Þeir gera það ekki endasleppt, sem bera ábyrgð á fyrirtækinu,sem ber ónefnið ,,Merkja Outlet“ og áður hefur verið vikið lítillega að í þessum dálkum. Í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu (27.03) auglýsir þetta fyrirtæki: ,,Bestu verðin“. Orðið verð er eintölu orð. Þarna ætti að standa: ,,Besta verðið“. Stjórnendur þessa fyrirtækis bera ekki mikla virðingu fyrir móðurmálinu. Eftir að hafa skrifað þetta sá ég auglýsingu á Vefmogga frá fyrirtæki sem kallar sig ,,Barna outlet“. Það er reyndar einnig stafsett ,,Outlett“. Skyldi þetta fyrirtæki selja börn ? ,,Bílaoutlet“ segjast selja bíla. Þetta er ekki til fyrirmyndar.
Í DV (27.03) er psitill um Kastljós og Ísland í dag. Þar segir: ,,Nýtt fólk var ráðið inn og stefnan tekin á popp“. Hversvegna var ,,fólk ráðið inn“? Nægt hefði að segja að fólk hefði verið ráðið. Orðinu ,,inn“ er þarna ofaukið.
,,Síðasta sumar“, sagði fréttamaður RÚV í sjónvarpsfréttum (27.03) og átti við í fyrra sumar. Konan var greinilega að hugsa á ensku- ,,last summer“..
Svona í lokin langar mig til að vitna í bók Evu Joly,en á ensku heitir bókin ,,Justice Under Siege“. (Umsátrið um réttlætið) Bók er upphaflega skrifuð á frönsku og geldur enski textinn þess að nokkru. Í bókinni vitnar Eva Joly í hnyttna athugasemd,sem hún eignar spænskum dómara,Baltasar Garzón. ,,Menn eru alveg hættir að ræna banka. Þeir bara kaupa þá „! Ummælin eru frá því fyrir bankahrunið á Íslandi, annars hefði maður haldið að þau kæmu frá staðkunnugum manni.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
30/03/2009 at 12:42 (UTC 0)
Orðin sem Eva Joly vitnar í hljóma eins og útlegging af hinum fleygu orðum, sem Berthold Brecht lagði í munn Makka hnífs í Túskildingsóperunni: „Hvaða munur er á að stofna banka og ræna banka?“
Sverrir Einarsson skrifar:
28/03/2009 at 22:31 (UTC 0)
Ég er farinn að halda að þeir/sá sem á þessa „merkjavöru“ búð í Faxafeninu sé/u ekki Íslenskir. Annars fer mikið fyrir Ísl-Ensku í blöðum nú orðið.
Þetta Barna Outlet er náttúrulega alveg eins og út úr kú. Allavega við hliðina á Bila Outlet auglýsingunni.
Ég ætti kannski að líta þar við og spyrja hvar eru Börnin sem eru á Outlet verði eins og ég myndi gera ef ég færi í þetta Bíla Outlet.
doddý skrifar:
28/03/2009 at 16:00 (UTC 0)
öll þessi verð gera mig brjálaða. svo er kannski hægt að hafa „þingmannaátlett“. kv d
Steini Briem skrifar:
28/03/2009 at 12:51 (UTC 0)
Vitleysa af þessu tagi hefur undanfarin ár oft heyrst í fréttum Ríkisútvarpsins:
„Afganskur stjórnarhermaður skaut tvo liðsmenn alþjóðahersins í Afganistan í gær, særði þann þriðja, og réð sér þvínæst bana.“
Í þessari frétt á að sjálfsögðu að koma fram að tveir menn hafi verið skotnir til bana. Sá þriðji var væntanlega einnig skotinn en „einungis“ særður.
Afganistan: 2 hermenn felldir.
Ævar Rafn Kjartansson skrifar:
28/03/2009 at 11:28 (UTC 0)
Takk fyrir pistlana.
Ómar Ragnarsson skrifar:
28/03/2009 at 08:33 (UTC 0)
Áfram, Eiður !
Heimir Tómasson skrifar:
28/03/2009 at 01:50 (UTC 0)
Góður.