«

»

Molar um málfar og miðla 1166

Sæmundur E. Þorsteinsson sendi eftirfarandi (21.03.2013): ,,Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í dag 20.3. var sagt frá skipi sem keypt hafði verið „til að þjónusta olíuleit“.
Sögnin „að þjónusta“ hefur mjög fært sig upp á skaftið undanfarin ár. Mér finnst setningin varla skiljanleg, á að nota skipið til olíuleitar eða einhvers annars sem tengist olíuleit?
Annars var ég á leiðinni út í Bónus þegar ég heyrði þetta, „til að bónusa í matinn“ eða „til að versluna í matinn“. Það verður gaman þegar enn fleiri nafnorð hafa breyst í sagnorð !” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Stóriðjufyrirtækið Norðurál notar enskuslettuna næs í heilsíðuauglýsingu í fylgiriti Morgunblaðsins sem nefnist Sóknarfæri á fimmtudag (21.03.2013). Þetta er allsendis óþörf málmengun.

Á síðunni Nei við ESB stendur (21.03.2013): Á fundi nefndarinnar lagði formaður hennar, Gabriel Mato Adrover, til að afgreiðsla hvers dagskráliðar á fætur öðrum yrði frestað, en aðeins 5 af 12 dagskráliðum voru teknir til afgreiðslu. Hér ætti auðvitað að standa: Á fundi nefndarinnar lagði … til að afgreiðslu hvers dagskrárliðarins á fætur öðrum yrði frestað …

Árni Johnsen segir nú lag að byggja jarðgöng til Eyja, segir í fyrirsögn á dv. is (23.03.2013). Byggja jarðgöng? Það er greinilega eitthvað alveg nýtt.

Molaskrifari er ekki hrifinn af því orðalagi sem sífellt er tönnlast á í fréttum Ríkisjónvarps um deilumál á Alþingi, – að mál séu í ágreiningi. Hversvegna má ekki segja til dæmis að ágreiningur sé um mál, menn greini á um mál? – Flest er betra en að segja mál vera í ágreiningi.

Sagt var í fréttum Ríkisútvarps (21.03.2013): Haraldur segir að ekki hafi verið ákveðið hvort dómurinn verði áfrýjað. Þetta heyrist æ oftar. Hefði átt að vera: Haraldur segir að ekki hafi verið ákveðið hvort dómnum verði áfrýjað.

Hálf hjákátlegt var í fréttum Stöðvar tvö (21.03.2013)að tala um að skella hurð Alþingis á eftir sér! Frekar hefði mátt tala um að ljúka þingstörfum með hurðaskellum. Í sömu frétt var sagt: … mundi kjörtímabil ríkisstjórnarinnar ljúka með hvelli. Betra hefði verið: Mundi kjörtímabili ríkisstjórnarinnar ljúka með hvelli.

Einn helsti forsprakki Lýðræðisvaktarinnar, svo nefndu, er Pétur Gunnlaugsson, sem stjórnar símaþætti Útvarps Sögu. Pétur er stjórnarformaður fyrirtækisins og lögmaður. Þar var nýlega útvarpað ( endurtekið 21.03.2013) símtali við konu, Ingibjörgu, sem greinilega var ekki í góðu jafnvægi. Konan talaði (efnislega) um helvítis júðapakk og viðhafði fleiri gífuryrði. Á eftir talaði Pétur Gunnlaugsson um skörulega framgöngu konunnar. Hvergi viðgengst, óátalið, jafn sóðalegt orðbragð í fjölmiðli eins og í þessari útvarpsstöð, Útvarpi Sögu. Það er svolítill mælikvarði á siðferði og mannasiði.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Ekki skal ég bera á móti því. Mitt innlegg þjónustaði þann tilgang að hrekja að einhverjir nýmóðins bögubósar hebbðu búið orðið til nú á þessum síðustu og, að margra mati, verstu tímum af fádæma ósmekkvísisskorti (svo að maður bæti nú gráu ofan á svart með að hafa bandstaf í samsettu orði) og þar með höggvið í sama knérunn og til dæmis höfundur orðsins -skrifta- sem getur víst bæði verið sögn og nafnorð og -skoppa- og -skora- og -skilja- og -greiða- og…

  2. Eirný Vals skrifar:

    Þó svo sögnin að þjónusta sé gömul og gegn þá er vart við hæfi að segja eða skrifa að skip þjónusti leit. Mannfólk leitar olíu og aðrir verða á skipum sem þjónusta ÞÁ sem leita olíu.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    „Að þjónusta“ er gömul og gegn sögn í íslensku. Hún hefur þá merkingu frá fornu fari að veita altarissakramenti, gjarnan deyjandi mönnum, og, væntanlega á síðari tímum, að veita þjónustu, þjóna, afgreiða sbr. félaga Mörð

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>