Enn einu sinni tengir athafnakonan Jónína Benediktsdóttir stólpípuverkefni sitt við forsetafrúna og Bessastaði. Það heyrði égí endurteknum útvarpsþætti á Bylgjunni í morgun. Þetta gerði frú Jónína enda þótt forsetaskrifstofa hafi í yfirlýsingu svarið fyrir tengsl forsetafrúarinnar við stólpípurnar. Það ósmekklegasta við þáttinn í morgun var þó að heyra Jónínu Benediktsdóttur herma eftir Dorrit Moussaieff og íslenskum framburði hennar. Það var mikil ókurteisi.
Ríkisútvarpið varð sér tvisvar til skammar með því að auglýsa þessar skottulækningar. Nú hafa Stöð tvö og Bylgjan bæst í hópinn. Það var hálfóhugnanlegt að heyra að stólpípumeðferðinni fylgdi að fólk væri látið hætta að taka lyf sem það tæki samkvæmt læknisráði. – En ef fólkið verður veikt ? Þá er það bara sent inn í íslenska heilbrigðiskerfið ,sem á að sjá um að lækna það. Líka var skrítið að heyra, að stólpípan væri lækning við sykursýki tvö, sem kölluð er, og ég man ekki hverju fleiru. Hæpnar og nær örugglega ósannar fullyrðingar.
Skipulagðar stólpípuferðir hvort sem er til Póllands, Mývatns eða suður á Vallarheiði eru skottulækningar ætlaðar auðtrúa fólki. Það hefur réttilega verið sagt að það eina sem léttist í þessum ferðum sé pyngja þátttakenda. Svo er flaggað þingmanni, súlustaðarstjóra og safnaðarforstjóra til að blessa ósköpin.
Fyrri fyrirbæri sama eðlis hafa verið kennd við Kínalífselexír og Snákaolíu, – í besta falli gagnslaus blekkingalyf, sem prangað var inn á saklaust fólk til að hafa af því fé.
Enginn íslenskur læknir hefur viljað leggja nafn sitt við þessar skottulækningar Til þess hefur þurft að flytja inn fólk. Segir það ekki allt sem segja þarf ?
Hér er verk að vinna fyrir Umboðsmann neytenda,sem sýnt hefur ágætt frumkvæði í mörgum málum.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
doddý skrifar:
22/03/2009 at 11:06 (UTC 0)
jónína og árni eru einmitt af sama stofni, siðblindir framapotarar. kv d
Júlíus Valsson skrifar:
21/03/2009 at 22:40 (UTC 0)
Sigurður sannur læknir er
sá kann ráð við mörgu.
Stólpípuna á sjálfum sér
setur hann Ingibjörgu.
Mér detur oft þessi ágæta vísa í hug, þegar minnst er á stólpípur
Steini Briem skrifar:
21/03/2009 at 19:45 (UTC 0)
Árni kallinn Johnsen fór í þessa hundahreinsun í Póllandi um daginn og varð í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi.
Ef það eru ekki meðmæli …
TARA skrifar:
21/03/2009 at 19:37 (UTC 0)
Tek undir þetta Eiður Svanberg…þetta er bæði ósmekklgt og hreinlega villandi.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
21/03/2009 at 19:08 (UTC 0)
Þeim, sem vilja láta skottulækna sig, ætti að standa það til boða.