«

»

Molar um málfar og miðla 1088

Sögnin að valda veldur víða vandræðum, – meðal annars í fréttum. Á Stöð tvö var okkur sagt (16.12.2012) um hnúfubak sem festist í veiðarfærum báts að hann hefði ollið töluverðu tjóni. Sögnin að olla er ekki til. Þarna hefði átt að segja að hnúfubakurinn hefði valdið talsverðu tjóni. Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var sagt um ljósum prýdd hús í Reykjanesbæ að þau væru hver öðru flottari. Betra hefði verið að segja að húsin væru hvert öðru flottara, ef menn vilja endilega nota orðið flottur um skrautlýst hús.

Steinn Hafliðason sendi Molum þetta bréf (14.12.2012): ,,Það er bæði gaman og fróðlegt að lesa bloggið þitt um málfar í fjölmiðlum. Mig langaði að spyrja þig að einu en ég er farinn að fá málfarsmartraðir út af orðalagi sem fjölmiðlar hafa verið að tileinka sér undanfarin misseri en það er þegar þeir segja að eitthvað sé „x sinnum minna en upphaflega var áætlað“. Hér er frétt þ.s. í inngangnum þetta orðalag kemur fyrir. Þar stendur: „Íbúðahverfið í Úlfarsárdal og Grafarholti verður sex sinnum minna en gert hefur verið ráð fyrir.“
http://www.visir.is/byggt-i-ulfarsardal-fyrir-3,7-milljarda/article/2012712049923
Ég er búinn að ræða þetta við félaga mína sem sumir eru kennarar en enginn virðist vilja taka ábyrgð á því hvort þetta sé rétt orðað eða ekki utan einn eðlisfræðingur sem gerði stærðfræðilega greiningu á þessu fyrir mig, sem gagnaðist mér ekki í málfræðilegu samhengi.
Það væri sannarlega gaman að fá álit þitt á þessu orðalagi.”. Þetta, eða hliðstætt orðalag, hefur áður verið nefnt í Molum. Molaskrifari er sammála Steini um að þetta sé ekki æskilegt orðalag. Skýrara væri til dæmis að segja að eitthvað sé aðeins sjötti partur þess sem áætlað var. Gaman væri að heyra álit Molalesenda á þessu.

Í fréttum Stöðvar tvö (15.12.2012) var að sagt að manndrápstíðni (!) í Bandaríkjunum væri mun hærri en annarsstaðar í Vestur Evrópu ! Orðinu annarsstaðar var hér heldur betur ofaukið.

Nú er það tískuorðalag hjá mörgum fjölmiðlungum að tala um að eitthvað sé að bresta á sem er í þann veginn eða í þann mund að hefjast. Fréttamaður Ríkissjónvarps sagði okkur (15.12.2012) frá tónleikum í Hörpu sem voru að bresta á. Molaskrifari er vanur því að það sé eitthvað slæmt sem brestur á, eins og fárviðri, til dæmis, ekki eitthvað ánægjulegt eins og tónleikar.

Það var dálítið skrítið fréttamat hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (15.12.2012) að birta langt viðtal við frambjóðanda sem hafnaði í öðru sæti á lista VG í norðausturkjördæmi. Hver var fréttin?

Fyrirsögn í Fréttatímanum (14.12.2012): Líkfundurinn á Neskaupstað. Á fréttastofu Sjónvarpsins á sinni tíð kenndi fréttastjórinn, séra Emil Björnsson, okkur að segja í Neskaupstað. Þið farið ekki á kaupstað, þið farið í kaupstað, sagði hann. Séra Emil var Austfirðingur, Breiðdælingur.

Þar mættu lögreglumönnum tugir látinna, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (14.12.2012). Þar blöstu tugir látinna við lögreglumönnum. Þar var líka sagt: Nokkur þúsund tonn af síld lá dauð í fjörunni. Í fjörunni var mikið af dauðri síld.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steinn skrifar:

    Eðlisfræðingur sagði mér að stærðfræðilega myndi 6 sinnum minna en 100 útleggjast eftir farandi:

    100 – 6×100 = -500

    Ég minnist ekki að hafa heyrt þetta orðalag fyrr en nýlega en fann kennslubók fyrir börn þar sem það er kennt að 10 sinnum minna en 10 sé 1 þ.e. 1/10 (einn tíundi) af upphaflegu tölunni.

    Ég verð að viðurkenna að þetta er algjört nýmæli fyrir mér og finnst þetta engan veginn rökrétt né fallegt mál.

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Bið forláts.
    Auðvitað skrifaði Helgi „sýknt og heilagt“. Það var bara ég sem í fljótfærni kom tveimur villum í fimm stafa orð. Aðeins fyrsti og síðasti stafurinn eru eins og Helgi lét þá frá sér.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Lítt festi ég trúnað á að sýslungi minn, lyfjafræðingurinn og skáldið, hafi sagt: „..sínkt og heilagt.“

  4. Eiður skrifar:

    Sú bók er gulls ígildi, Sigurður.

  5. Sigurður Karlsson skrifar:

    Helga Hálfdanarsyni hefði líklega ekki litist vel á „sex sinnum minna“ enda spurði hann einu sinni hvaða vit væri í að „segja að ein tala sá oft hærri en önnur. Tuttugu er hærri tala en fimm, hvorki tvisvar, þrisvar, eða fjórum sinnum, heldur sínkt og heilagt.“

    Úr bók hans Skynsamleg orð og skætingur, bls. 71-72.

  6. Þorvaldur S skrifar:

    Nú er það svo að myndin „ollað“ sem lh.þt. af „valda“ var alltíð á fyrri tímum. Má td. sjá um það í http://www2.lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=521084&s=639688&l=valda&m=olla%F0
    Það er því ofmælt að sú mynd sagnarinnar sé ekki til.

  7. Eirný Vals skrifar:

    Mér finnst ótækt að segja að eitthvað sé 6x minna en viðmiðið.
    Að vísu erum við flest með fastan skilning á að það sem er helmingi meira sé 100% meira en viðmiðið.
    Réttara er að segja að eitthvað verði 1/6 hluti af viðmiði. Annað er á skjön við málvitund.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>