«

»

Molar um málfar og miðla 968

Í þætti á Rás eitt um Internetið (28.07.2012) var talað um löggjöf sem nýlega hefði verið tekin í notkun í Bretlandi. Eðlilegra hefði verið að tala um nýsamþykkt lög í Bretlandi, eða lög sem nýlega hefðu gengið í gildi í Bretlandi.

Höftin hindra kauprétti, segir í fyrirsögn á mbl.is (28.07.2012). Molaskrifari játar að hann áttar sig ekki á fyrirsögninni. Hér er eitthvað málum blandið. Átt var við að gjaldeyrishöftin kæmu í veg fyrir að unnt væri að efna kaupréttarsamning við forstjóra Össurar í Bandaríkjunum.

Reyndustu íþróttafréttamenn Ríkissjónvarpsins eru flestir prýðilega máli farnir. Nýliðarnir þurfa að bæta sig, til dæmis sá sem (28.07.2012) talaði um skriðsundin í fleirtölu! Það á að ganga úr skugga um að menn séu sæmilega máli farnir áður en þeir koma inn í stofur landsmanna. Svo verða menn að gæta sín gagnvart staðreyndum þegar verið að tala blaðalaust. Filippus drottningarmaður er ekki hertogi af Windsor. Hann er hertogi af Edinborg.

Í frétt á mbl.is (28.07.2012) segir frá flóðum í Norður Kóreu. Þar segir: Samgöngur eru einnig úr skorðum og eru vegir víða á floti. Tæplega er hægt að segja að vegir séu á floti. Betra væri að segja að vegir væru undir vatni. Í sama miðli sama dag segir: Í vikulegu útvarpserindi sínu sagði Obama að staðan væri sú .. Svolítið finnst Molaskrifara orka tvímælis að tala um að Bandaríkjaforseti flytji vikuleg útvarpserindi. Væri ekki eðlilegra að tala um vikulegt útvarpsávarp?
Enn einu sinni heyrðist engu til sparað í lýsingu í Ríkissjónvarpinu frá Ólympíuleikunum (29.07.2012) Nú ætti málfarsráðunautur, sé hann enn starfandi, að láta boð út ganga til fréttamanna. Sagt er: Engu til kostnað, ekkert til sparað. Þessu á ekki að rugla saman.

Það bregst ekki á Rás tvö á föstudagsmorgnum að þar er dreginn að húni fáni málvöndunar og smekkvísi , þegar skrúfað er frá konunni á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna og hún reiðir fram vikulega ambögu- og slettusúpu. Í vaxandi mæli beinist áhuginn þarna að líklamshlutum neðan mittis. Síðast var það gamall karl með buxurnar á hælunum í klámbíói. Næst (27.07.2012) var það afturendinn á fyrirsætunni Brooke Shields. Tekið var fram að hún hefði verið í fúll meiköpp. Líklega átti það við andlitið fremur en afturendann. Metnaður og smekkvísi stjórnenda Ríkisútvarpsins bregðast ekki.

Það var dálítið sérkennilegt að kvöldið sem Ólympíuleikarnir voru settir skyldi fyrsta frétt í miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins vera um einhver málaferli slitastjórnar gamla Kaupþings! Ekki hefði verið óeðlilegt að vitna til einhvers sem sagt var er leikarnir voru settir.

Í byggðarlagi hér suðvestanlands frá var einu sinni sjálfstæður
atvinnurekandi sem jafnan átti fínasta bílinn í bæinn. Þegar
útsvarsskráin var birt kom jafnan í jós að maðurinn átti varla
málungi matar og borgaði ekki einu sinni það sem þá var kallað ,,vinnukonuútsvar“. Þetta var útgerðarstaður og sjómenn tóku sig
til og fóru að hengja fiskspyrðu á húninn á útidyrahurðinni hjá
manninum þannig að hann ætti í soðið og þyrfti ekki að svelta. Þetta
vakti kátínu í bænum. Í tekjublaði DV kemur í ljós að sumir stjórnendur , eins og til dæmis sjónvarpsstjórinn á ÍNN eru á slíkum lúsarlaunum að jaðrar við hungurmörk. Verra er með útvarpsstjóra og stjórnarformann Útvarps Sögu.
Þau hjúin komast ekki einu sinni á blað. Góðhjartaðir ættu að gauka fiskspyrðu að þessu bágstadda fólki.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

14 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    Þú talar um að menn eigi að skrifa undir nafni en virðist svo ekki lesa nöfnin sem fylgja ummælunum. Ég bendi á, undir nafninu Valur að Brooke Shields sé bæði leikkona og fyrirsæta. Þar er ég að benda þeim sem skrifar undir nafninu icarus á að það sé ekki rétt sem hann segir að hún sé ekki fyrirsæta, hún hefur starfað á báðum sviðum.

    En það er gott að sjá að þú ert farin að gangast við þessum villum sem ég hef verið að benda á. Augasteinarnir virðast þó virka betur á skrif annara en á þín eigin.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir.

