.

Þrír leikir (að minnsta kosti) fóru fram í kvennaknattspyrnu á á OL 2012 á miðvikudag (25.07.2012). Þeir fundu ekki náð fyrir augum Ríkissjónvarpsins. Á fimmtudag (26.07.2012) verður einn leikur í karlaknattspyrnu. Hann verður sýndur í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu. Fróðlegt verður að sjá hvern sóma Ríkissjónvarpið sýnir Ólympíuleikum fatlaðra sem koma í kjölfar hinna hefðbundnu leika. Það er prófsteinn á stjórnendur þessarar þjóðarstofnunar, Ríkisútvarpsins.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

12 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurjón skrifar:

    Í gær miðvikudag, horfði ég á kvennaleik í knattspyrnu á Ólympíuleikunum og það á aukarás RÚV. Held þú ættir að hætta þessu skítkasti og kynna þér málin betur áður en þú stekkur alltaf svona upp.

  2. Valur skrifar:

    Ég er ekki að reyna að fá þig til að hætta einu né neinu. Gott að Linda er sammála mér. Enn og aftur tjáiru þig ekkert um gagnrýnina sem snýr að fljótfærnislegum og klaufalegum innsláttar og stafsetningavillum. Greinilegt að þeir sem gagnrýna mest taka ekki gagnrýni sjálfir. En það er nú málið með þessar augljósu innsláttarvillur að þær er auðvelt að laga ef lesið er yfir skrifin áður en þau eru birt á vefnum, það virðist þú ekki gera, nema bjálkinn í auga þinu sé of stór til að sjá villur í eigin skrifum,

    Þú ættir kanski bara að taka gagnrýnini á þessar villur og huga að því að laga þær hér eftir i stað þess að tala um að einhver sé að reyna að fá þig til að hætta og einhverja herferð gegn þér.
    Þú þarft ekki að hætta neinu fyrir mig, nema kanski þessari hroðvirkni við skrif á pistlum,
    Ég get haft gaman af tuðurum eins og þér, þannig við getum þá haft gaman af hvor öðrum.

    Og hvað geðró þeirra sem hér benda á villur í texta varðar þá finnst mér það frekar lélegt tilsvar. Svo má ef til vill velta vöngum yfir geðró þeirra sem ekki geta tekið gagnrýni án þess að ýminda sér herferð gegn sér og að með henni sé verið að reyna að þagga mann niður, það finnst mér meira umhugsunarefni.

  3. Linda skrifar:

    Hætta hverju?

  4. Eiður skrifar:

    Grafa yfir með grjóti????
    Greinilega einhverskonar herferð komin í gang. Gaman að þessu.
    Ég geri yfirleitt aldrei athugasemdir við það sem eru augljósar innsláttarvillur.
    Líklega eru þessi skrif mín farin að raska geðró sumra. En ég endurtek: Þetta er bara mjög skemmtilegt. En það þarf meira til , til þess að fá mig til að hætta þessu. En gott hjá ykkur að reyna. Ég tek viljann fyrir verkið.

  5. Linda skrifar:

    Verð því miður að vera sammála því sem Valur skrifar varðandi villur í þessum annars ágætu málfarspistlum. Oftar en ekki er um innsláttarvillur að ræða, en þær eru engu að síður hvimleiðar og benda til að Molaskrifari prófarkalesi ekki alltaf eigin skrif jafn vel og það sem aðrir skrifa.

    Eftir lestur þessa pistils rakst ég t.d. á eftirfarandi:

    …en þar segir manni sem ekki hyggst ferðast til útlanda…

    Í fréttum Ríkisútvarps var sagt frá fólki í Bretland sem…

    Molaskrifari hjó eftir þessu líka. hefur aldrei áður…

    …af ævintýramanni sem kallar sig hælisleitenda…

    Talað var um skemmtiferðaskipuið Knorr…

    …en það er á leið til Nýfundndalands…

  6. Valur skrifar:

    Þú svarar enn og aftur ekki gagnrýnini. Staðreyndin er sú að í pistlunum þínum er mikið um klaufalegar og fljótfærnislegar innsetningar og stafsetningarvillur. Sem auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir með að lesa pistilinn yfir áður en hann er birtur. Þú ferð í vörn og setur út á villur hjá mér, sem koma málinu ekkert við. En villupúkinn ég á samt auðvelt með að reka augun í þennan tossaskap hjá sjálfskipuðum málfarsráðunautnum. Glerhúsið mitt er kanski brotið en holan sem þú ert að grafa með að skauta framhjá gagnrýnini hún dýpkar bara og dýpkar. Spurning um að grafa yfir hana með grjóti

  7. Eiður skrifar:

    Farðu varlega í mikið grjótkast úr glerhúsi.

  8. Valur skrifar:

    Það þýðir ekkert en heitir innsláttarvilla, þú ættir að þekkja það

    „minnsta kostui þrjár villur“

    Hvað þýðir „kostui“ ?

    en þroskað svar hjá þér að benda á villur hjá mér, en taka enga ábyrgð eða svara fyrir þínar endurteknu villur í pistlunum hjá þér sem heita molar um málfar.

    Ég gef mig ekki út fyrir að vera einhver sérfræðingur í málfræði. Það gerir þú hinsvegar og mættir vanda til verka.

  9. Valur skrifar:

    Hún er nú svo sem bara ein við fyrstu sýn hér í þessum pistli, en ég rek augun oftar en ekki í þetta hjá þér og finnst ekki passa fljótfærnislegar og klaufalegar innsláttarvillur í þessum málaflokki hjá þér.

    „um þættina Gull byggir að þar væri fjallað“

    Þættirnir heita Gulli byggir, ekki gull…

  10. Eiður skrifar:

    Hvernig stendur á því Eiður á í nánast — í þessu eru að minnsta kostui þrjár villur. Afmarka ætti ávarpsliðinn með kommum. Hvað þýðir á í nánast ?

  11. Eiður skrifar:

    Dæmi ?

  12. Valur skrifar:

    Hvernig stendur á því Eiður á í nánast hverjum einasta pistli frá þér eru nokkrar innsláttar og stafsetningavillur? Mér finnst það ekki passa í pistlum frá manni sem kennir sig við mola um málfar. Fljótfærni mikil og vandvirknin eftir því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>