«

»

Molar um málfar og miðla 1134

Ýmislegt skolast til, jafnvel hjá stærstu erlendu fréttastofunum. Þannig var í fréttum NBC vestra sagt (11.03.2013), að sjö aldir væru síðan páfi hefði síðast beðist lausnar eða sagt af sér. Þetta er rangt. Það eru tæpar sex aldir síðan þetta síðast gerðist. Gregorý XII sagði af sér 1415. Íslenskir fjölmiðlar höfðu þetta rétt.

Við getum ekki látið heimilin í landinu blæða út, sagði einn af fulltrúum Framsóknar á Alþingi, Ásmundur Einar Daðason í umræðum á þriðjudag (12.03.2013). Einhverjum blæðir út, einhver blæðir ekki út.

Það var skrítið fréttamat hjá Ríkissjónvarpinu að sýna áhorfendum ekki þegar Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar varð sér til skammar í ræðustóli Alþingis (13.02.2013). Stöð tvö taldi atvikið réttilega fréttnæmt.

Æ oftar heyrist sagt, — þegar þarna var komið við sögu. (Kastljós 12.03.2013). Rétt er, þegar þarna var komið sögu, eða þegar þarna var komið.

Þetta er svona Groundhog Day , sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í ræðustóli á Alþingi (13.02.2013). Ekki skilja allir ensku. Eiga þingmenn ekki að tala íslensku þegar þeir fara í ræðustól á Alþingi? Molaskrifari hallast að því.

Þórhallur Birgir Jósepsson sendi Molum þetta ágæta bréf:
,, Sæll Eiður.
Í molum dagsins skrifar þú: „Í fréttum af óveðrinu og fannferginu vestan hafs fyrir helgina var talað um kafaldsbyl. Molaskrifari hefði notað annað orð. Þetta var ekki kafaldsbylur eins Molaskrifari skilur það orð. Svo var sagt (dv.is)að óveðrið hefi verið snjóstormur. Hrá aulaþýðing úr ensku, snowstorm. Sá sem skrifaði hefur sennilega ekki þekkt hið ágæta orð stórhríð. Ríkissjónvarpið talaði um stórhríð, fimbulkulda og fannfergi. Gott mál. Plús fyrir það.“

Þegar ég las þetta fór ég að rifja upp og reyna að muna hvernig móðir mín og amma töluðu um snjókomu. Þær voru báðar að norðan, fæddar 1912 og 1932. Ég hef ekki litið í orðabækur eða þjóðháttarit um þetta, heldur reyni bara að muna málfar sem viðhaft var í kring um mig í uppvextinum.
Stórhríð þekki ég varla af eigin raun, eins og eldri kynslóðir lýstu því veðurfyrirbæri. Held þó ég hafi kynnst fyrirbærinu lítillega einu sinni á Norðurlandi, veturinn 1976. Bjó þó allmarga vetur fyrir norðan. Ég skil stórhríð þannig: Hvass vindur, norðan eða norðaustan oftast, mikil og stöðug hríð, stendur yfir samfellt í tvo eða fleiri daga, þegar veðri linnir situr eftir gríðarlegt fannfergi. Algengt var að fólk ætti erfitt með að komast út úr húsum sínum eftir stórhríð og á meðan veðrið stóð yfir var ekki farið úr húsi, enda alls ekkert ferðaveður. Stórhríð gat staðið yfir linnulaust í marga daga.
Kafald er mikil hríð svo byrgir sýn og sér vart eða alls ekki á milli húsa. Oft er kafald í kyrru veðri, jafnvel í logni, en ef hvessir er það stundum kallað kafaldsbylur til merkis um hve dimmur bylurinn er vegna mikillar snjókomu. Og þá kemur bylur til sögunnar. Óþarft er að tala um snjóbyl (nema menn telji nauðsyn á að aðgreina hann frá sandbyl?). Aðalmunurinn á byl og stórhríð felst í tímanum, bylur getur staðið yfir í mínútur eða klukkustundir, jafnvel dægur, en stórhríð stendur ævinlega lengur yfir.
Svo er það skemmtilega fyrirbæri hundslappadrífa. Ég hef kallað hundslappadrífu þegar logn er eða lítill vindur og óvenjustórar snjóflygsur svífa nokkuð þétt til jarðar. Stendur yfirleitt stutt yfir.

Þetta er nú aðeins byggt á mínu minni, sem gæti svosem verið gloppótt hvað þetta snertir. En, fyrir forvitni sakir úr því þú segir: „Þetta var ekki kafaldsbylur eins Molaskrifari skilur það orð.“ Hvernig skilur þú það orð?” Molaskrifari segir: Ég skil orðið þannig að það sé mikil ofankoma og ekki mikill vindur. Þetta fer sjálfsagt eftir því hverju menn venjast í uppvextinum.

Myndir Viggós Haralddar Viggóssonar af dásamlegum og ótrúlegum dansi og loftfimleikum starrasveims yfir grenitrjáalundi á Hólmsheiði (12.02.2013) í lok frétta Ríkissjónvarps eru með því eftirminnilegasta sem Molaskrifari hefur lengi séð á þeim stað í fréttatímanum. Takk.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. En bréfritarar beðnir að taka fram hvort birta megi bréfin undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú, það er áreiðanlega rétt hjá þér. Þakka þér ábendinguna.

  2. Jón skrifar:

    Gregorý XII
    Er hann ekki kallaður Gregoríus XII á íslensku?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>