Úr viðtali í DV (28.09.2012): … segir að Anna Sigurlaug hafi fundist hún vera sniðgengin … Hér vantar máltilfinningu, tilfinningu fyrir beygingakerfi tungunnar. Hér hefði átt að standa: …segir að Önnu Sigurlaugu hafi fundist hún vera sniðgengin ….
Molaskrifari sendi þessa ábendingu (28.09.2012): ,,Úr dv.is 28.9.2012:
Fyrir dómi þóttist sannað að Júlíus hafi stundað sölu á áður nefndum efnum yfir alllangt skeið. Hann var í héraði dæmdur í árs fangelsi vegna þessa ásamt því að þurfa að sæta upptöku áður nefndra efna og reiðufés.”. Eignarfallsmyndin fés hefur svo sem sést áður og heyrst, meira að segja í ræðustóli Alþingis. Gott er að muna að ekki eru allar ferðir til fjár þótt farnar séu.
Molaskrifari hlustaði á Útvarp Sögu milli klukkan 11 00 og 12 00 á föstudag (28.09.2012). Samtímis fletti hann Fréttatímanum, sem kom inn um póstlúguna um morguninn. Á bls. 6 er frá því greint að Lee Buchheit lögmaður hafi hugsanlega fengið tvígreiddan reikning fyrir lögmennsku í hinu frábæra kerfi sem Skýrr/Advania er búið að vera að selja íslenska ríkinu í meira en áratug. Í Fréttatímanum segir um þetta að Buchheit hafi að sjálfsögðu skilað fénu. Í Útvarpi Sögu fjallaði útvarpsstjórinn um þetta. Hún vitnaði í Fréttatímann, en lét þess ógetið að fénu hefði verið skilað. dv.is greindi svo frá því síðdegis á föstudag að Lee Buchheit hefði ekki fengið tvígreitt fyrir störf sín. Þetta var því bull frá upphafi. Auðvitað mun Útvarp Saga segja frá því. Þó það nú væri.
Nokkrar efasemdir hefur Molaskrifari um að fyrirsögn þessarar fréttar á vef Ríkisútvarpsins (28.09.09 2012) sé alveg í samræmi við efni hennar: http://www.ruv.is/frett/atta-milljonir-i-frekari-leit Gefið er í skyn að nú verði átta milljónir til reiðu til að greiða fyrir leit að fé. Fjárveitingin mun hinsvegar ekki síst ætluð til að greiða þegar áfallinn kostnað vegna leitar að fé eftir óveðrið mikla á dögunum.
Visir.is (28.09.2012): Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum var kölluð út nú í hádeginu til að sækja bílstjóra gröfu sem festist í Jökulsá í Fljótsdal. Bílstjóri gröfu? Gröfustjóri sagði Ríkisútvarpið. Fínt.
Það brást eitthvað hjá Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (28.09.2012) þegar Barnaby byrjaði á skikkanlegum tíma , klukkan 21 30. Slíkar myndir um helgar hafa yfirleitt verið settar á dagskrá löngu seinna á kvöldinu. Það var hinsvegar ekkert óvenjulegt við myndina sem kom næst. Innkaupastjórar kvikmynda í Efstaleiti hafa óskiljanlegt dálæti á dellumyndum um ýmiss konar yfirnáttúrulega óra. Þessi mynd fær einkunnina 5.2 á IMDb. Enn skal innkaupastjórum bent á að talsvert af góðum kvikmyndum var framleitt fyrir árið 2000.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
01/10/2012 at 17:50 (UTC 0)
Sammála. Ég hefði reyndar um alllangt skeið, ekki yfir alllangt skeið.
Eysteinn Ðétursson skrifar:
01/10/2012 at 12:39 (UTC 0)
„Fyrir dómi þóttist sannað að Júlíus hafi stundað sölu á áður nefndum efnum yfir alllangt skeið. Hann var í héraði dæmdur í árs fangelsi vegna þessa ásamt því að þurfa að sæta upptöku áður nefndra efna og reiðufés.”.
Sammála athugasemdum þínum, fés -> fjár, náttúrlega. set auk þess spurningamerki við fyrstu setniguna. Hefði frekar viljað hafa hana svona:
„Fyrir dómi þótti sannað að Júlíus hefði stundað sölu á áður nefndum efnum yfir alllangt skeið.“
Finnst miðmyndin ekki viðeigandi þarna (leiðir hugann að því að þykjast = látast). Og þar sem sögnin að þykja er í þátíð tel ég að sögnin að hafa eigi að vera í viðtengingarhætti þátíðar fremur en nútíðar.