Af mbl.is (26.02.2013): Jeppinn var fastur úti í miðri ánni og gruggugt og straumþungt vatnið umlykti hann nær allan. Jeppinn var næstum alveg á kafi í ánni. Meira úr sömu frétt: Lögreglan vill ekki greina frá um hvaða ferðaskrifstofu ræði. Lögreglan vill ekki greina frá því hvaða ferðaskrifstofa hér á í hlut, hvaða ferðaskrifstofu hér er um ræða. Sá sem skrifaði þessa frétt þarf á leiðsögn að halda. Það er furðuleg verndarstefna lögreglunnar að greina ekki frá nafni ferðaskrifstofunnar, ef ítrekað hefur þurft að senda björgunarsveitir til að bjarga fólki í ferðum á hennar vegum eins og fram kemur í fréttinni.. Í fréttum Stöðvar tvö (26.02.2013) var viðtal við þann sem ók jeppanum. Í Fréttablaðinu (27.02.2012) var mynd af ökumanni, viðtal og heiti ferðaskrifstofunnar birt. Í Morgunblaðinu sama dag er sagt að lögreglan vilji ekki greina frá því hvaða ferðaskrifstofa hafi átt hlut að máli! Meiri vitleysan.
Frábær spennumynd. Byggð á leitinni af Osama Bin Laden, segir í auglýsingu frá Laugarásbíói (26.02.2013). Hér á að standa, – byggð á leitinni að, ekki leitinni af. Við leitum að e-u. Ekki af e-u.
Af mbl.is (27.02.2013): Lýst var yfir neyðarstigi, svokölluðu rauðu stigi, en því var aflétt innan skamms, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði og lögreglu. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að nota þarna annað orðalag en , – innan skamms. Til dæmis hefði mátt segja: … en því var aflétt eftir skamma stund.
Af visir.is (27.02.2013): Nú er vatni farið að sjatna í flestum ám á Suður og Vesturlandi. Til dæmis efst í Hvítá á Suðurlandi, en það er enn mjög mikið rennsli neðan til í henni eða þar sem hún skiptir um nafn og heitir Ölfusá. Hér hefði dugað að segja í upphafi: Nú er farið að sjatna í flestum ám . – Það er að segja farið að draga úr rennsli … Svo er það dálítið sérkennilegt að segja að Hvítá skipti um nafn! Eftir að Sogið og Hvítá sameinast heitir áin Ölfusá. Það eru víst mörg ár síðan hætt var að kenna landafræði Íslands í íslenskum skólum.
Skemmtileg og fróðleg umfjöllun þeirra Þorsteins Gunnarssonar og Egils í Kiljunni í gærkveldi (27.02.2013) um dómkirkjuna og fríkirkjuna í Reykjavík.. Margir hefðu haft gaman af að sjá kirkjuloftið í dómkirkjunni sem aðeins var nefnt en ekki sýnt. Þá horfði Molaskrifari á heimildamynd í Ríkissjónvarpinu um ,,slátrarann frá Lyon”, nasistaforingjann Klaus Barbie. Vel gerð mynd og fróðleg. Það er nýlunda að Ríkissjónvarpið sýni heimildamyndir af þessu tagi. Meira af slíku, takk.
Morgunblaðið birti lesendum sínum langan leiðara um ítölsku kosningarnar (27.02.2013). Það er tilraun til fréttaskýringa, – ekki mjög vel heppnuð að vísu. Hinn gjörspillti og moldríki Berlusconi er líkast til sá stjórnmálamaður erlendur sem Morgunblaðið dáir mest um þessar mundir, – svo undarlegt sem það nú er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
28/02/2013 at 13:35 (UTC 0)
Þetta er aldeilis ótrúlegt rugl!
Þórður St. Guðmundsson skrifar:
28/02/2013 at 12:20 (UTC 0)
Þetta las ég á síðu 110 á textavarpinu í dag 28. febrúar. Væri nú ekki hægt að orða fr´ttina ögn betur?
……..Pilturinn náði ekki að forða sér undan
bíl mannsins og hlaut meðal annars
stórt sár á höfuðleðri rétt ofan við
við enni sem náði niður að beini. Fram
kemur í ákærunni að stór húðflipi hafi
hangið laus á lítilli vefjatægju og 3
sentímetrar skurður hafi verið út frá
því sári.