«

»

Molar um málfar og miðla 1138

Molaskrifari átti skemmtilega stund í Háskólanum í Reykjavík í liðinni viku. Þar spjallaði hann í rúmlega klukkustund við nemendur sem sækja námskeið í hagnýtri notkun íslensku og ensku. Þetta unga fólk var áhugasamt og spurði um allt milli himins og jarðar. Stundum skorti sjálfsagt á að svörin væru fullnægjandi, en hvað um það. Ég skynjaði að þetta unga fólk vildi gera vel og vanda sig og þótti vænt um móðurmálið.

Ég hef verið að bögglast með að finna nothæfa þýðingu á enska orðtakinu; damned if you do, damned if you don´t. Efnislega, ef þú gerið eitthvað ertu í klandri, en ef þú gerir það ekki, ertu líka í klandri. Tilefnið er fréttir af launadeilu hjúkrunarfræðinga. Hvað hefði verið sagt við stjórnvöld sem hefðu setið með hendur í skauti og horft á helming hjúkrunarfræðinga á Landspítala ganga út og hverfa til annarra starfa? Nú er djöflast á stjórnvöldum vegna þess að komið var til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga að hluta, því nú muni allrar aðrar stéttir koma með kröfur í kjölfarið. – Það er víst vandlifað í henni veröld eins og þar segir.

Molaskrifari lærði nýja orðskýringu við lestur Reykjavíkurbréf Moggans um helgina. En þar var sagt að kosningar til Evrópuþings væru eins og hver önnur forarvilpa! Eru kosningar ekki eitthvað sem því tengjum lýðræðinu? Það er samkvæmt þessu heldur vont stjórnarform. Kannski gildir þetta aðeins um Evrópuþingskosningar, – því í Mogga er amast við svo mörgu sem tengist samstarfi Evrópuríkja? En býður Morgunblaðið betra stjórnarform en lýðræði með frjálsum kosningum ?

Í fréttum Stöðvar tvö (17.02.2013) var sagt: Það orð sem fer af … virðist ekki við neina rök að styðjast. Ekki við nein rök að styðjast, hefði verið rétt að segja.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á grein sem Tryggvi Jónsson löggiltur endurskoðandi og fv. forstjóri Baugs skrifar í Morgunblaðið í dag (19.01.2013).Tryggvi spy: Er Hæstiréttur óskeikull? Molaskrifari hallast að því eftir lestur greinar Tryggva að Hæstiréttur Íslands sé óravegu frá því að vera óskeikull. Ótrúlegt mál.

Í Sunnudagsmogga er heil opna þar sem er hvítt letur á kolsvörtum grunni. Ekki veit Molaskrifari hvernig er með aðra, en honum hefur alla ævi verið lífsins ómögulegt að lesa langan texta sem er hvítur á svörtum grunni. Las endur fyrir löngu í bók um blaðamennsku að slíkt væri í lagi að gera með eina eða tvær málsgreinar en alls ekki langan texta. Hvað segja Molalesendur? Finnst þeim þægilegt að lesa hvítt á svörtu.

Í ágætu bréfi Aldísar Aðalbjarnardóttur sem birtist í Molum um málfar og miðla 1135 misritaðist ein setning. Rétt er setningin svona: ,,Áberandi hefur verið að nemendur sleppa t í miðmynd sagna, oft í framsöguhætti. Dæmi: Þeir komas alla leið. Þær reynas mér vel.” Beðist er velvirðingar á þessu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurjón.

  2. sigurjón skrifar:

    skömm af gerðu og skömm af ógerðu
    illt að gera og illt að láta vera
    illt er gert og illt er ógert

  3. Eiður skrifar:

    Sammála, – sleppi því yfirleitt að lesa hvítt á svörtu. Hef aldrei skilið skilið þetta. Góð þýðingartillaga. Takk.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Mér hefur alltaf gengið illa að lesa ljóst letur á dökkum grunni. Nú orðið hleyp ég yfir efni sem þannig er fram sett. Ég kaupi ekki tímarit ef ég veit af slíkri uppsetningu.

    Tillaga að orðalagi, þú ert í illum málum hvað sem þú gerir

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>