«

»

Molar um málfar og miðla 1081

Prófaðu nýja skeggsnyrtirinn frá Babyliss, segir í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu (07.12.2012). Molaskrifari hlustaði tvisvar til að vera viss um að hafa heyrt rétt. Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins tekur greinilega við öllu, gagnrýnilaust, sem að henni er rétt.
Meira um auglýsingar: Í heilsíðu auglýsingu frá N1, olíufélaginu í Fréttablaðinu (07.12.2012) segir: … þegar verslað er eldsneyti. Þar ætti að standa: … þegar keypt er eldsneyti. Sá sem samdi textann þarf að kynna sér muninn á sögnunum að kaupa og að versla. Sumar auglýsingastofur bera ekki næga virðingu fyrir móðurmálinu.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (07.12.2012) var ítrekað talað um áhugalistamálara og vitnað í frétt á bls. 2 í DV. Í fréttinni er rætt við áhugalistmálara sem byrjaði að mála á áttræðisaldri. Smáatriðin skipta líka máli.
Af mbl.is (07.12.2012): Fréttaveitan Yonhap hefur eftir ónefndum embættismönnum í Suður-Kóreu að vinna við að smyrja lík Kim Jong-Il sé við það að ljúka og að líkið verði svo lagt við hlið föður hans í grafhýsinu. Vinna er ekki að ljúka. Vinnu er að ljúka.
Enda þótt Toyota-umboðið hafi verið lengi til húsa við þessa götu þá er hún ekki kennd við sölu nýrra bíla. Sjá visir.is (07.12.2012): Kona er alvarlega slösuð eftir bílslys sem varð á Nýbílavegi rétt austan við Þverbrekku rétt fyrir klukkan níu í morgun. Gatan heitir Nýbýlavegur, ný býli eru ný bú.
Lesandi bendir á þessa frétt á visir.is (07.12.2012): http://www.visir.is/konan-vard-fyrir-straetisvagni-/article/2012121209241
,,Það var strætisvagn sem ók á roskna konu“
Hér hefði nú verið betra að segja bara ,,Strætisvagn ók á roskna konu“ ekki, það varstrætisvagn sem ók á.” Molaskrifari er sammála.
Af mbl.is (07.12.2012): Annar þeirra reyndist vera verulega ölvaður og hinn undir áhrifum áfengis. Mennirnir voru sem sé báðir fullir. Báðir ölvaðir, báðir undir áhrifum áfengis.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (07.12.2012) var sagt um matarinnkaup Dana í kring um hátíðaranar: … fólk kaupir of mikið í matinn til hátíðabrigða. Molaskrifara finnst þetta ekki alveg rökrétt orðalag. Merkingin hefði komist vel til skila með því að segja: Fólk gerir vel við sig í mat um hátíðarnar. Kannski er þetta sérviska hjá Molaskrifara.
Í sama fréttatíma, sem heitir víst Spegillinn, var sagt: 7,7% vinnuaflans voru án atvinnu í mánuðinum. Átt var við að 7,7% , vinnandi fólks , vinnuaflsins hefðu verið atvinnulaus í mánuðinum.
Gaman að útvarpsperlu Sigrúnar Björnsdóttur frá 1994 sem flutt var á Rás eitt á laugardagsmorgni (08.12.2012). Þar var sagt frá Noregsför barnakórs Akureyrar árið 1954. Meðal einsöngvara með kórnum þá var fermingardrengurinn Arngrímur Jóhannsson seinna flugstjóri og frömuður í alþjóðlegum flugrekstri.
Fínn Landi á sunnudagskvöldi í Ríkissjónvarpinu (09.12.2012) eins og svo oft áður. Ekki síst kaflinn um Skrúð og þá undraveröld sem þar er að finna. Prýðileg heimildamynd um flutning Sinfóníunnar í Hörpu var svo rósin í hnappgatinu þetta ágæta sunnudagskvöld. Takk.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

12 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Þorvaldur!

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Hátíðar er fyllilega jafnrétthátt hátíðir, sérstaklega ef þessar hátíðar eru jólin eða páskarnir. Um þetta getum við Eiður verið sammála (til hátíðabrigða) og fengið til liðs við okkur Jón Hilmar Jónsson sem gaf út hina ágætu Stóru orðabók um íslenska málnotkun og sömuleiðis félaga Mörð með Íslensku orðabókina og þarf þá ekki framar vitnanna við.

  3. Eiður skrifar:

    Ég skoðaði líka vef Árnastofnunar. Hann er mjög góður,skoða hann mjög oft, en þarf ekki að vera algjörlega óskeikull.

  4. Linda skrifar:

    Stofnun Árna Magnússonar http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=h%C3%A1t%C3%AD%C3%B0.

    Vissulega má vera að báðar beygingarmyndirnar hafi viðgengist. Það er þó ekki þar með sagt að þær séu báðar réttar og jafnvel orð bestu manna breyta þar engu um.

  5. Eiður skrifar:

    Hef bestu manna orð fyrir því að báðar beyginmgamyndirnar , hátíðirnar og hátíðarnar hafa viðgengist nokkuð lengi. Kann að vera eitthvað landshlutabundið.

  6. Linda skrifar:

    Sammála með hófið Eiður, en reyndar var það annað sem ég var að benda á, þ.e. ranga beygingu þína á orðinu hátíðir. Smáatriðin skipta jú máli eins og þú sjálfur segir í pistlinum.

    Hafðu það gott um HÁTÍÐIRNAR og kærar þakkir fyrir alla þína góðu og gagnlegu Mola.

  7. Eiður skrifar:

    Hóf er best á hverjum hlut, Linda!

  8. Linda skrifar:

    Eiður, ég geri alltaf vel við mig í mat um hátíðirnar. Ekki hátíðarnar.

  9. Eiður skrifar:

    Strangt til tekið er þetta auðvitað rétt hjá þér, Kjartan. En ég hygg að það sé býsna fast í málinu að taka svona til orða, – og hefur verið lengi.

  10. Kjartan Már Hjálmarsson skrifar:

    Varðandi strætisvagninn sem ók á konuna: Hefði ekki verið réttara að segja: „Strætisvagni ekið á roskna konu.“? Bílar aka ekki, þeim er ekið af mönnunum.
    Er þetta ekki rétt máltilfinning hjá mér?

    Kv. Kjartan

  11. Eiður skrifar:

    Ég hallast nú eiginlega að Toyotaskýringunni, Bergur !

  12. Bergur Ísleifsson skrifar:

    Gaman væri að vita hvort þetta með Nýbílaveginn væri innsláttarvilla eða hvort sá/sú sem skrifaði héldi í raun að vegurinn væri kenndur við nýja bíla en ekki bú. Þá væri þetta afskaplega skemmtilegt dæmi um hvernig orð geta breytt um merkingu í tímans rás.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>