Nýtt orðatiltæki sá ég í Morgunblaðinu í morgun. Þar er verið að bera fram þakkir til starfsfólks í einu af útíbúum SPRON og er sagt að þar,,hafi verið valinn maður á hverjum stað“. Hér er augljóslega um að ræða nútíma afbökun á orðatiltækinu ,,valinn maður í hverju rúmi“. Þar þýðir rúm ekki rekkja, heldur bilið milli þóftna í árabáti. Þetta er því úr gömlu sjómannamáli þar sem miklu máli hefur skipt til dæmis í brimlendingum að valinn maður væri í hverju rúmi skipsins, við hverja ár. Líklega er fólk núna hrætt við að nota þetta orðatiltæki vegna þess að hin gamla merking orðsins rúm er horfin eða að hverfa.
Fréttablaðið segir í dag frá nauðgunarkæru í Vestmannaeyjum. Í fréttinni er tekið svo til orða, að atburðurinn hafi ,, átt sér stað í heimahúsi konunnar“. Af hverju ekki á heimili konunnar eða heima hjá konunni ?
Moggabloggari skrifar í gær ,,…. skora á ykkur … og kjósa með þessu frumvarpi“. Þetta orðalag finnst mér ekki samræmast góðri málvenju. Hér hefði verið eðlilegra að tala um að greiða atkvæði með þessu frumvarpi, ekki kjósa með því.
Þessi snilldarsetning var á dv.is. í gær:,,Nú hefur Gunnar birt nýtt myndband þar sem hann segir meðal annars að hann hafi verið beðinn um að taka myndbandið út af stúlkunni.“ Það þýðir ekkert að spyrja hvað sá sem skrifaði hafi verið að hugsa. Hann var greinilega ekki að hugsa.
Þegar menn rugla saman Kjós og Kjalarnesi er það ekki mismæli, eins og sagt var í Kastljósi kvöldsins. Það er skortur á landafræðikunnáttu,- staðarþekkingu.
Í Molum gærdagsins nefndi ég hve snautleg mér fannst frásögn Stöðvar tvö af lokadegi Geirs H. Haarde á Alþingi. ,,Frétt“ Morgunblaðsins fór hinsvegar framhjá mér þar sem tvinnað var saman frásögn af starfslokum Geirs í þinginu og mynd af norskum leiðsöguhundi,sem sjónskertur þingmaður hefur fengið sér til trausts og halds var óskiljanleg. Afsökunarbeiðni sem reyndar var hálfgert yfirklór var svo birt vegna harðra viðbragða frá lesendum, – ekki vegna þess að Morgunblaðinu fyndist að því hefði orðið á í messunni.
Staldraði aðeins við Sjónvarpsstöðina ÍNN í kvöld þar sem sjónvarpsstjórinn talaði við sjálfan sig. Verð að játa að annan eins fúkyrðaflaum og níð um nafngreinda einstaklinga hef ég aldrei heyrt í sjónvarpi fyrr. Þeir sem meira horfa segja mér að þetta sé alltaf svona. Þetta skipti í raun ekki nokkru máli, því enginn taki mark á þessu rugli. Ég komst hinsvegar ekki hjá því að heyra að sjónvarpsstjórinn átti erfitt með að beygja orðið dóttir eins og reglur íslenskrar málfræði gera ráð fyrir.
Skildu eftir svar