«

»

Molar um málfar LIV

Merkilegt er að heyra þingmenn (15.04.) tala um „þrjár kosningar“, þegar segja ætti þrennar kosningar. Það eru ekki mörg ár síðan núverandi forseti Íslands talaði um „tvö verðlaun“ í áramótaávarpi til þjóðarinnar.Hann hefði átt að segja tvenn verðlaun. . Á lokadegi þingsins (17.04) sagði þingmaður: „Vonandi ber okkur gæfa til þess að samþykkja þetta frumvarp.“ . Þessi þingmaður hefði betur sagt: „ Vonandi berum við gæfu til….“. Þetta fólk á að hafa betri tök á tungunni en þessi dæmi gefa til kynna.

Í fyrri Molum var vikið að morgunútvarpi Rásar tvö í RÚV. Hlustaði (16.04) í nokkrar mínútur rétt fyrirr klukkan sjö og aftur upp úr klukkan átta. Á þessum fáu mínútum tókst umsjónarmanni að tala þrisvar sinnum um „lag af nýjum disk“. Orðið diskur beygist, diskur, disk, diski,disks. Lag af nýjum diski, hefði ég viljað heyra. Á Rás eitt sama sama morgun kynnti umsjónarmaðurinn KK lag með Karlakórnum „Heimir.“ Beygingaletin eða beygingafælnin breiðist út í Efstaleitinu.

Meira um morgunútvarp Rásar tvö í RÚV (17.04). Umsjónarmaður var að rekja merkisatburði sem gerst hefðu 17. apríl í áranna rás. Nefndi til sögu, að þennan dag hefði „Duffy Duck komið fyrst fram í varner bros“( skrifað eftir framburði) . Það tók Molahöfund nokkra stund að átta sig á því að umsjónarmaður átti líklega við, að þennan dag hefði teikniöndin Daffy Duck fyrst birst á hvíta tjaldinu í teiknimynd frá bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Warner Brothers. Enska orðið Brothers er stundum stytt í Bros. í nöfnum fyrirtækja. Það er hinsvegar alltaf lesið óstytt, – brothers, ekki bros. ! Það er svo önnur saga hve illa okkur Íslendingum gengur að gera greinarmun á framburði v og w þegar um ensk orð er að ræða. Það er sennilega algengasta framburðarvilla Íslendinga á enskri tungu.

Það væri þarft verk ef málfarsráðunautur RÚV léti fréttamönnum og dagskrárgerðarfólki í té lista með forsetningum og staðanöfnum. Þá hætti maður vonandi að heyra sagt „á Keflavík“ eins og sagt var á Rás tvö (17.04.) í morgun. Ég bíð eftir að heyra að talað verði um að fara „upp á Keflavík“. Farið er að heyrast í talmáli í Reykjavík að fara „upp á Selfoss“. Það er eins og menn fari upp á allt núna. Þeir einir fara upp á Selfoss, sem búa á Eyrarbakka, Stokkseyri og í grennd. Eða í Stekkum í Sandvíkurhreppi þar sem Molahöfundur var eitt sumar í sveit upp úr 1950. Þar var reyndar stundum talað um að fara upp að Fossi.

Og  svo í  lokin  nokkur orð um nútíðarnafnháttarsýkina. Rætt var   við  stjórnmálafræðing (17.04.) um  stjórnmálahorfur í morgunútvarpi  Rásar  tvö.  Allir  voru illa haldnir  af pestinni, bæði  umsjónarmenn og  fræðingurinn.  Þau  voru ekki að  sjá og  stjórnmálamenn voru  ekki að  gera, og  svo framvegis. Ljótt var að  heyra.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

     Þetta orðalag hef ég líka heyrt,Sæmundur. Getur  ekki verið að  fólk í  sveitunum austan Selfoss  hafi líka  tekið  svona  til orða ?

  2. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Merkilegt með Selfoss. Í mínu ungdæmi var oft talað um að fara útað Ölfusá og þá var átt við Selfoss. (frá Hveragerði).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>