«

»

Molar um málfar XXXVII

Eitt af því sem  fréttaskrifarar hafa verið að  ruglast á   svo lengi sem ég man, er  heitið á   þeim  svæðum eða  stjórnsýslueiningum  (ekki gott orð!)  sem  mynda  Bandaríki Norður  Ameríku, – ,,The United States of  America“. Það er rétt að  tala um New York  ríki,  Vermont  ríki  o.sv.frv.    Á ensku er  talað ,,The  State of  Vermont, New York State“.   Alltaf  öðru hverju heyrist talað  um New York  fylki  eða  Flórída  fylki. Það er  rangt.  Ef það  væri  rétt  ætti að  tala um Bandafylki Norður  Ameríku. Það er  auðvitað út í hött. Þetta eru Bandaríki.

Til  eru ótal handbækur um réttan framburð  erlendra nafna. Nú  er  meira að segja  hægt að hlýða á framburðinn á netinu. Tvo fréttamenn  í útvarpi (RÚV  held  ég) heyrði ég  (30.03)    bera nafn  bandaríska leikstjórans og  leikarans   John Huston rangt fram.  Nafn hans  er  borið fram  Höston,  ekki Hjúston. Það er   borgin í Texasríki, Houston. Framburður    enskra orða  er  stundum óútreiknanlegur. Þá  er  að  fletta upp.  

,,Skilaskylda gjaldeyris hefur  ekki verið  að  virka“,  sagði fréttamaður  RÚV  sjónvarps í kvöld  (31.03) Er þessi  sýki orðin að ólæknandi plágu ?

Þorsteinn Sverrisson  nefnir í athugasemd að  við ættum að sækja  meira  af nýyrðum   til  Færeyinga. Það   tek ég heilshugar undir  og nefni  hér eitt orð  sem  við sem  best  gætum  fengið  að láni. En það er orð   yfir   það  sem  stundum er kallað  franskur  rennilás (e.velcro)

Venjulega eru þetta taurenningar  , öðru megin örsmáir  krókar hinumegin  örsmáar lykkjur. Það var færeyskure skóðbúðareigandi  sem  gaf þessu  fyrirbæri nafnið  ,,karðalás“. ,,Karðar“  eru kambar , ullarkambar á  færeysku.  Væri ekki tilvalið að kalla þetta kambalás á íslensku ?

Ég held að það hafi verið  færeyski málvísindamaðurinn Jóhan Hendrik W. Poulsen ,sem  bjó  til orðið geisladiskur. Honum þótti orðið langt og  fremur óþjált  og  bjó því  til annað  orð ,sem  nú er  eingöngu  notað um geisladiska í  Færeyjum. Það er orðið  ,,fløga“. Það  færi  vel á því að  við  notuðum þetta orð líka,  hljómflaga, myndflaga.

,,Reykjanesbær segir, að samkvæmt  tölum frá Hitaveitu Suðurnesja megi sjá að rafmagnsnotkun datt niður þennan tíma í samanburði við tvo síðustu laugardaga.“   Reykjanesbær  segir, og  ramagnsnotkun  datt niður  ! Þetta  stóð í Vefmogga  31.03. Merkilegt er að það  skuli  þykja fréttnæmt  að  rafmagnsnotkun minnki verulega , þegar slökkt  er á öllum  götuljósum   í bænum !

11 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sölvi, – ég er  hjartanlega sammála þér.  Jafnan  hef ég tekið  svo    til orða, að ég hafi  stundað nám í Delaware ríki í Bandaríkjunum.  Seinna  starfaði  ég sem  aðalræðismaður Íslands í  Manitoba fylki í  Kanada. K kv   Eiður

  2. Sölvi Eysteinsson skrifar:

    Það er löng hefði í íslensku að þýða „states“ í United States of America með „ríki“ en ekki „fylki“.  Hér verður málvenjan að ráða.  Hins vegar er líka hefði fyrir því að þýða orðið „province“ (landshluti í Kanada) með „fylki“. Mælikvarðinn á það sem rétt getur talist er fyrst og fremst málvenjan, þ.e. það óskrifaða samkomulag sem fólkið (þjóðin) hefur gert með sér um hvað sé rétt mál.  Það getur tekið hvert málsamfélag alllangan tíma að festa slíkt samkomulag í sessi.  Sölvi

