«

»

Molar um málfar og miðla 1101

Ný verslun kveður sér hljóðs í vondri auglýsingu í Fréttatímanum (04.01.2013). Verslunin heitir Holland & Barrett. Látum það nú vera. En í auglýsingunni segir á ensku: We´re good for you. Hversvegna erum við ekki ávörpuð á íslensku?
Í auglýsingunni segir: ,, Ef þú verslar vöru á krónu útsölu færðu aðra á aðeins 1 krónu”. Það er ekkert til sem heitir að versla vöru. Fólk kaupir vörur, verslar þær ekki. Í auglýsingunni er laugardagur ritað með upphafsstaf, Laugardagur. Það er ekki í samræmi við íslenskar ritreglur. Í auglýsingunni er talað um betri verð. Betri en hvað? Í þessari auglýsingu afhjúpast óvönduð vinnubrögð auglýsingastofu og dómgreindarleysi þeirra sem auglýsa.

Bifreiðin er ný og beint úr kassanum. Gaman að sjá þetta orðalag á mbl.is (04.01.2012). Einu sinni komu bílar nefnilega til landsins í voldugum trékössum. Síðustu bílarnir sem komu í kössum voru frá Sovétríkjunum. Þetta hefur sennilega lagst af á sjöunda áratugnum. Timbrið úr kössunum var eftirsótt, enda ódýrt byggingarefni.

Næstsíðasta veiðiferðin fyrir Ögurvík, segir í fyrirsögn á mbl.is (05.01.2013).
Betra væri: Næst síðasta veiðiferð Ögurvíkur. Ögurvík er togari. Mikið og kalt neysluvatn fannst í Fljótshlíð, segir í annarri fyrirsögn í sama miðli. Hversvegna .. og kalt? Álitamál er hvort ekki hefði í samræmi við málvenju átt að segja : … í Fljótshlíðinni, með ákveðnum greini.

Fínn Flakkþáttur hjá Lísu Pálsdóttur á Rás eitt (05.01.2013) þar sem hún flakkaði um Kvikmyndasafn á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og greindi frá því merka menningarstarfi sem fáir starfsmenn vinna þar. Mikilvægt er að halda staðreyndum til haga og hafa þær réttar. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var aldrei til húsa við Hvaleyrarbrautina í húsinu þar sem Kvikmyndasafnið er núna.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.01.2013) þar sem sagt var frá hinu skelfilega nauðgunarmáli á Indlandi var sagt að yfirvöld ætluðu að fjölga kvenkyns lögreglukonum! Í sömu frétt var sagt að mennirnir sem ákærðir hafa verið mundu fá flýtimeðferð. Mennirnir fá ekki flýtimeðferð. Málið fær flýtimeðferð. Gissur var greinilega ekki á vakt.

Þegar bændur sóttu sauðfé í Keflavík í Fjörðum talaði fréttastofa Ríkisútvarpsins (05.01.2013)um rollurnar. Molaskrifari man ekki betur en kýr hafi þar á bæ líka oftlega heitið beljur.

Molavin sendi eftirfarandi (05.01.2013): ,,… hópferðabifreiðar eru eknar yfir 700 þúsund kílómetra“ sagði í frétt, fréttakynningu og afkynningu kvöldfrétta Sjónvarps 4. jan. Kýr væru eflaust reknar (þó varla þessa vegalengd) er bifreiðum er ekið, en þær ekki eknar. Þetta málfar í fréttum kom svo á óvart að Molavin hlustaði aftur á upptöku frétta til að láta fréttamann njóta vafans. Þarna fara trúlega saman óvandvirkni og hugsunarleysi. Fréttaþulir mættu lesa texta yfir áður en útsending hefst. Sá var háttur áður fyrr.” Molaskrifari er reyndar á því að lengi hafi tíðkast að segja, t.d. Hvað er bílinn mikið keyrður, mikið ekinn ? Hann er ekki keyrður nema 15 þúsund kílómetra.

Hvað á það að þýða að kalla öflugasta jarðbor landsins ,,græjuna“ eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps (05.01.2013)? Í sömu frétt var sagt að borinn væri knúinn með rafmagni. Hversvegna ekki knúinn rafmagni eða rafknúinn?

Í fréttum Stöðvar tvö (07.01.2013) var ítrekað talað um sérstakan saksónara! Í fréttum sömu stöðvar er ítrekað haldið fram þeirri skoðun að olíuvinnsla geti hafist á Drekasvæðinu innan örfárra ára. Þetta er ekki í samræmi við það sem fram hefur komið í öðrum fjölmiðlum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Veit það núna. Leiðrétt í Molum morgundagsins. Takk.

  2. Bjarni skrifar:

    Ögurvík er útgerðarfyrirtæki sem gerir út togarana Frera og Vigra.

  3. Eiður skrifar:

    Rifjast upp að þetta heyrði ég fyrir langalöngu!

  4. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

    Pabbi sagði mér að þegar hann var að byggja í Smáíbúðarhverfinu hafi menn verið blankir og slegið upp mótum úr kassafjölum utan af bílum, því hafi hverfið verið kallað Casablanca.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>