Í kynningu á efni Kastljóss (02.10.2012) var sagt: Ríkisendurskoðun vann að annarri skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins en þá sem Kastljós hefur fjallað um… Þetta hefði mátt orða betur . Hér hefði farið betur á að segja: Ríkisendurskoðun vann að annarri skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins en þeirri sem Kastljós hefur fjallað um … Hér var líklega beygingahræðslu um að kenna.
Lesandi spyr: ,,Ég hélt að sögnin að gyrða samanber að gyrða sig í brók væri rituð á þennan hátt (með y) og mér sýnist orðabókin styðja það. Þrátt fyrir það sýna leitarvélar fleiri niðurstöður á hinn veginn. Ég rakst líka á þessar fréttir: http://www.visir.is/sjalfstaedisflokkurinn-verdur-ad-fara-ad-girda-sig-i-brok/article/2008109780762
http://www.dv.is/frettir/2010/10/23/vikid-ur-skola/
Hvort er rétt?” Nú eru aðrir ef til vill betur fallnir til að svara þessu en Molaskrifari. Hann sér þó ekki betur en þetta séu tvær sagnir að girða og að gyrða. Að girða er að reisa girðingu eða garð,koma í veg fyrir e-ð. Girða fyrir. En að gyrða er að spenna gjörð eða belti um , umkringja , gyrða sig, spenna belum sig belti , hysja upp um sig (buxurnar).
Á þriðjudag (02.10.2012) kom hópur fólks úr ýmsum áttum saman m.a. til að hvetja almenning til að gera meiri kröfur um samstöðu um mikilvæga þjóðarhagsmuni.
Sagt var frá fundinum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þar sem fram kom hjá prófessor í stjórnmálafræði að honum þætti ekki mikið til fundarins koma. Mbl.is fannst þetta heldur ekki ýkja merkilegt, en þar segir um hópinn sem til fundarins mætti: Fólkið mun eiga það sameiginlegt að hafa áhyggjur af ástandinu í þjóðfélaginu og hvernig umræður þróast. Fólkið mun eiga það sameiginlegt ……! Fréttamaður Ríkisútvarpsins talaði um ályktun fundarins sem sameiginlegt ákall til stjórnvalda. Hann hefur ekki lesið ályktunina vandlega. Í henni segir orðrétt: ,,Við skorum því á fólkið í landinu að taka höndum saman um öfgalaus viðhorf, að beita áhrifum sínum til að þrýsta á stjórnmálaflokkana og treysta samstöðu um þjóðarhagsmuni, festu í alþjóðasamskiptum og eflingu hagstjórnar á Íslandi. Þannig verða samkeppnishæfni og ásættanleg lífskjör þjóðarinnar tryggð til framtíðar.“ Þarna hefði mátt vanda betur til verka.
Morgunstund í vikunni hlustaði Molaskrifari á símatíma Útvarps Sögu. Sum símtöl vor gegnsýrð af kynþáttafordómum og rasisma og orðbragð með ólíkindum. Auðvitað má halda því fram að skólpræsi séu nauðsynleg. Þó tók í hnúkana þegar kona ræddi hættuna af útlendingum sem flyttu hingað til lands. Menningunni og tungunni stafað geigvænleg hætta af þessu fólki. Konan klykkti út með því að segja: Og þá verðu íslensk menning forbí og þá verður íslensk tunga forbí!
Örlítið meira um það undarlega fyrirbæri sem þessi fjölmiðill er. Aftur og aftur les útvarpsstjórinn auglýsingu sem hefst svona: Ef þú verslar fisk fyrir tvö þúsund og fimm hundruð krónur … Fólk kaupir fisk. Það verslar ekki fisk. Í auglýsingum er líka aftur og aftur talað um súkklatertu. Fjölmiðlar eiga ekki að útbreiða ranga málnotkun eða latmæli.
Rangar tilvitnanir verða stundum lífsseigar. Oft er vitnað til orða forstjóra GM vestra sem á að hafa sagt: ,,Það sem er gott fyrir General Motors er gott fyrir landið”. Þetta er rangt. Charles Erwin Wilson sem lengi var forstjóri GM og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í fjögur ár í tíð Eisenhowers forseta sagði í yfirheyrslum hjá bandarískri þingnefnd er verið var að þrýsta á hann að selja hlutabréf sín í GM og hann var spurður: ,, .. if he could make a decision as Secretary of Defense that would be adverse to the interests of General Motors, Wilson answered affirmatively. But he added that he could not conceive of such a situation „because for years I thought what was good for our country was good for General Motors, and vice versa“. This statement has been misquoted endlessly, in the inverted form of „What’s good for General Motors is good for the country“ as an example of the self-centered attitude of executives”. Hann sagði sem sé: Ég hef lengi talið að það sem væri gott fyrir landið okkar væri gott fyrir GM og andhverft. Á því sem hann sagði er allt annar blær en á því sem oftast er sagt að hann hafi sagt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar