Lesandi sendi Molum þetta skemmtilega bréf (21.01.2013): ,,Þú ræðir í Molum þínum um málnotkun fjölmiðlafólks – eða öllu heldur þegar það brestur máltilfinningu. Fleiri koma fram í fjölmiðlum, sem hafðu gott af tilsögn. Ég hlustaði á fréttamann Ríkissjónvarpsins ræða við væntanlega málfróðan mann, líklega starfsmann tölvurisans Apple á Íslandi, þar sem viðmælandinn var að fræða um nýtt snjallforrit sem á að kenna notendum að tjá sig á framandi tungumálum með ógnarhraða. Maðurinn ræddi um að jafnvel væri hægt að læra að bjarga sér á japönsku meðan á flugferðinni stæði milli landa og hversu mikilvægt það væri „að geta konnektað við lókalfólk“ (skrifað með ísl. letri – en hvorki ensku né japönsku). Mikið væri nú gott ef til væri forrit sem gæti kennt þessum íslenska manni í snarhasti að „konnekta við lókalfólk“ hér í heimalandinu á tungumáli þess – þ.e. á íslensku. Japanskan og enskan mættu svo gjarna koma síðar.
Í sama fréttatíma var sagt frá því, að borgarstjórinn í Reykjavík hefði flutt skrifstofu sína um set úr Ráðhúsinu og upp í Breiðholt. Borgarstjórinn sagðist með því ætla að anda djúpt að sér „The spirit of Breiðholt“. Má vera, að borgarstjórinn haldi að Breiðholtið sé úthverfi í Lundúnum og hafi lært í snarhasti á snjallforritið til þess að geta „konnekterað við lókalfólk“. Annars hélt ég að borgarstjórinn hefði ekki svo mikinn tíma til þess að læra. Alltaf að leika sér. Nú síðast með því að kasta sér í spariförunum í laugina frammi fyrir myndavélum. Af hverju var maðurinn ekki í „dragginu“, háhæluðu skónum, með parrukið og lökkuðu neglurnar – nú eða í Stjörnustríðsgallanum við það tækifæri? Rétt er það, að gervið verður að hæfa hlutverkinu. Þess vegna fór maðurinn auðvitað í sparifötin áður en hann henti sér í laugina. Þannig er það jú alltaf í amerísku försunum. Þannig gerði Chaplin. Þannig gerði Groucho. Og þannig gerir Gnarr. Dressaður fyrir hlutverkið. Konnekterar við lókalfólkið.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Þetta sendi Molavin: ,,Ræstivörusali auglýsir í blöðum: ,,Við elskum að þjónusta.“ Ekki verður sú ást dregin í efa að óreyndu, en er hér ekki full langt seilzt í orðavali? ,,Þjónusta” er nafnorð, sem myndað er af sögninni að ,,þjóna.” Sá sem þjónar fólki er ,,þjónn.”Afbrigði hafa orðið til á síðari árum. Þjónustufulltrúar þjóna viðskiptavinum banka. Sjálfsþjónusta er nýtt orð yfir hlaðborð, svo nokkuð sé nefnt (er viðskiptavinurinn þá sjálfsþjónn?). Auglýsingastofur mættu oft á tíðum huga betur að málfari.” Molaskrifari þakkar bre´fið.
Ríkisútvarpið ver nú ómældu fé til að auglýsa hve mjög þjóðin treysti stofnuninni (sem nú er búið að banna starfsfólki að kalla sínu lögbundna og rétta heiti og má ekki einu sinni heita stofnun heldur félag). Hversvegna eigum við að treysta stofnun sem getur ekki sagt áhorfendum sannleikann um endursýningar efnis, eins og til dæmis sænsku Millennium þáttanna nú að undanförnu. Líklega eru stjórnendur Ríkisútvarpsins eins og slægir stjórnmálamenn sem treysta gullfiskaminni kjósenda, – í þessu tilviki áhorfenda. Hversvegna má ekki segja okkur sannleikann? Skammast stjórnendur í Efstaleiti sín fyrir endursýningarnar?
Er hugsanlegt að niðurstöður áhorfskannana Ríkissjónvarpsins séu flokkaðar sem ríkisleyndarmál í Efstaleiti? Þær eru þá líklega það aleinasta sem fær að vera ríkis- eitthvað, hjá þeirri stofnun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
26/01/2013 at 12:16 (UTC 0)
Chaplin er einn pólitískasti kvikmyndagerðarmaður sögunnar. Margar mynda hans eru ríkar af samfélagsádeilu og gagnrýni. Svo því sé haldið til haga.
Eiður skrifar:
24/01/2013 at 12:43 (UTC 0)
Tók reyndar eftir þessu með stöðvarnar sem voru sendar af stað! Fáránlegt orðalag.
Kristján skrifar:
24/01/2013 at 12:21 (UTC 0)
„Við elskum að þjónusta“ ! Hljómar undarlega. Ekki er þetta vændishús ? Auðvitað enn ein beina þýðingin úr ensku „We love to serve“.
Þetta var á Vísi.is vegna bruna í Garðastræti;
Allar stöðvar voru sendar af stað, en öllum nema einni snúið við eftir að fyrstu reykkafarar höfðu farið inn. Garðastræti er lokað fyrir bílaumferð á meðan að lögregla og slökkvilið líkur störfum.
Markús Þórhallsson skrifar:
24/01/2013 at 10:04 (UTC 0)
Heill og sæll Eiður. Molavinur þinn gerir athugasemd við notkun auglýsingastofu á sagnorðinu að þjónusta, segir það vera nafnorð og þykir stofur þær eigi að huga betur að málfari. Ég fæ ekki betur séð en hér hafi það einmitt verið gert því SÖGNIN að þjónusta þýðir, ef marka má Íslenska orðabók að „þjóna, afgreiða, annast stundarþörf e-s“ og nefnir sem dæmi að þjónusta einhvern í verslun.