„Ég hef zero tolerance fyrir svona kjaftæði Þorgerður Katrín,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er afar óhress með teboðslíkingu þingmannsins. Þetta er tilvísun í ummæli á pressan.is (10.09.2012). Hversvegna talar aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins ekki íslensku við Íslendinga?
Íslendingar mæta Kýpverjum í fótbolta og Eistlendingar í körfubolta. Þetta var lesið í yfirliti hádegisfrétta í Ríkisútvarpinu (11.09.2012). Fréttaþulir verða að hlusta á það sem þeir lesa, – ekki lesa hugsunarlaust, jafnvel fréttastjórar.
Í þessari frétt (11.009.2012) á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/11/borgarisjaki_ut_af_hornbjargi/ er tvívegis talað um borgarís þegar tala ætti um borgarísjaka, eins og gert í tenglinum. Þá er það undarlegt orðalag að segja að stærð hans (borgaríssins skv. fréttinni) sé 160 metrar á breidd. Ágætur Molalesandi sem lengi hefur verið búsettur í Noregi sá fleira athugavert þessa frétt, m.a. að ekki væri ljóst hvort það var flugvél gæslunnar eða borgarísjakinn sem var á leið sinni til æfingar (!) á austurströnd Grænlands.
Molavin sendi eftirfarandi: Úr frétt á dv.is (9.9.12): ,,Bíllinn var seldur þremur dögum eftir að Sigrid hvarf, þá tjónaður…“ Hvaðan kemur þetta undarlega orð, ,,tjónaður“? Ég finn það ekki í orðabókum en læt mér detta í hug að þetta sé fagsletta úr tryggingaskýrslum (e. damaged). Væntanlega væri þá sögnin „að tjóna“ sama og að valda tjóni. Kauðalega að orði komizt.
Nýyrði geta verið gagnleg þar sem ekki er að finna hliðstæð orð í íslenzku máli, en þarna sé ég engan tilgang. Í umræddu tilviki leikur grunur á að bíllinn hafi verið skemmdur eftir að ekið hafi verið á unga stúlku. Það hefur iðulega mátt lesa um það í fréttum fjölmiðla, sem vilja láta taka sig alvarlega, að bílar hafi ,,klesst á’’ þar sem á að segja að þeim hafi verið ekið á. Það er barnamál. Að segja að bíll sé ,,tjónaður“ er verra.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Bætir því við að hann minnist þess að hafa heyrt talað um tjónabíla, bíla sem hafa skemmst í umferðaróhöppum. Við þetta er engu að bæta.
Í fréttum Ríkissjónvarps (10.09.2012) var sagt: … þar sem fleiri þúsund kortanúmerum hefur verið stolið. Molaskrifari er aldrei sáttur við þegar talað er um fleiri þúsund eða fleiri hundruð. Telur betra að tala um mörg þúsund, mörg hundruð.
Kýpurmenn eru þó með bakið upp við vegg, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (10.09.2012). Molaskrifara finnst þetta óíslenskulegt orðalag og áttar sig illa á merkingunni. Íþróttafréttamenn hafa miklar mætur á þessu orðalagi.
Af mbl.is (10.09.2012): Í nótt er spáð norðan hvassviðri eða stormur, en hægari vestan- og norðvestanlands. Það er ekki spáð stormur. Það er spáð stormi.
Ragnar Þorvaldsson hefur skrifað Molum bréf. Hann þakkar Molaskrif, tínir til málblóm ný og gömul sem hann kallar hagalagða og segir í upphafi: ,,Nú er ég ekki óskeikull í meðferð málsins og hef áreiðanlega gerst sekur um margt ófagurt í þeim efnum í áranna rás.
Hvað sem því líður, þá er bara að taka því og biðjast afsökunar .
Ég er víst jafngamall Útvarpinu okkar og lengi vel var það eini fjölmiðillinn, sem flutti efni til þjóðarinnar á öldum ljósvakans.
Lengst af var það og síðar einnig Sjónvarpið vettvangur vandaðs málfars en því miður virðist hafa slaknað á klónni í þeim efnum.
Ég leyfi mér að senda þér nokkrar hugleiðingar og atriði úr fréttum og eða þáttum fjölmiðla. Ég vil nefna þetta “ Hagalagða. “
1.Skip Eimskipafélags Íslands steytti á skeri eða grynningum skammt frá Osló í Noregi
Frétt : ……. ( þula lýsir því að dýpkun standi til á staðnum )
Tilvísun : ……. Sprengja á grjót á botninum undir sjónum …………..
Oft er ekki gerður greinarmunur á sjó og vatni.
Oft fossar ,,vatn “ inn í skip á söltum sæ.
3. Bylur, skafrenningur, fjúk …… Er nú aðeins —- ,,Snjóstormur “
4. Stórbrim, Hafrót …………( Verður oft í fréttum … Öldugangur ).
Molaskrifari þakkar bréfið og mun birta meira úr því síðar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/09/2012 at 15:32 (UTC 0)
Molaskrifari þakkar sendinguna.
Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:
12/09/2012 at 14:35 (UTC 0)
Ég rakst á þessa skondnu mynd á Snjáldrunni góðu, og gat ekki annað en deilt henni með þér molaskrifari góður.
Þarna þykir mér blaðamaður Fréttatímans aldeilis hafa sannað sinn eigin mola. Dapurleg eru blaðamanna tök á móðurmálinu.
http://myndahysing.net/upload/101347042424.jpg