«

»

Molar um málfar og miðla 1136

K segir í athugasemd við Molana: „Munntóbakið valdi hrinu krabbameina“. Þetta er fyrirsögn í Fréttabl. í gær (12.002.2013). Þú hefur fjallað um þessa nýju tegund fyrirsagna að undanförnu. – Það er rétt. Prófessor emerítus Helgi Haraldsson í Osló gerði góðlátlegt grín að svona fyrirsögnum í Molum nýlega og nefndi mörg dæmi, sum meinfyndin.

 

Hér kemur svo önnur sending frá Helga í Osló (13.02.2013): http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/02/12/langthrad-lausn-i-kjaradeilu-landspitalans-og-hjukrunarfraedinga-uppsagnir-vaentanlega-dregnar-til-baka/

„Við sammældust um að greina ekki frá innihaldi samningsins opinberlega strax. Við viljum að hjúkrunarfræðingar og stjórnendur á spítalanum heyri innihald samningsins fyrst. ….,“ er haft eftir formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á Fréttavef Morgunblaðsins í kvöld.”- Sammældust – urðu þá allir jafn langir?

Menn sammæltust líklega um þessa lengdarjöfnun.

Góðar stundir,- Helgi Haraldsson – Molaskrifari þakkar Helga sendinguna.

 

Þessi munur reyndist of stór til að brúa, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (13.02.2013). Betra hefði verið: Þetta bil reyndist of breitt til að brúa. Heitir ekki annað bindi æviminninga Halldórs E. Sigurðssonar fyrrum ráðherra: Bilin á að brúa? Það er m.a. tilvísun til Borgarfjarðarbrúarinnar, sem var umdeild á sínum tíma rétt eins og og Hvalfjarðargöngin síðar. Sýnir hve skammsýni ræður oft miklu í rifrildismálum samtímans.

 

Lesandi benti á fyrirsögn á mbl.is (13.02.2013): Umhverfisvá æfð í Hafnarfirði, og segir:“Ætli það sé nokkur hætta á að æfing þessi hafi snúist um viðbrögð manna við válegum atburðum fremur en að náttúran hafi æft ógnatilburði??“ Það kom reyndar fram í fréttinni að æfa ætti viðbrögð, en fyrirsögnin er kjánaleg.

 

Afar vel unnið innslag í Kastljósi (15.02.2013) hjá þeim Jóhannesi Kr. Kristjánssyni og Agli Eðvarðssyni um ótrúlega atburðarás og mistök á sjúkrahúsinu á Akranesi og baráttu móður fyrir réttlæti. Það er með ótrúlegt að embættismaður eins og landlæknir skuli komast upp með að segja það eitt ,,að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana” í ljósi þess sem fram kom í þættinum.

 

Ótextaður fíflagangur með söngkonu í svokölluðum ,,Hraðfréttum” var hvorki fyndinn né aðstandendum til sóma.

 

Molaskrifari á ómögulegt með að gefa spurningaþættinum Gettu betur í Ríkissjónvarpinu (15.02.2013) háa einkunn. Þátturinn er flatur, spurningar óspennandi og hann nær sér aldrei á flug. Þarna þarf að breyta , – miklu. Spurningaþættir geta verið góð skemmtun, Útsvarið er það oft. Því er vel stjórnað. Þar að auki er þátturinn margsundurslitinn af auglýsingum. Framhaldsskólanemar eru margir mjög fróðir,nánast fjölfræðingar,  en í þættinum í gærkveldi voru áberandi gloppur í kunnáttu í landafræði og samtímasögu. Segir það okkur  eitthvað um skólakerfið?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. En bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréfin undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>