  3. orion skrifar:

    Mér finnst óþarfi að eltast við innsláttarvillur manns sem farinn er að reskjast.

    Ég vil þakka þér Eiður hugrekki þitt hvað varðar gagnrýni þína á útvarp Sögu. Það þarf hugrekki til að segja sannleikann. Ekki síst þegar hann er sagður um fólk sem skirrist ekki við að ata gagnrýnendur sína auri á öldum ljósvakans.

    Þú mátt vita að þú átt marga stuðningsmenn meðal okkar nafnlausu gungnanna sem blöskrar blaðrið og bullið sem fram fer á þessari útvarpstöð.

  4. Eiður skrifar:

    …værir þúr …

  5. Eiður skrifar:

    Þú sagðir: ,,Menn skyldu einnig vanda sig þegar menn skrifa og hafa til þess góðan tíma. Staðreyndin er sú að Brooke Shields er leikkona en ekki fyrirsæta.“. Seinna sagðirðu að hún væri bæði leikkona og fyrirsæta.
    Meðan gagnrýnin er á innsláttarvillur, ekki málvillur, sef ég rólegur. En hugrakkari væri þú ef þú hefðir kjark til að skrifa undir fullu nafni.. En það er auðvitað rétt að innsláttar villur finnast hjá mér, Er að vona að lagist þegar ég fæ nýja augasteina sem ég er búinn að bíða eftir í hálft ár eða meira !

  6. Valur skrifar:

    „Nei, DV hlýtur að birta launaupplýsinmar skötuhjúanna fljótlega.“

    launaupplýsinmar ?

    Ég skrifa hér undir nafni, þótt það sé ekki fullt nafn. Gagnrýni mín á klaufalegar og fljótfærnislegar villur í pistlunum þínum eru allveg jafn réttmætar hvort sem ég skrifa undir nafni eða ekki. Hvort ég sé starfsmaður Ríkisútvarpsins(sem ég er ekki) kemur málinu ekkert við. Ég talaði ekki um að það væri neitt rangt við að kalla Brooke Shields fyrirsætu, heldur benti ég á að hún væri bæði fyrirsæta og leikkona, útaf athugasemd hér á undan. Vantar greinilega eithvað uppá lesskilninginn hjá þér líka.
    Óþarfi að leiðrétta það sem er rétt, það er rétt hjá þér. Hvað með allar hinar villurnar sem ég bendi á.
    Óþarflega margar villur sem nánast undantekningalaust koma fram í þessum stuttu pistlum um málfar.

  7. Eiður skrifar:

    Nei, DV hlýtur að birta launaupplýsinmar skötuhjúanna fljótlega.

  8. orion skrifar:

    Góður pistill að vanda Eiður.

    Mikið er ég orðinn forvitinn um launagreiðslur á útvarpi Gaga.

    Ertu með upplýsingar þar um?

  9. Eiður skrifar:

    Hversvegna viltu ekki segja til nafns? Það er bara ragmennska að þora ekki að setja fram gagnrýni undir nafni. Fela sig, skjóta úr launsátri. Hefur aldrei þótt stórmannlegt. Ertu kannski starfsmaður Ríkisútvarpsins? Ekki kæmi mér það á óvart.

    Í umræddum útvarpsþætti var Brooke Shields sem þú kallar reyndar Brook sögð vera módel. Ég hélt að það væri fyrirsæta. Aftur og enn, – minnkaðu grjótkastið úr glerhúsinu. Það er óþarfi að leiðrétta það sem er rétt.

  10. Valur skrifar:

    Enn og aftur gengstu ekki við gagnýnini heldur skautar fram hjá henni með því að benda á eithvað allt annað. En þar fyrir utan að þá er Brook Shields bæði fyrirsæta og leikkona einsog sjá má hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Brooke_Shields

  11. Eiður skrifar:

    Sjá fyrirvara sem birtur er á síðunni. Þangað eiga ekki erindi þeir sem þora ekki að gangast við skrifum sínum.

  12. icarus skrifar:

    Menn skyldu einnig vanda sig þegar menn skrifa og hafa til þess góðan tíma. Staðreyndin er sú að Brooke Shields er leikkona en ekki fyrirsæta.

    Og já, ég hef ekki hugrekki til að analast undir nafni. Til þess er ég of vandur að virðingu minni.

  13. Eiður skrifar:

    Skrifaðu undir réttu nafni. Skortir eitthvað á hugrekkið?

  14. Valur skrifar:

    „Í byggðarlagi hér suðvestanlands frá var einu sinni“

    Suðvestanlands frá ?

    „atvinnurekandi sem jafnan átti fínasta bílinn í bæinn“

    Fínasta bílinn í bæinn ?

    „útsvarsskráin var birt kom jafnan í jós að maðurinn átti varla“

    hvað þýðir „að koma í jós“ ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>