«

»

Molar um málfar og miðla 1122

Gunnar sendi þetta (29.01.2013): „Æ tóldjúsó, þannig að maður sletti hér,“ sagði Birgitta Jónsdóttir í ræðustól Alþingis í gær, mánudag. Er þetta í lagi? Gerir forseti þings enga athugasemd og má sletta að vild? Bera þingmenn ekki lengur snefil af virðingu fyrir vinnustað sínum? Þetta finnst mér skammarlegt.
Annað mál. Ég hlustaði bæði á upptöku þingfundar og las svo fundargerðina. Þar var mikill munur á, t.d. því sem Birgitta sagði og svo á því sem var haft eftir henni á vefsíðu Alþingis. Fundargerðin er lagfærð og bæði orðum sleppt, orðaröð breytt og jafnvel bætt inn orðum eftir hentugleika. Þetta finnst mér afar einkennilegt.” Satt segirðu, Gunnar. Þetta er ósiður. Þingmaður heldur ræðu. Fær hana svo vélritaða, skrifaði ég fyrst , en líklega ætti að segja prentaða úr tölvuprentara! Þá á hann í rauninni bara að staðfesta með stöfunum sín að þetta sé ræðan sem hann flutti, kannski laga smá villur, en ekki breyta efnisatriðum. Ég veit að margir breyta miklu og að þetta hefur lengi viðgengist. Frá minni tíð man ég eftir mönnum sem voru síkrotandi í ræðurnar sem þeir höfðu haldið. Svo man ég líka eftir öðrum, Stefáni Jónssyni, til dæmis, áður fréttamanni, sem aldrei breytt stafkrók í sínum ræðum.- Þetta á bara að vera eins og ég flutti það, sagði hann. Stefán var nú líka þannig máli farinn að þar voru ekki ambögurnar eða mismælin í ræðunum hans, þótt ekki væri maður honum alltaf sammála.

Það var svolítið undarleg orðanotkun í fréttum Stöðvar tvö (28.01.2013) þegar sagt var frá útburði verslunareiganda við Rauðarárstíg og lögreglan þurfti að brjóta upp hurð, að segja að lögreglan hefði þurft að grípa til örþrifaráða ! Lögreglan þurfti að brjóta upp hurðina. Það voru nú öll örþrifaráðin.

Gjarnan mætti hafa svolítil endaskipti á hlutunum á Rás tvö. Það mætti fela Sirrý Arnardóttur, sem nú er með þátt á sunnudagsmorgnum að sjá um morgunþætti á Rás tvö frá níu og fram að hádegi í stað vitleysunnar sem nú er þar í gangi undir heitinu Virkir morgnar. Hún mundi auka hlustun, – mikið.

Í skjáauglýsingu í Ríkissjónvarpi segir: Líttu við hjá okkur. Ágætur útvarpsþulur sem les með þessum auglýsingum leiðréttir þetta jafnan og les réttilega: Líttu inn hjá okkur. Þetta er reyndar ekki eina skjáauglýsingin þar sem þessi þulur færir lakan texta til betra máls.

Ríkissjónvarpið sýnir oft prýðilegar dýra- og náttúrulífsmyndir frá BBC, breska ríkissjónvarpinu, enda er ekki hægt að kaupa þaðan vondar myndir um þau efni. Það er hinsvegar óskiljanlegt, eins og hér hefur oft verið nefnt að Ríkissjónvarpið skuli forðast eins og heitan eldinn að sýna myndir eða myndaflokka um stjórnmál , styrjaldir og sögu liðinnar aldar eins og norrænar og aðrar evrópskar stöðvar kappkosta að hafa á dagskrá fyrir sitt fólk. Okkur er bara boðið upp á Dans, dans og meira popp. Erlendir fréttaskýringarþættir sem voru fastir liðir í dagskránni á upphafsárum Sjónvarpsins sjást aldrei. Þessi dagskrárstefna er óskiljanleg.

Meira að segja máladeildarstúdent sér í hendi sér að 677 er ekki tæplega helmingur af 1318 eins og sagt var í fréttum (Ríkisjsónvarp 29.01.2013). Traustið byggist líka smáatriðunum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>