  3. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Sæll Baldvin, –  ftramburðurinn  hjúston  er  ekki  í samræmi við  það sem upp er  gefið í Carnegie Mellon University  Pronouncing  Dictionary. Þetta situr  fast í mér  vegna þess  að   vinur minn bandarískur leiðrétti mig   er  ég  talaði um John (hjúston).Kannski  höfum við  báðir  rétt fyrir okkur. – 

    Pjetur,- það eru réttilega mörg álitamálin um fylki og ríki. Þegar Bandaríkjamenn tala um alríkisstjórnina í Washington DC er það „ the federal government“, þeir tala líka um „ federal taxes, state taxes“. Einstök ríki Bandaríkjkanna hafa verulegt sjálfstæði um margt , en fullveldi í ítrustu merkingu þess orðs hafa þau auðvitað ekki. Það sem á íslensku hefur verið kallað þjóðvarðlið (e. National Guard) er bæði hluti af herafla Bandaríkjanna og hersveitir á vegum hinna einstöku ríkja, t.d. „ the Delaware National Guard“ Það verður áreiðanlega áfram svo að í fréttaskrifum verður haldið áfram að tala um New York ríki og New Yorki fylki, – sem mér finnst heldur hvimleitt.

  4. Þ. skrifar:

    Talaði ekki Einar Benediktsson um „fylkjaforsetans morð“ og átti við Lincoln?

  5. baldvin berndsen skrifar:

    Sæll félagi. Nú má ég til að leiðrétta þig. Nafn leikstjórans og leikarans John Huston er einmitt borið fram ''hjúston ''. Svo má ég einnig til að benda á að Houston borg er borin fram '' hjúston '', en svo er gata í New York sem heitir Houston Street og er það borið fram '' háston '' ! Svona er þetta ! Þetta með ríkin og fylkin tel ég vera smekksatriði fremur en einhverja reglu en til að mynda þá nota ég alltaf fylki.

    kveðjur,

    Baldvin

  6. Pjetur Hafstein Lárusson skrifar:

    Er ekki hugsanlegt Eiður, að fólki sé tamara að tala um, t.d. Flórídafylki en Flórídaríki, vegna þess, að orðið ríki felur í sér fullveldishugtak?  Fylki Bandaríkjanna njóta að vísu ákveðins sjálfstæðis, en þau eru ekki fullvalda ríki.  Ef til vill ætti þetta fyrirbæri að kallast Sambandsríki Norður-Ameríku.  Það er að vísu ekki samband ríkja, en það er samband fylkja um eitt ríki.

  7. Eiður skrifar:

    Guðmundur, –  enginn  er óskeikull !

  8. Guðmundur B. Ingvarsson skrifar:

    Því miður þá held ég að sagnbeygingafælni sé orðin að ólæknandi plágu hér á landi.  Þú gefur þarna dæmi úr sjónvarpsfréttum RÚV frá því í gær.  Þetta er hræðileg þróun og sennilega verður ekki aftur snúið því enginn virðist kippa sér upp við þetta nema fáeinir sérvitringar eins og ég.  Þú fellur hins vegar sjálfur í gildruna í fyrstu setningu pistilsins – þar hefði verið miklu nær að skrifa: ,,Eitt af því sem fréttaskrifarar hafa ruglast á svo lengi sem…“.

  9. Elín skrifar:

    Þetta var áhugaverð lesning og skemmtileg. Mér líst sérstaklega vel á orðið kambalás. Mynd- og hljóðflaga er hinsvegar líklegt að auki enn á rugling þeirra sem reyna að brjótast í gegnum þann frumskóg sem tækjaflóra nútímans er orðin. Flaga hefur nefnilega verið notað um það sem á ensku heitir „chip“ og má finna í nánast öllum rafeindatækjum.

  10. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Sæl Berglind, – þetta með  fylki er  gömul meinloka, – þótt það standi í orðabók. Í Noregi eru  fylki, –  ekki í Bandaríkjunum, þótt auðvitað  megi halda því fram að  orðið hafi unnið sér  hefði í íslensku máli. State er  ríki  ekki   fylki. Þetta  með  norður finnst mér nú eiginlega ekki vera haldbær  röksemd.

  11. Berglind Ragnarsdóttir skrifar:

    ef þú flettir upp orðinu state í ensk-íslenskri orðabók færðu upp bæði fylki og ríki svo þú getur ekki sagt að það sé rangt að tala um New York fylki þrátt fyrir að United states of America sé þýtt sem Bandaríki Norður Ameríku, þýðingin er heldur ekki bein því þú sérð hvergi norður í enskunni

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>