«

»

Molar um málfar og miðla 1120

Í Icesavemálinu höfðum við greinilega gott lögfræðingalið og góðan málstað. Utanríkisráðuneytið hélt vel á málinu fyrir hönd þjóðarinnar. Ráðherra og yfirstjórn ráðuneytisins skipulögðu og mönnuðu vörnina. Það var vel gert. En það var eins og niðurstaðan kæmi öllum á óvart. Langflestir töldu málið fyrirfram tapað. Sennilega hefur forsetinn talið það líka því hann var búinn að koma sér upp varnarstöðu með því að segja við erlenda fjölmiðla að niðurstaða EFTA dómstólsins væri ekki dómur, heldur aðeins lögfræðilegt álit sem ekki væri bindandi fyrir Íslendinga. Hann hefur að líkindum búist við tapi.

Umfjöllunin í fréttum Ríkissjónvarpsins var vönduð og vel unninn í alla staði. Takk fyrir það. Dálítið var hinsvegar undarlegt í Kastljósi að gera skrumkrafa formanns Framsóknarflokksins um að ríkisstjórnin ætti að biðjast afsökunar skyldi gerð að aðalatriði þessa flókna máls. Þá ætti að hugleiða hvort þeir séu ekki nokkuð margir sem komið hafa að þessu máli frá upphafi og löngu fyrir tilkomu þessarar ríkisstjórnar sem þá ættu að biðjast afsökunar. Samtal Sigmars við lögmanninn Jóhannes Karl Sveinsson var mjög fróðlegt og upplýsandi. Þó er ekki hægt að spyrja í dag, þegar niðurstaðan liggur fyrir, hvort hafi ekki verið rangt að gera Bucheit samningana?

Sömuleiðis var mjög athyglisvert að hlusta á Skúla Magnússon fyrrverandi ritara EFTA dómstólsins í tíufréttum sjónvarps. Um það segir á vef Ríkisútvarpsins: ,, Skúli Magnússon,fyrrverandi ritari Evrópudómstólsins segir óvænt að Íslendingar hafi verið sýknaðir af mismunun í Icesavemálinu. Hann varar fólk við að fagna dómsniðurstöðunni um of – þetta sé ekki íþróttakappleikur.” Með viðtalinu voru sýndar myndir af forkólfum Framsóknarflokksins á bar í Reykjavík sem létu eins og þeir væru að fagna sigri í fótboltaleik. Kannski voru þær myndir tilefni ummæla Skúla. Fleira mjög athyglisvert kom fram í viðtalinu við Skúla. Þarna var íslenskur banki að verki, sem íslensk stjórnvöld áttu að hafa eftirlit með.
Það virðast núna margir búnir að gleyma því að okkur voru allar bjargir bannaðar nema við gengjum frá Icesavemálinu. Engin lán og engin fyrirgreiðsla hjá AGS. Man enginn það lengur?

Í Útvarpi Sögu var niðurstaðan túlkuð sem sigur Útvarps Sögu. Icesave væri alfarið Steingrími J. að kenna! Þar var líka boðuð birting lista með nöfnum þingmanna og fræðimanna sem eru stjórnendum stöðvarinnar ekki að skapi. Sumir mundu sjálfsagt kalla það nornaveiðar.

Hinsvegar hefur enginn spurt kjarnaspurningarinnar: Hvað hefði gerst, ef við hefðum aldrei reynt að semja? Hvar stæðum við þá? En undarlegt er hve margir tala nú eins og það hafi verið fyrirfram gefið að Ísland mundi sýknað af öllum kröfum. Svo var nefnilega alls ekki.

Það var allsendis óþörf sletta þegar fréttamaður Stöðvar 2 (28.01.2013) sagði við alþingismann í Íslandi í dag: Þú hefur verið consistent í þinni afstöðu. Hann átti við að þingmaðurinn hefði ekki skipt um skoðun í málinu.

Það var undarlegt þegar rætt var við Sigurjón Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans um Icesave á Stöð tvö þennan sama dag að ekki skyldi nefnt að Sigurjón var að því fullyrt hefur hugmyndasmiður og upphafsmaður Icesave reikninganna og kallaði þá tæra snilld, muni Molaskrifari rétt!

Endalaust má deila um orðfæri og orðalag. Í fréttum Ríkisútvarps var um helgina sagt vegna mikils vinds. Það er auðvitað ekkert rangt við þetta. En sérvitur Molaskrifari hefði heldur sagt : … vegna hvassviðris …

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.01.2013) var ítrekað talað um stærstu vindhviðurnar. Eðlilegra hefði verið að tala um snörpustu vindhviðurnar eða jafnvel hörðustu hviðurnar, – ekki stærstu.

Sagt var frá kjötiðnaðarmannaskorti í sláturhúsum í fréttum Stöðvar tvö (27.01.2013) … sláturhúsinu vantar … eins og öðrum sláturhúsum. Sláturhúsið vantar … eins og önnur sláturhús. Ekki þágufall.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigmundur Grétarsson skrifar:

    Ég er sammála þér Eiður um hvað hefði gerst ef við hefuðum ekki sýnt samningsvilja. Hófsemd er best í þessu máli og ganga hægt um gleðinardyr.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>