Það væri verðugt verkefni fyrir nýjan málfarsráðunaut RÚV að kenna ýmsum sem þar koma að hljóðnema grundvallatriði beyginga. Það er til dæmis ekki óalgengt að heyra: „Lagið var sungið af Hauk Morthens“. Mannsnafnið Haukur beygist: Haukur Hauk,Hauki, Hauks. Svo finnst mér að forðast eigi notkun þolmyndar ,sem þar sem óhjákvæmilegt er. Germynd er alltaf betri
Eftirfarandi er orðrétt úr Vefmogga (28.03) Mér sýnist þetta staðfesta að bögubósunum er sleppt lausum um helgar:
,,Dímítrí Medvedev, forseti Rússlands, segir að lífið í Tsjetsjníu gæti senn fallið í eðlilegar horfur. Forsetinn sagði í rússneska sjónvarpinu að það nú gæti verið kominn tími til að enda öryggisráðstafanir þær sem hafa verið í gildi í héraðinu síðustu tíu ár. Þetta kemur fram á vef BBC.
Meðal öryggisráðstafananna hefur útgöngubann verið í gildi í héraðinu, vegatálmar og regluleg leit að mörgulegum íslamistum. „Ástandið í Tsjetsjníu hefur róast verulega,“ sagði Medvedev. „Við verðum að skapa nýja möguleika á fjárfestingum og atvinnu,“ sagði forsetinn jafnframt. Medvedev kom fram í sjónvarpi eftir viðræður við yfirmann rússnesku leyniþjónustunnar, Alexander Bortnikov.“
Ég ætla að þessu sinni að láta lesendum eftir að finna villurnar.
,,Einn ökuníðingur ók á 271 km hraða í nótt“ (DV28.03) Afhverju ,,Einn“. Óþarft orð.
Allt er það rétt ,sem Steini Briem segir um orðin ,,öryggisstig,óvissustig,viðbúnaðarstig og þjónustustug“. Þessi orð eru óttalegt klúður, að ekki sé fastar að orði kveðið.
Ekki hef ég tekið eftir því að veðurfræðingar á RÚV séu illa máli farnir,eins og Baldvin segir í athugasemd. Þvert á móti. Sigurður á Stöð tvö er sömuleiðis prýðilega mæltur og gott hjá honum að halda til haga gömlum orðum um veðurfar.
Í kynningu á ,,Speglinum“ í RÚV (30.03) var svo tekið til orða ,að líklega mundu nýnaistar bjóða fram til þings í Noregi í fyrsta sinn síðan fyrir stríð. Þetta er út úr kú. Það voru engir ,,nýnasistar“ í Noregi fyrir stríð.
Og svo að lokum, – enn um verð:,,Hér hafa komið ábendingar um hin ýmsu lægri verð á pizzum“. Af moggabloggi í kvöld (30.03)
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Guðmundur B. Ingvarsson skrifar:
01/04/2009 at 14:53 (UTC 0)
Svo ekki sé nú minnst á hið óhemjuljóta og óþarfa spennustig. Nú til dags getur spennan ekki verið mikil heldur þarf spennustigið að vera óskaplega hátt. Hvernig ætli maður mæli þetta spennustig??
Eiður skrifar:
31/03/2009 at 10:08 (UTC 0)
Biðst velvirðingar á fljótfærnisvillu í lok fyrstu málsgreinar. Þar á auðvitað að standa ,,…nema þar sem óhjákvæmilegt er.“ ESG