Af mbl.is (19.09.2012): Björn Jónsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdarstjóri(!) hjá Ísfugli, en félagið var nýlega keypt af Jóni Magnúsi Jónssyni eiganda Reykjabúsins, sem er stærsti innlagnaraðili til Ísfugls. Hér gerir óþörf þolmynd merkinguna óljósa. Keypti Jón félagið eða keypti einhver félagið af Jóni? Eins og nær alltaf hefði germynd verið betri: …, en Jón Magnús Jónsson eigandi Reykjabúsins, stærsta innleggjandans hjá Ísfugli, keypti félagið nýlega.
Horfum áfram, segir í auglýsingu Sjálfstæðisflokksins með mynd af formanninum í Morgunblaðinu (20.09.2012) Talað er um að horfa fram, horfa fram á veginn , horfa til framtíðar. En að horfa áfram? Hvað þýðir það? Bara rugl.
Í kynningu á væntanlegum þáttum í Ríkissjónvarpinu sem stundum dynur á okkur oft á kveldi (hér-hikk-á Rúv) er talað um flandur um Norður Ameríku og Kanada. Síðast þegar vitað var til, var Kanada enn í Norður Ameríku. Ekki hefur verið tilkynnt um neina breytingu á því. Það þarf að lesa yfir dagskrárkynningarnar tilgerðarlegu áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Þá ættum við að sleppa við svona bull.
Orðunum ráðahagur og ráðagerð var ruglað saman í fréttum Stöðvar tvö (19.09.2012). Það hefur gerst áður. Verið var að segja frá ráðagerðum um að hækka kaup forstjóra Landspítalans, – ráðagerðum sem horfið var frá. Fréttamaður sagði: …. og var ráðahagnum harðlega mótmælt. Orðið ráðahagur þýðir kvonfang. Hér hefði mátt segja: Var ráðagerðunum harðlega mótmælt.
Ríkissjónvarpið (19.09.2012) flutti þá ánægjulegu frétt að Berlínarfílharmónían væri væntanleg til Íslands og mundi leika í Hörpu seint í nóvember. Fréttamaður sagði: Fílharmóníusveitin hefur verið brautryðjandi í tónleikahaldi og er meðal annars fyrsta sinfóníuhljómsveitin sem hefur verið tekin upp í þrívídd. Molaskrifari er á því að margt merkilegra megi segja þessari heimsfrægu hljómsveit til ágætis en að hún hafi verið tekin upp í þrívídd !
Molum barst þessi ábending að norðan: ,,Þessi fyrirsögn DV stakk mig svolítið í dag: Garðar: ,,Mér finnst hópnauðganir ekki grjótharðar“
Er ekki réttara að segja: ,,Mér finnast hópnauðganir ekki grjótharðar“ ?
Fréttin:http://www.dv.is/frettir/2012/9/20/gardar-mer-finnst-hopnaudganir-ekki-grjothardar/ Svar Molaskrifara er: Jú.
Af mbl.is (20.09.2012): Slitastjórn Kaupþings hefur fallið frá málshöfuðun á hendur Vestmannaeyjabæjar til riftunar greiðslu … Molaskrifari hallast að því að hér hefði fremur átt að tala um málshöfðun á hendur Vestmannabæ.
Molalesandi benti á frétt á mbl.is þar sem nokkuð skortir á samræmi milli fyrirsagnar og fréttar. „Samkvæmt fyrirsögn voru tveir próflausir ökumenn teknir. Samkvæmt fréttinni var aðeins annar próflaus. Hinn var með próf, en hafði verið sviptur réttindum.“ Þetta er rétt ábending: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/20/tveir_proflausir_i_umferdinni/
Hér hefur áður verið vikið að þeirri undarlegu ákvörðun útvarpsstjóra að bannfæra orðið Ríkisútvarp í Ríkisútvarpinu og kalla stofnunina aldrei annað en Rúv. Raunar virðist ekki heldur mega tala um stofnun því nú er Ríkisútvarpið oftast kallað félagið! Það ætti hinsvegar að vera samræmi í vitleysunni. Á heimasíðu stofnunarinnar er dagskráin birt. Þar er dagskrá Rúv, eins og það er orðað, dagskrá Rásar eitt og Rásar tvö. Eru útvarpsrásirnar ekki Rúv? Þegar talað er um fréttastofuna, heitir hún alltaf Fréttastofa Rúv, rétt eins og hún sé eingöngu fréttastofa sjónvarpsins.
Getur ekki ný stjórn Ríkisútvarpsins afturkallað þessa ákvörðun útvarpsstjórans og stöðvað þessa vitleysu?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/09/2012 at 18:16 (UTC 0)
Í Molum 1013 spurði Molaskrifari: ,,Er það missýning að einn af umsjónarmönnum Kastljóss, Ragnhildur Steinunn komi fram í Denver auglýsingu Icelandair? Stefnubreyting hjá Ríkissjónvarpinu varðandi starfsmenn og auglýsingar? Ef svo er þá er það hvorki henni né Kastljósi til framdráttar.“
Þetta var missýning. Ragnhildur Steinunn hefur sent Molaskrifara tölvupóst þar sem fram kemur að hún komi ekki fram í neinni auglýsingu Icelandair. Því er hér með komið á framfæri. Ekki var fullyrt heldur spurt, en stúlkan í Denver auglýsingu Icelandair er ótrúlega lík Ragnmhildi Steinunni og það er kannski engin tilviljun hjá þeim sem gerðu auglýsinguna fyrir Icelandair.