Í frétt frá svonefndum sláturleyfishöfum, sem eru líklega þeir fulltrúar bændastéttarinnar sem eiga og reka sláturhúsin er talað um ,,matvælalegt sjálfstæði“. Þetta er úr samþykkt , sem er liður því að sannfæra þjóðina um að bændur verði leiddir sem lömb til slátrunar að hausti ef við göngum í Evrópusambandið.,,Matvælalegt sjálfstæði“ er ekki mannamál, heldur bull. Innihaldslaus merkingarleysa. Rétt eins og þegar talað er um sjálfbæran landbúnað á Íslandi. Við erum háð margskonar innflutningi frá öðrum þjóðum og án hans væri landið ekki byggilegt eins og fólk vill búa í dag.
Málblómin spretta vel í íþróttafréttum. Íþróttafréttamaður RÚV sagði í kvöld:,,Bar þar hæst leikur….“ Bar þar hæst leik….., hefði hann betur sagt.
Það er galdur að semja góðar fyrirsagnir. Í fyrradag var svohljóðandi fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Moggans: ,,Gætu orðið til 300 störf“. Þetta er eiginlega spurning án spurningamerkis. Betra hefði verið að segja: ,,300 störf gætu skapast“. Verð að viðurkenna að mér finnst hálf kjánalegt að tala um innflutning á sjúklingum. eins og gert er í fréttinni. Af hverju ekki að taka á móti fólki til lækninga á Íslandi ?
Fyrir nokkru var hér vikið að veitingahúsi ,sem í auglýsingu lét vera að fallbeygja heiti sitt. Annað dæmi um slíkt rakst ég á í Mogga: ,,Verið hjartanlega velkomin – starfsfólk Rauðará“. Þarna á auðvitað að standa eignarfallið Rauðarár, enda stendur þetta veitingahús líkast til við Rauðarárstíg, – ekki ,,Rauðarástíg“. Auðvitað eiga nöfn fyrirtækja að fallbeygjast samkvæmt reglum tungunnar. Á því er þó mikill misbrestur. Beygingar eiga almennt í vök að verjast. Af Vefvísi í dag: ,,Haukur Jónsson var ekki sagt upp….“ Ótrúlegt kunnáttuleysi, – og metnaðarleysi miðilsins. Hér hefði átt að standa Hauki Jónssyni var ekki sagt upp.
,,…segir þá staðreynd ýta enn undir mikilvægi leiksins“, sagði íþróttafréttamaður RÚV í hádegisfréttum. Betra hefði verið að segja. .. segir þá staðreynd auka enn á mikilvægi leiksins, eða gera leikinn enn mikilvægari.
,,…var sagður hafa sigrað prófkjör Sjálfstæðismanna…“ (dv.is) Menn ,,sigra ekki prófkjör“.Menn sigra í prófkjöri.
Hér hefur oft verið agnúast út í slettuna ,,outlet“. Hugmyndaauðgi íslenskra verslunareigenda eru lítil takmörk sett. Í dag heyrðu útvarpshlustendur auglýsingu frá fyrirtæki á Korputorgi sem kallar sig ,,Merkja outlet“. Hvílíkt nafn ! Með orðinu ,,merkja“ er líklega átt við að verslunin selji vörur frá þekktum og dýrum hönnuðum og framleiðendum. Hér hefur þrifist mikið merkjasnobb, sem kreppan á kannski eftir að draga eitthvað úr. Í New York borg voru lengi kvenfataverslanir ,sem hétu ,,Labels for less“, eða Merki fyrir minna. Þær voru sagðar selja merkjavörur á góðu verði. En í guðanna bænum ekki fleiri ,,outlet“ á Íslandi !
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Andri Valur skrifar:
23/03/2009 at 22:05 (UTC 0)
Gaman að þessum skrifum þínum um málfar. Síðunni hefur hér með verið bætt inn í bloggsafnarann minn.
Bjarni Kjartansson skrifar:
23/03/2009 at 11:37 (UTC 0)
Ég vona, að flest sem hrekkur úr munni fréttamana, sem lýsa kappleikjum, séu rasbögur. Menn hafi meiri flýti en geta leyfir og þjálfun í svona skammlausri íslensku nær hjá þeim.
Eins er með mig og pikkið. Er ekki fullfær á lyklaborð en klæmist þetta samt. Svo er mér illur förunautur lesblindan, hana þarf að bera og er á stundum þungur baggi.
Þakka afar greinagóða pista og hugleiðingar um hvaðeina, máltengt eða bara mannlífstengt.
Miðbæjaríahldið
Fimmta valdið skrifar:
23/03/2009 at 08:58 (UTC 0)
Þrjúhundruð störf gætu skapast væri þó sýnu best. Samkvæmt ströngustu reglum á aldrei að hefja setningu á tölustaf.